» Party in the moonlight and dance to the sunrise...þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Leti


Ég hef eiginlega ekkert nennt að skrifa á þetta blogg undanfarna daga, það eina sem kemur frá mér í dag er örlítill skammtur af tónlist.

Jan Wayne feat. Charlene - Here I Am (Send Me An Angel) >> Jan Wayne var að meika það fyrir 2 árum síðan með Because The Night og Total Eclipse Of The Heart, satt að segja finnst mér ansi lítið varið í þessa endurgerð á gömlu Scorpions ballöðunni.

The Pirates Ft Shola Ama - You Should Really Know >> Þetta lag hljómar ansi kunnuglega, gæti verið... I Don't Wanna Know...

Kim-Lian - Kids In America >> Mig minnir að Kim Wilde hafi sungið þetta á sínum tíma, en samt ágætis endugerð, allavega ekki verið að nauðga laginu í þetta skiptið.

Marco V. - Automanual >> Hinn belgíski Marco V. klikkar aldrei, ef þið fílað trance eða techno þá er þetta eitthvað fyrir ykkur.

Luna - Mindspace (Sensation Black 2004 Theme) >> Ég dýrka Sensation tónlistarhátíðirnar og ég hefði alveg viljað vera á Sensation Black/White í ár... þetta er svarta lagið 2004.

Lostprophets - Last Summer >> Þetta er bara flott rokklag.

Korn - Another Brick In The Wall (Live in Berlin) >> Það var æðislega gaman á Korn tónleikunum í Höllinni í vor... þessi upptaka er frá tónleikum sveitarinnar í Berlín fyrr í sumar... hvernig var textinn nú aftur, Hey Teacher, Leave The Kids Alone...

Korn - Word Up >> Þessi endurgerð á gamla Cameo smellnum er algjör snilld...


mánudagur, ágúst 30, 2004

Urð og grjót


Ég gæti skrifað heila ritgerð um það sem ég gerði um helgina... en ég nenni því bara ekki núna. Helstu tíðindin voru að ég fór í langa gönguferð í "veðurblíðunni" á laugardaginn. Ég gekk úr Álftafirði yfir í Önundarfjörð í rigningu og roki. Samtals voru þetta um 15 km og hæst fór maður í 725 metra hæð. Ég lét mér þetta ekki alveg duga því ég tók 5 km aukalega - just for fun - í Korpudal í Önundarfirði. Svo tók við partý og að lokum var haldið á Ástarballið í Víkurbæ...


fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Síngalí


Ég neyðist víst til að fara á golfmót á "Síngalí" í dag, þetta er golfmót fyrir fáa útvalda í boði ákveðins fyrirtækis. Fyrir þá sem vita ekki hvað "Síngalí" er þá er þetta tælenski framburðurinn á Þingeyri.Ég held að atburðir gærdagsins á Flateyri hafi snert flesta hér fyrir vestan. Ég vildi bara benda á minnigarsíðuna um Sif Magnúsdóttur sem Biggi og Fiffi hafa sett upp.


miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Sírenur og sjúkrabílar


Mér líður alltaf illa þegar ég heyri sírenuvæl eða sé sjúkrabíl með blikkandi ljós því þá veit ég að eitthvað slæmt hefur hugsanlega gerst. Þegar ég bjó í fyrir sunnan þá heyrði ég sírenuvælið næstum daglega og alltaf varð mér jafn brugðið þegar ég heyrði það. Reykvíkingarnir skildu ekkert í því af hverju ég brást svona við sírenuvæli en ég held að skýringin liggi í því að maður ólst upp í fámennu byggðarlagi úti á landi þar sem allir þekkja alla. Þegar maður verður var við að sjúkrabíll sé á ferðinni þá koma alltaf spurningar á borð við þessar upp í hugann, "Hvað ætli að hafi komið fyrir?" "Ætli það hafi eitthvað komið fyrir einhvern sem ég þekki?" Maður verður svo aldrei rólegur fyrr en maður veit hvað hefur gerst. Oftast fer betur en á horfðist en stundum - því miður - hafa hlutirnir farið á versta veg.


þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Einn góður...


Ég er búinn að skrifa svo margar langar færslur undanfarið að ég ætla að spara plássið á síðunni með því að linka bara á þennan fina brandaraÞað er ekki á hverjum degi sem maður fær hrós frá Vefþjóðviljanum en það gerðist einmitt í gær. Þar segir:

"Mjög virðist vera til fyrirmyndar, söfnun Vestfirðinga vegna útsendinga Skjás eins í nokkrum þorpum. Þar hafa heimamenn safnað fé til að fjármagna með stöðinni uppsetningu senda. Að vísu lagði eitt bæjarfélag 200 þúsund krónur til einnar söfnunarinnar og vissulega var það aðfinnsluvert, en að öðru leyti virðist þetta hið ágætasta framtak. Að sjálfsögðu munu einhverjir ná útsendingunum án þess að hafa lagt krónu til söfnunarinnar, en enginn réttur er brotinn á neinum með því. Þeir bæjarbúar sem lögðu fram fé, vissu auðvitað af því að einhverjir flytu með. Þetta er hin eðlilega aðferð. Enginn er neyddur til að greiða fyrir neinn sendi; þeir sem frekar vilja fá sendi en eiga fimmþúsundkall í veskinu - eða hvað það var sem fólk lagði fram - þeir borguðu, hinir lúrðu bara áfram á fé sínu og nota það vafalaust til einhvers sem þeim finnst enn meira máli skipta. Frá almennu sjónarmiði getur það verið einhver ómerkilegri og óskynsamlegri hlutur en sendir fyrir Skjá einn, en þetta fólk er að ráðstafa eigin fé. Og það er jafnan viðkunnanlegra en þegar fólk ráðstafar annarra manna fé. Hversu mikinn „skilning“ sem þeir ráðstafendur hafa á því hvað annað fólk ætti nú að gera við peningana sína."

Það sem þarna er verið að fjalla um er frelsi fólks til að ráðstafa sínu fé í það sem fólki telur vera sér til hagsbóta... jafnvel þó einhverjir laumufarþegar fljóti með... já, og það var enginn neyddur til að borga... og ekki leitað til bæjarins eftir peningum þannig að skattpeningar almennings eru ekki notaðir í sendinn. Erum við ekki að tala um einstaklingsframtakið í sinni fegurstu mynd?Mér finnst þessi frétt frá Grundarfirði alveg mögnuð, í 9 ára sögu golfvallarins þar hafði enginn farið holu í höggi á vellinum þar til um helgina en þá fóru TVEIR kylfingar 2. holu vallarins á aðeins einu höggi.... og þetta er par 4 hola, þannig að mennirnir fengu ALBATROS sem er mjög sjaldgæft í golfinu.Ég var búinn að lofa einhverjum lögum tengdum ástinni... ætli það sé ekki best á byrja á væmnu lögunum:

Stevie B - Because I Love You (The Postman Song) >> þetta lag var á NOW 19 sem var einn af fyrstu geisladiskunum sem ég eignaðist, þetta er eitt af þessum lögum sem ég fæ aldrei leið á.
Páll Óskar - Ást við fyrstu sýn >> ég held að titillinn segi allt sem segja þarf...
DJ Sammy & Yanou - Heaven (Candlelight Remix) >> Íslandsvinurinn DJ Sammy sem varð þekktur fyrir 2 árum síðan fyrir að gera frábæra dansútgáfu af Heaven... en "kertaljósa-remixið" varð einhverra hluta vegna mikið vinsælla á Íslandi heldur en upphaflega útgáfan.

