» Party in the moonlight and dance to the sunrise...sunnudagur, desember 31, 2006

Bolvíkingur ársins 2006


Það virðist sem það þurfi alltaf að gera upp hvert ár með því að velja mann ársins. Það er búið að velja Íslending ársins af nokkrum aðilum og nú stendur yfir kjör á Vestfirðingi ársins. Það hefur enginnn (svo að ég viti til) staðið fyrir kjöri á Bolvíkingi ársins en það væri gaman að velta því upp hér hvort það væri ástæða til að velja Bolvíkingi ársins. Ef svarið væri játandi væri ekki úr vegi að koma með uppástungur um hver gæti hlotið þann heiður.

Þetta verða lokaorðin mín á blogginu á þessu ári. Góða skemmtun í kvöld og gangið hægt um gleiðinnar dyr.

Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.Það er nóg um að vera í Víkinni í kvöld, áramótadansleikur á vaXon og Kjallarinn opinn. Það verður því hægt að fara á pöbbarölt í Bolungarvík á nýársnótt. Svo má að sjálfsögðu gera ráð fyrir gamlárspartýum úr um allan bæ.

Partýlög kvöldsins hjá mér eru meðal annars:

Eric Prydz vs. Pink Floyd - Proper Education (Another Brick In The Wall)
The Real Booty Babes - Since You Been Gone
Sugarbabes - Easy (Haji & Emanuel Mix)
Girls Aloud - Something Kinda Ooooh (Tony Lamezma Mix)
Scissor Sisters - I Don't Feel Like Dancing
Helena Paparizou - Mambo (Dancing DJs Remix)
Infernal - Self Control
Cascada - Everytime We Touch (Dancing DJs Remix)
David Guetta vs. The Egg - Love Don't Let Me Go
Justin Timberlake - My Love
Bob Sinclar - Rock This Party (Everybody Dance Now)
BassHunter - Boten Anna
Sharam - PATT (Party All The Time)
Mind Electric - Dirty Cash (Dirty South Remix)
Frisco vs. Ice MC - Think About The Way
Ultrabeat - I'm Not In Love
Marcel Woods - Advanced
Club Enforcer - Tutti Frutti
Dr. Mister & Mr. Handsome - Kokaloca
Musique vs. U2 - New Years DubFreydísarmótið í innanhússknattspyrnu fór fram í dag. Fyrir mótið hafði ég fengið sendar upplýsingar um mótið til að nota við fréttaskrif. Þar kom þetta meðal annars fram: "Kvennariðill ef næg þátttaka". Orðalagið í fréttinni minni vafðist aðeins fyrir mér, á endanum ákvað ég að nota orðið "kvennaflokkur" í stað "kvennariðills". Í fréttinni stóð að "ef næg þátttaka fæst verður einnig leikið í kvennaflokki". Ég er hræddur um að orðalagið "ef næg þátttaka fæst verður einnig keppt í kvennariðli" hefði getað orkað tvímælis og jafnvel þótt dónalegt.


föstudagur, desember 29, 2006

Íslendingur ársins


Tímaritið Ísafold valdi Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur Íslending ársins 2006. Ásta Lovísa er þrítug líkt og ég, hún er 3 barna móðir og glímir við arfgengan sjúkdóm sem er sagður ólæknandi. Hún berst fyrir lífi sínu þessa dagana og hefur gefið alþjóð kost á að fylgjast með baráttunni í gegnum bloggið sitt. Ásta Lovísa er sannkölluð hetja og er vel að þessari viðurkenningu komin.

Ég hvet ykkur til að lesa það sem Ásta Lovísa hefur fram að færa á blogginu sínu. Margt sem þar kemur fram fær mann til að hugsa um hve heppinn maður er að vera við fulla heilsu og að maður eigi að vera ánægður með það líf sem maður á í dag.

Hér að neðan má sjá tvö nýleg dæmi um hvað Ásta Lovísa segir á blogginu sínu.

"Aðfangadagur var æðislegur dagur. Enginn ástæða til að kvíða svona fyrir honum eins og ég var búinn að vera að gera . Krakkarnir voru fjörug enda aðfangadagur og mikið um að vera .... en þau voru samt svo yndisleg og það var virkilega gaman að hafa þau. Það var svo gaman að fylgjast með svipnum á þeim þegar þau réðust á pakkana sína. ..hehehehe.....Nú er aðfangadagur búinn og eftir að hafa verið með þeim þennan yndislega aðfangadag sannfærði mig um að reyna allt til að fá fleiri aðfangadaga með þeim. Ég bara skal !!!"