Ég var mikill Queen-aðdáandi í gamla daga... hérna er Queen-andi skammtur af ást:

Queen - Crazy Little Thing Called Love
Queen - Somebody To Love
Queen - Too Much Love Will Kill Youmánudagur, ágúst 23, 2004

15 mínútur af frægð


Ég er búinn að fá mínar 15 mínútur af frægð í bili, allt út af SkjáEinum. Fréttin um að okkur Bolvíkingum hafi tekist að safna fyrir sjónvarpssendi er búin að birtast á a.m.k. 4 fréttavefjum í morgun.

vikari.is
bb.is
mbl.is
visir.is


laugardagur, ágúst 21, 2004

Stelpuslagur


Þetta er sko flottur bardagi.Alltaf gaman að horfa á svona video... Eric Prydz - Call On Me


föstudagur, ágúst 20, 2004

Ástarvikan


Ég var að heyra að það yrði haldin sérstök Ástarvika hérna í Víkinni í næstu viku, ég hef ekki séð dagskrána en býst við að atburðir vikunnar eigi eftir að verða rismiklir. Ég er að hugsa um að nota tækifærið í næstu viku og lauma inn nokkrum vel völdum ástarlögum... ef fyrst er það djammtónlist helgarinnar.

DT8 - The Sun Is Shining >> Þetta passar einmitt við veðrið í dag... sólskin og blíða, þetta er original útgáfan af laginu en Darren Tate remixið er mikið betra.
2Play - So Confused (Flip & Fill Mix) >> Upphaflega var þetta R&B lag en mér finnst þessi útgáfa bara miklu flottari.
The Party Animals - Total Confusion (Mash Up 2004) >> Have You Ever Been Mellow... og svo framveigis... algjört flipp.
Groove Coverage - Poison (Friday Night Posse Remix) >> Gamla þungarokkið lifir... eða þannig, þetta svínvirkar allavega á diskótekunum í dag.
4 Strings - Turn It Around >> Mér finnst þetta lag alveg æðislegt, það bara eitthvað við það sem gerir það gott.


fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Snilld
Eitt af því sem mér finnst vera ljótur blettur á golfíþróttinni er viðhorfið til klæðaburðar kylfinga. Sumir golfvellir eru með sérstakan "dress-code" þar sem því er haldið fram ákveðinn klæðnaður sé ekki golffatnaður og því megi ekki klæðast honum á golfvellinum.

Þetta hljómar heimskulega og þetta er einfaldlega bara heimska. Þarna er einhver gömul arfleifð að skjóta upp kollinum, í gamla daga var golfið íþrótt herramanna og til að koma í veg fyrir að alþýðan stundaði íþróttina þá voru svona reglur settar af eigendum golfvallanna. Svona hugsunarháttur er hallærislegur og ætti að tilheyra fortíðinni. Þetta er líkt og að banna konum að spila golf eða að banna svart fólk eða samkynhneigða á golfvöllum. Ég held að slíkt þætti óhugsandi í nútímalegu vestrænu þjóðfélagi.

En hvaða klæðnaður er það sem telst ekki vera golffatnaður og er því bannaður á sumum golfvöllum? Hérna er t.d. um að ræða gallabuxur, allar buxur sem eru með teygju um mittið (þ.e. nær allur íþróttafatnaður) og kragalausa boli. Svona fatnaður er sagður vera druslulegur eða í besta falli ósmekklegur. Auðvitað er þetta bara sýndarmennska og snobb, það er alltaf smekksatriðið hvað sé smekklegt og hvað ekki... það liggur í hlutarins eðli.

Annars finnst mér mikilvægara að fólk gangi vel um golfvellina, geri við skemmdir eftir sig á brautum og lagi boltaför á flötum. Einnig að fólk raki eftir sig bunkerana og hendi ekki rusli á golfvellinum. Golf er íþrótt sem fólk á að hafa ánægju af að spila... í hvaða fötum sem er.Mér finnst bjór vondur en mér finnst flestar bjórauglýsingar góðar... þessi hérna er t.d. algjör snilld


miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Pornotopia


Hollenskt Hip-Hop... ótrúlega fyndið að hlusta á þetta.

Tar-X - PornotopiaEitt það sem er hvað mest heillandi við að fara á Anfield í Liverpool eru allir söngvarnir sem sungnir eru af áhorfendum. Þess vegna er gaman að vita til þess að það sé að skapast hefð fyrir svona söngvum á landsleikum Íslands í fótbolta.Það er orðið ljóst að það verða yfir 19 þúsund manns á landsleik Íslands og Ítalíu á Laugardalsvellinum í kvöld og þar með verður sett nýtt aðsóknarmet á fótboltaleik á Íslandi. Það væri gaman að vera á þessum leik en maður getur víst ekki verið alltaf alls staðar. Maður lætur sér bara nægja að horfa á leikinn í sjónvarpinu í þetta skiptið.Ég veit ekki hvort þið kannist við hugtakið "Laumufarþegi". Það þekkja líklega flestir orðið og þá merkingu þess að um sé að ræða einhverja sem sníkja sér frítt far, t.d. með skipum. En "Laumufarþegi" er líka notað um einstaklinga sem reyna allt hvað þeir geta til að sleppa við að greiða fyrir þær vörur og þjónustu sem þeir nota. Þetta eru t.d. þeir sem ekki ætla að taka þátt í því að fá SkjáEinn til Bolungarvíkur en ætla hins vegar horfa frítt á SkjáEinn í vetur (með bros á vör) og þar með að njóta þess að láta aðra borga fyrir sig. Ég er ekki einn af þessum "Laumufarþegum" enda myndi ég skammast mín ef það fréttist um mig að ég vildi láta aðra borga brúsann fyrir mig. En hvort sem mér líkar það betur eða verr þá verð ég að sætta mig við að einhverjir "Laumufarþegar" verða alltaf til í þjóðfélaginu.


þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Þú ert það sem þú borðar


Fyrir þá sem ekki vita það, þá er nýja Rammstein lagið "Mein Teil" samið undir áhrifum frá þýsku mannætunni Armin Meiwes sem þekktur var fyrir að auglýsa eftir "dinner partner" á netinu. Mér skilst að myndbandið við þetta lag sé algjör snilld en maður á víst eftir að sjá það. Hérna er svo Pet Shop Boys remixið af laginu...

Rammstein - Mein Teil (You Are What You Eat Remix)


mánudagur, ágúst 16, 2004

Snilldartaktar


Ég get ekki neitað því að ég átti nokkra snilldartakta í golfinu í gær. Ég og Svenni Ragnars ákváðum að leika 18 holur til forgjafar og blönduðum holukeppni inn í til að auka enn á kappið í okkur. Til að gera langa sögu stutta þá lék ég á 86 höggum sem er bæting á persónulegu meti um 2 högg. Fyrri 9 holurnar voru leiknar á 44 höggum og seinni 9 á 42 höggum, fyrir þetta fékk ég 40 punkta sem gerði forgjafarlækkun upp á 1.6 þannig að ég er kominn niður í 18.1 í forgjöf. Ég vann Svenna á 2 höggum og vann holukeppnina á 17. holu en þá var staðan 2-0, lokastaðan í holukeppnini varð 3-0 ef við teljum síðustu holuna með.

Ég byrjaði fyrri hringinn með látum, drævaði inn fyrir 100 metra hælinn á 1. holu og setti svo inn á grín, rétt missti birdie-púttið og fékk easy par. Drævið á 2. holu fór inn á 1. braut, næsta högg endaði í röffinu hægri megin við 2. grín en þar gerði ég mér lítið fyrir og vippaði beint ofan í holuna og fékk glæsilegan fugl. Ekki amalegt að vera einu höggi undir pari eftir 2 holur. Þá var komið að 3. holunni sem reyndist mér erfið í þetta skiptið, notaði 7-tré í upphafshöggið og yfirsló grínið, sem sagt 170 metra högg. Þetta varð til þess að ég endaði á double.