"Í dag förum við svo saman í jólaboð til Ingibjargar ömmu. Það verður án efa skrítið að fara þangað því afi er svo ný látinn og verður því örugglega hálf tómlegt að fara þangað. Fyrir einhverjum árum síðan var alltaf fullt af ættingjum í þessum jólaboðum á jóladag, en því miður þá er meiri hlutinn af ættinni minni látinn úr erfðasjúkdómnum sem er arfgeng heilablæðing. Blóð mamma mín lést úr honum þegar ég var að verða 8 ára og systir mín árið 2000."Mér sýnist að bæjarstjórinn sé búinn að kveða upp þann dóm að ég sé sósíalisti. Sumar frænkur mínar verða líklega glaðar að heyra það.


fimmtudagur, desember 28, 2006

Ég á bb.is


Það vildi svo skemmtilega til að það var vitnað í mig 2 sinnum á bb.is í dag, í fyrra skiptið var verið að fjalla um tillögu mínu um að börn fái frítt í Sundlaug Bolungarvíkur á næsta ári en í seinna skiptið var verið að segja frá kylfingum í jólagolfi.

Það hafa flestir hrósað mér fyrir að hafa komið fram með tillöguna um að börn fái frítt í sund en þó hafa örfáir gagnrýnt mig fyrir að vera með þessum hætti að skerða tekjur bæjarfélagsins. Mér finnst þess vegna rétt að geta þess að þegar ég lagði tillöguna fyrir bæjarstjórnarfundinn, lét ég fylgja með rökstuðning fyrir því að umrædd aðgerð þyrfti ekki að þýða tekjutap fyrir bæjarsjóð. Ég gerði sem sagt ráð fyrir að aðsókn barna og unglinga að sundlauginni myndi aukast ef frítt væri í sund og að það myndi einnig þýða að aðsókn fullorðinna myndi aukast því foreldra fylgja oft börnum í sund. Það kæmu því inn auknar tekjur vegna aukinnar aðsóknar.

Ég reiknaði einnig út mögulegan kostnað bæjarfélagsins af því að bjóða börnum og unglingum frítt í sund. Miðað við meðaltal aðsóknartalna sundlaugarinnar síðustu 3 árin getur tapið að hámarki orðið um 260 þúsund krónur - þetta á við ef aðsókn fullorðinna breytist ekkert. Til að finna núllpunkt, þ.e.a.s. þann punkt þar sem tekjur af aukinni aðsókn verða jafn háar kostnaðinum, er einfaldast að segja að það þurfi aðeins 3 fleiri fullorðna í sund á hverjum degi ársins til að hafa upp í kostnaðinn. Ef fleiri en 3 fullorðnir koma daglega í sund er bæjarfélagið að hagnast á öllu saman.

Í ljósi þessa fannst mér mjög eðlilegt að leggja til að börn yngri en 16 ára fái frían aðgang að Sundlaug Bolungarvíkur árið 2007.Ég fékk þær ánægjulegu fréttir í dag að Kalli Hallgríms væri að spila í Kjallaranum næstkomandi föstudagskvöld. Þetta verður góð upphitun fyrir áramótin og ég vænti þess að það verði góð mæting og brjálað stuð í Víkinni á föstudaginn.


þriðjudagur, desember 26, 2006

Ingólfsfjall


Við strákarnir spiluðum Popppunkt og Trivial á Völusteinsstrætinu í kvöld. Ég stóð mig með mikilli prýði og tókst að merja sigur á Bigga Timberlake á hans heimavelli í Popppunkti... þar var það Village People sem gerði gæfumuninn. Trivialið gekk líka vel og vannst þar sigur í öðru af tveimur spilum... Ingólfsfjall segir allt sem segja þarf um það spil og sá sigur var ótrúlega sætur.


mánudagur, desember 25, 2006

Jólin


Það er eitt sem klikkar aldrei um jólin... maður étur yfir sig. Þrátt fyrir að vera fluttur að heiman hélt ég í þann sið að borða jólasteikina á Holtastígnum. Að loknu borðhaldi og hefðbundnum jólasiðum fjölskyldunnar hélt ég heim á Völusteinsstrætið og opnaði þar pakkana sem sjaldan hafa verið jafn margir og þetta árið. Fyrir jólin hafði ég búið til lítinn óskalista yfir jólagjafir, þessi listi var aðeins til í huga mér og samanstóð að atriðum á borð við Fanta Lemon og Lego. Mig vantar auðvitað Fanta Lemon út í ginið mitt en þetta með Lego-ið tilheyrir æskuminningunum. Aðfangadagskvöld var toppað með konungsættinni og ég verð að hrósa bakarameistaranum fyrir einstaklega vel heppnaða kökuskreytingu.