Það var ekki annað hægt en að bæta sig á 4. holu, drævið endaði rétt fyrir utan grín, birdie púttið datt ekki og easy par varð niðurstaðan. Fimmtu holunni vil ég gleyma sem fyrst, upphafshöggið fór eitthvað út í buskann, 2. höggið í bunker og ég endaði á 6 höggum. Það skipti ekki máli þótt drævið á 6. holu mistækist því mér tókst að koma boltanum í meters fjarlægð frá holunni í næstu 2 höggum, easy par enn og aftur.

Sú sjöunda var í lagi, drævið í röffið vinstra megin við brautin, högg númer 2 fór yfir grín en ég náði að klára á bógie. Ég skil ekki af hverju ég slæsa alltaf á 8. braut, upphafshöggið endaði milli vegar og ár þannig að ég var að taka víti, eftir að farið þó nokkra krókaleið að 8. flöt þá tókst mér að sleppa með double. Níunda holan byrjaði vel, drævið var alveg við hólinn, þá tók ég auðvitað 3-tréð og negldi yfir draslið, þriðja höggið endaði inn á gríni og einhvern veginn tókst mér að þrípútta og endaði á bogie.

Það virðist sem ég hafi eitthvað ruglast þegar ég kom á 10. teig því drævið mitt endaði inn á 2. gríni. Þar tók ég bara upp 3-tréð og setti boltann í röffið vinstra meginn við bunkerinn. Vippaði svo inn á grín, krækti par púttið og varð að sætta mig við bogie. Drævið á 11. holu endaði á 3. teig, þar vippaði ég inn á grín, birdie-púttið var aðeins og stutt og enn einu sinni fékk ég easy par. Ég var skynsamur á 12. holu, tók létt á 7-trénu og endaði rétt fyrir neðan grínið, rúllaði svo boltanum að holu með sjöunni og fékk easy par.

Á 13. holu yfirsló ég grínið í upphafshögginu, setti svo inn á grín, tryggði næsta pútt og fékk auðvelt par. Á 14. holu endaði upphafshöggið rétt fyrir utan grín, innáhöggið var gott en parpúttið klikkaði þannig að ég var að sætta mig við bogie. Ég tók furðulegt upphafshögg á 15. holu, ég rann eitthvað til í drævinu og skaut til vinstri, boltinn endaði í kafgrasi við 14. kvennateiginn og ég varð að taka víti. Náði inn á grín í 5. höggi og sprengdi á sjöu.

Drævið á 16. var gott, inn fyrir 100 metrana en þó aðeins hægra megin við brautina, innáhöggið var frábært en parpúttið var of laust en maður sættir sig samt við parið. Á 17. holu átti ég gott dræv inn á braut, lagði upp að læk í 2. höggi og setti inn á grín í því þriðja. Tvö pútt og maður sættir sig við bogie á erfiðustu holu vallarins. 18. holan byrjaði ekki gæfulega, drævið fór í röffið hægra megin við brautina, næsta högg var bara nokkrir metrar og loksins í 3. höggi komst ég fram fyrir hól. Þá tóku við 2 högg sem skiluðu mér um 10 metra fyrir utan grín. Þá var vippað inn á grín... og boltinn rúllaði og rúllaði og rúllaði... alveg þar til hann staðnæmdist ofan í miðri holunni. Ég endaði sem sagt á bogie eftir allt.

Í heildina voru þetta 86 högg, þar af voru púttin 31. Ég fékk einn fugl, sjö pör, 6 skolla og 4 skramba, hitti braut í 5 af 14 skiptum og var 6 sinnum inn á gríni í regulation.Þetta átti nú að vera róleg helgi hjá mér en svo endaði ég á því að fara á djammið bæði á föstudags- og laugardagskvöld. Sjallinn varð fyrir valinu á föstudaginn, ágætis djamm en ég ráðlegg DJ-num á staðnum að fara að endurnýja playlistann sinn. Setning kvöldsins gæti hafa verið "munurinn á Íslandi og öðrum löndum í Evrópu er að Íslendingar eru þeir einu sem muna eftir sigurlaginu í Eurovision daginn eftir keppnina". Þá skal það upplýst að tómi koníakspelinn sem fannst á golfinu í Sjallanum var með fingraförunum mínum, þetta var helvíti gott koníak sem því miður kláraðist alltof snemma. Ég hefði líklega getað lágmarkað pirringinn í tilteknum dyraverði ef mér hefði hugnast að losa mig við plastið áður en ég fór inn á Sjallann. Sjálfur skil ég ekkert í því af hverju það má ekki fara með tóm plastílát inn á skemmtistaði.

Laugardagurinn byrjaði í Sjallanum þar sem horft var á enska boltann á SkjáEinum. Úrslitin voru ekki eins og best var á kosið þannig að eftir leikinn var haldið beint í mjólkurbúðina til að endurnýja koníaksbirgðirnar. Því næst var haldið út á golfvöll og fyrri 9 teknar, ég var í góðum málum eftir fyrstu sex holurnar en sprengdi síðustu 3 illilega þannig að ég endaði á 50 höggum. Þá var ekki um neitt annað að ræða en að drífa sig heim og tékka á því hvernig GBO liðinu hefði gengið í Hveragerði... og það voru engin gleðitíðindi sem biðu manns þegar heim var komið. Þá komst ég að því að 90's liðið, að Bigga O undanskildum, hafði notað alltof mörg högg þann daginn. Niðurstaðan var 5. sætið í 4. deild og ekkert annað í stöðunni en að drekkja sorgum sínum um kvöldið.

Eftir að hafa hlustað á 2002 árgerðina af Benidorm tónlistinni og drukkið 3 glös af einhverjum eðaldrykk... auðvitað áfengum... var haldið í partý til Þjóðverjanna. Þar var gleðin alls ráðandi enda var verið að reyna að "Bolvenja" nýju þýsku stelpurnar. Þar fór fram kynning á drykkjuvenjum Íslendinga og spilað ansi skemmtilegt drykkjuspil sem bjó yfir þeim töframætti að innan skamms voru allir þáttakendurnir orðnir dauðadrukknir. Í partýinu var mér bent á hvar ég gæti sett upp vefmyndavélina mína... hugmyndin að staðsetningu var mjög góð og ljóst að ég fengi góða umferð inn á síðuna hjá mér... a.m.k. á ákveðnum tímum sólarhringsins.

Það var ekki gott útlitið á Krúsinni þegar við mættum þangað, vorum einu gestirnir þar til að byrja með en fljótlega fór ofurölvi fólki að fjölga á staðnum. Maður varð vitni að alls konar uppákomum þetta kvöldið, það hlýtur að hafa verið eitthvað í loftinu sem gerði það að verkum að sumir hegðuðu sér einkennilegra en aðrir. Ég held að það sé best að hafa sem fæst orð um suma atburði kvöldsins í þetta skiptið. Eftir að hafa heyrt DJ-inn spila Villta dansa alltof oft og alla gömlu smellina tvisvar eða þrisvar, var haldið aftur út í Vík. Ég dáðist að litafegurð himinsins alla leiðina úteftir og lét það ekkert hafa áhrif á mig þó við þyrftum að stoppa einu sinni á Hlíðinni vegna ógleði hjá einum farþeganna. Merkilegt hvað fólki verður oft óglatt eftir að hafa drukkið of mikið áfengi. Svo var haldið heim í háttinn til að hvíla lúin bein.