sunnudagur, desember 24, 2006

Gleðileg jól!Nú er jólahátíðin gengin í garð og ekki seinna vænna en að óska lesendum síðunnar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Einnig þakka ég öll kommentin á liðnu ári og vona að þau verði enn fleiri á því næsta. Undir þetta ritar ykkar einlægur... Baldur Smári Einarsson.

Meðfylgjandi myndir eru annars vegar af Hólskirkju í Bolungarvík og hins vegar sólarlagsmynd af Óshyrnu sem einhver ykkar hafa fengið inn um bréfalúguna síðustu daga.


föstudagur, desember 22, 2006

Dauði Baldurs


Það leynist ýmislegt á You Tube... til dæmis Dauði Baldurs


fimmtudagur, desember 21, 2006

Sundið


Ég eyddi megninu af deginum í fundarhöld en það voru þrír fundir á dagskránni hjá mér. Ég fór á fyrsta fundinn klukkan eitt í dag og fór heim af þeim síðasta klukkan hálf níu í kvöld. Á öðrum fundi dagsins kviknaði hjá mér hugmynd sem ég lét verða að veruleika á þeim síðasta.

Í fyrri umræðu um gjaldskrár Bolungarvíkurkaupstaðar fyrir árið 2007 lagði ég fram eftirfarandi tillögu um breytingu á gjaldskrá Íþróttamiðstöðvarinnar Árbæjar:

Sundlaug Bolungarvíkur fagnar 30 ára afmæli á næsta ári. Af því tilefni vilja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til eftirfarandi breytingar á gjaldskrá Íþróttamiðstöðvarinnar Árbæjar.
Börn yngri en 16 ára fái frían aðgang að Sundlaug Bolungarvíkur árið 2007.

Skemmst er frá því að segja að tillögunni var mjög vel tekið af bæjarfulltrúum og bæjarstjóra og var samþykkt að vísa umræðum um gjaldskrár að minni tillögu meðtalinni til seinni umræðu sem verður í byrjun janúar.

Þessi tillaga mín er líklega af djarfara taginu fyrir sveitarfélag sem stendur höllum fæti fjárhagslega en ég hef fulla trú á að hún eigi eftir að hafa jákvæð áhrif á rekstur sundlaugarinnar til frambúðar.

Rétt er að minna á að nú um hátíðarnar er einmitt frítt í sund fyrir börn yngri en 16 ára og er því óhætt að hvetja Bolvíkinga og nágranna til að skella sér í sund um jólin.

Við þetta má bæta að í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun ársins 2007 var samþykkt að leggja 15 milljónir króna til gerðar sundlaugargarðs sem mun meðal annars skarta vatnsrennibraut - kosningarennibrautinni víðfrægu.Golfsamband Íslands birti á dögunum mótaskrá sína fyrir árið 2007. Þar kemur meðal annars fram að 4. deildin fer fram á Tungudalsvelli á Ísafirði 10.-12. ágúst. Ég er að vonum ánægður með þessi tíðindi og er alveg ljóst að Golfklúbbur Bolungarvíkur mætir sterkur til leiks í Sveitakeppni GSÍ næsta sumar.


mánudagur, desember 18, 2006

Veðrið


Ef umræðuefni skortir má alltaf tala um veðrið. Í dag hefur veðrið farið í mínar fínustu taugar, rigning og rok með tilheyrandi hláku og hálku. Ef fram heldur sem horfir getum við e.t.v. skellt á jólamóti í golfi. Það væri líklega besta jólagjöfin sem hægt væri að hugsa sér, að komast í golf.


laugardagur, desember 16, 2006

Karaoke


Ég fór á stórskemmtilegt karaoke á Kjallaranum í gærkvöldi. Náði að drekka í mig kjark til að syngja tvö lög við mikinn fögnuð viðstaddra.