föstudagur, ágúst 13, 2004

Sveitakeppni GSÍ


Mér sýnist að GBO sé í 4. sæti í 4. deildinni í golfinu eftir fyrri dag í Hveragerði. Liðið er með 339 högg og þarf að gera betur á morgun til að bjarga heiðri klúbbsins. Staðan í deildinni er svona:

GÖ - 305 högg
GHG - 319 högg
GF - 331 högg
GBO - 339 högg
GN - 340 högg
GFS - 348 högg
GP - 353 högg
GVG - 360 högg
GBB - 361 högg
GKS - 364 högg
GOG - 408 höggÞetta er ótrúleg hitabylgja hérna á Klakanum, hitinn kominn yfir 25 stig í Bolungarvík, meira að segja samkvæmt hitamælum sem eru alveg niður við sjó. Ísfirðingar hafa líka loksins fengið háa (25 stig) tölu á sinn hitamæli og er hitametið örugglega fallið þar líkt og hérna í Víkinni.Ég vona að þetta verði ekki slysadagur hjá mér í dag, maður hefur alltaf varann á sér þegar 13. dagur mánaðarins ber upp á föstudag.


fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Rammstein


Hver man ekki eftir þýsku rokksveitinni Rammstein? Ég fór allavega á ógleymanlega tónleika með Rammstein í Laugardalshöll en þeir tónleikar voru flottasta show sem ég hef séð á Íslandi... frábær blanda af rokki, eldi og flugeldum. Nú er komið nýtt lag með Rammstein sem heitir Mein Teil og venst það bara nokkuð vel.

Fyrst maður er á annað borð að setja inn þýskt rokk þá er best að koma með annað lag til viðbótar... Brennende Liebe með hljómsveitinni "00mph".

Að lokum er það lag sem ég er búinn að vera með á heilanum í dag, sennilega vegna þess að mig langar til Spánar... Barcelona með D.Key & Epsilon.


miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Soulseek


Ég er byrjaður á Soulseek aftur... það á bara eftir að þýða meiri tónlist og meira fjör.Muna ekki allir Víkarar eftir útvarpstöðinni Lífæðinni sem var starfrækt hérna í Víkinni fyrir um 10 árum síðan? Þessi útvarpsstöð var algjör snilld á sínum tíma en núna ætlar Tóti Vagns að endurvekja Lífæðina og stefnir á útvarpa efni stöðvarinnar um alla Vestfirði. Þetta er frábært en dýrt framtak hjá Tóta... til að létta honum róðurinn væri ég alveg til í að gefa honum allt tónlistarsafnið mitt...Það eru miklar líkur á að Owen og Beckham spili saman með Real Madrid í vetur, ef marka má fréttir síðustu daga. Við Poolarar erum nú ekki á flæðiskeri staddir með framherja þannig að ég er að vona að við fáum sterkan miðjumann í staðinn.Það virðist sem strákarnir í 70 mín hafi fetað í fótspor Jimmy Jump á KR-vellinum í gærkvöldi...


þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Hot In Here


Það er ekki hægt að vinna inni í svona veðri... 21 gráður á hitamælinum og allir að borða ís... nema kannski ég... en smá tónlist fyrir ykkur...

Tiga - Hot In Herre
Narcotic Thrust - I Like It
Ritmo Dynamic - Calinda
George Michael - Flawless (Go To The City)
Flower Power - Flower Power
Flip 'N' Fill - Discoland
Styles & Breeze - You're ShiningÉg mæli með að allir kylfingar taki þátt í Sýndargolfmóti Símans. Til þess að vera með þurfa menn að:
  • Vera meðlimur í golfklúbbi
  • Hafa notendanafn og lykilorð inn á www.golf.is
  • Vera með WAP uppsett í farsímanum þínum
  • Vera með skráð farsímanúmer hjá Símanum

Þetta er ekki raunverulegt golfmót heldur er bara verið að prófa skráningu í rástíma og golfmót í gegnum WAP Símans. Allir þeir sem skrá sig í mótið fyrir 12. ágúst eiga möguleika á að vinna SonyEricson T610 síma... þannig að það er um að gera að vera með.
Það virðist sem Danni sé búinn að jafna sig á því að hafa tapað fyrir mér í golfinu um verslunarmannahelgina, drengurinn skoraði 2 mörk í 3-0 sigri Vals á Njarðvík og var hann auk þess kjörinn maður leiksins af vefritinu fotbolti.net.


sunnudagur, ágúst 08, 2004

Golfið


Ég tók daginn snemma í dag og var mættur á teig um kl. 9 í morgun til að keppa í Bakkarvíkurmótinu í golfi. Það kom í ljós að þetta var minn dagur í golfinu, ég spilaði á 88 höggum (47-41) sem gáfu mér 41 punkt. Þar með var ég á 66 höggum með forgjöf og það dugði til að lenda í 2. sæti í mótinu. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, 5 þús.kr. gjafakort hjá Nevada Bob, sem eflaust verður notað í næstu Reykjavíkurferð. Ég lækkaði mig líka um 2 heila í forgjöf á þessu móti, er þá kominn í 19,7 en markmiðið hjá mér var að fara undir 20 í sumar.


föstudagur, ágúst 06, 2004

Knattspyrnumaður ársins


Ég var að skoða annars ágæta heimasíðu áðan og rakst þar á lista yfir knattspyrnumenn ársins hjá Í.B.Í. og BÍ. Þar kom í ljós að a.m.k. þrír Víkarar hafa hlotið þennan eftirsóknarverða titil frá árinu 1978, þetta eru þeir Sólberg Ásgeirsson (1997), Hálfdán Daðason (1995) og auðvitað Benedikt Einarsson (sem er víst eldri bróðir minn) sem varð knattspyrnumaður ársins hjá Í.B.Í. árið 1984. Svo er nú líka Haukur Ben á þessum lista en hann er eins og flestir vita hálfur Bolvíkingur.

Annars held ég að mínir menn í meistaraflokki UMFB mættu alveg fara að setja upp heimasíðu þar sem koma mætti á framfæri upplýsingum um liðið og fréttum af gengi liðsins á hverjum tíma.Ég var spurður að því í kvöld hvort það væri satt að Paparnir yrðu með ball í Hnífsdal einhvern tímann á næstunni... ég kom alveg af fjöllum og sagðist ekki hafa hugmynd um það. Ég væri meira en til í að fara aftur á ball með Pöpunum, en vitið þið hvort það sé eitthvað til í því að Paparnir verði með ball í Hnífsdal á næstunni?


fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Skjár Einn


Ég lofaði fréttum að Skjás Eins málinu í gær... og auðvitað var staðið við það... fyrst á vikari.is og svo á bb.is... og auðvitað þótti mbl.is þetta líka fréttnæmt.

En málið er að ég og nokkrir fleiri aðilar hafa verið að vinna í því að koma Skjá Einum til Bolungarvíkur, við þurfum að safna 900 þúsund kalli til að dæmið gangi upp. Þetta er auðvitað ágætis fjárhæð en þegar kostnaðurinn dreifist á margar hendur þá er þetta ekki svo mikið... og auðvitað vitum við að margt smátt gerir eitt stórt.


miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Þögnin rofin


Ég er búinn að hafa hægt um mig á blogginu síðustu daga, ástæðan er einfaldlega sú að ég hef haft nóg annað við tímann að gera. Það sem ég gerði um helgina var m.a. að ég fékk mér kjötsúpu á Hesteyri, skálaði í Skálavík, keppti á golfmóti o.s.frv. En ég mun hafa frá meiru skemmtulegu að segja á næstunni, t.d. eru væntanlegar fréttir af Skjás Eins málinu innan tíðar.


Baldur Smári
  • » Tölvupóstur «

  • » að skoða «

Bloggarar


Tenglar


Líkamsrækt


HuxjónirATOM 0.3