Tíðindi dagsins eru að ég sem DJ Kaztro verð að spila á vaXon í kvöld. Ég fæ mikið rýmri tíma en síðast og get þess vegna klárað að spila öll óskalögin frá því um daginn.


föstudagur, desember 15, 2006

Fátækur


Samkvæmt heimildum Baggalúts hafa fátæktarmörk á Íslandi verið uppfærð í 36 tommu flatskjá á heimili. Mitt 29 tommu gamaldags þykkskjársjónvarp gerir mig greinilega að fátæklingi. Það hlýtur því að vera kominn tími á að uppfæra þetta mjög svo lítið notaða heimilistæki.


fimmtudagur, desember 14, 2006

Bolungarvíkurgöngin


Síðastliðinn sólarhringur hefur að mestu leyti farið í fundahöld hjá mér. Þau fundahöld eru að mestu leyti vegna fyrirhugaðra jarðganga sem leysa eiga Óshlíðarveg af hólmi. Ég vil kalla þessi göng Bolungarvíkurgöng til að losna við Óshlíðar-nafnið.

Í dag var skýrsla Vegagerðarinnar um jarðgöng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar kynnt bæjarstjórnum Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar á fundi í Ráðhúsi Bolungarvíkur. Í skýrslunni var gerð úttekt á 5 leiðum:
  • Tungudalsleið: Jarðgöng frá Reiðhjallavirkjun í Syðridal að Seljalandi við Skutulsfjörð.
  • Hnífsdalsleið: Jarðgöng frá nyrðri enda Syðridalsvatns til Hnífsdals með tilheyrandi vegalagningu yfir Syðridalsvatn og út sunnanverðan Hnífsdal.
  • Skarfaskersleið: Jarðgöng frá Ósi í Bolungarvík að Skarfaskeri í Hnífsdal
  • Seljadalsleið: Jarðgöng frá Ósi í Bolungarvík að utanverðum Seljadal á Óshlíð með vegskálum á innsta hluta Óshlíðar undir Búðahyrnu.
  • Óshlíðarleið: Tvenn jarðgöng á Óshlíð ásamt vegskálum á innsta hluta Óshlíðar undir Búðahyrnu.

Vegagerðin telur 3 leiðir vera mögulegar, þ.e. Hnífsdalsleið, Skarfaskersleið og Seljadalsleið. Bæjarráð Bolungarvíkur telur að tvær þessara leiða, Hnífsdalsleið og Skarfaskersleið, auk Tungudalsleiðar uppfylli þær öryggiskröfur sem lagt var upp með. Þá telur bæjarráðið að Skarfaskersleiðin og Tungudalsleiðin séu álitlegustu kostirnir sem kannaðir voru í skýrslunni.

Það er því ljóst að það verða gerð löng göng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og er það auðvitað mikið fagnaðarefni fyrir okkur Bolvíkinga og nágranna okkar á Ísafirði og nágrenni.Ég er farinn að halda að jólasveinarnir séu ekki búnir að átta sig á því að ég er fluttur. Ef einhver úr fjölskyldu jólasveinanna er að lesa þetta blogg þá vil ég minna á að heimilisfangið er Völusteinsstræti 13 í Bolungarvík.Þrátt fyrir að ég hafi vitnað í Milton Friedman og verk hans undanfarið verð ég að viðurkenna að ég hef aldrei verið einlægur aðdáandi hans. Hins vegar hef ég notað ýmislegt sem Friedman hefur sagt til að öðlast betri skiling virkni hagkerfa og efnahagslífs. Ef ég á mér einhvern eftirlætis hagfræðing þá er það John Maynard Keynes sem hafði mikil áhrif á efnahagslíf heimsins á fyrri hluta 20. aldar.

Milton Friedman er eins mikill hægri maður og hugsast getur en Keynes telst hafi verið mikið nær miðju stjórnmálanna ef svo mætti að orði komast. Eitt af því sem Keynes er þekktur fyrir er að hann sagði að í kreppu væri gott að borga hópi manna til að moka skurð einn dag og fylla svo aftur upp í skurðinn næsta dag, til þess eins að koma peningum af stað. Reyndar taldi hann að vegagerð væri heppilegustu verkefnin til að veita fólki vinnu og auka peningaflæði um hagkerfið.

Þekktasta setningin sem eignuð er John Maynard Keynes er líklega "In the long run we are all dead".


miðvikudagur, desember 13, 2006

Gagnrýni Mulligan


Thomas Mulligan er einn af þeim sem hefur gagnrýnt afstöðu Milton Friedman til félagslegrar skyldu fyrirtækja. Mulligan telur að Friedman beiti m.a. rökvillum í grein sinni og nefnir í því tilliti að þegar Friedman skilgreini orðið "skattur" sé hann að beita rökvillu sem kölluð er óleyfileg endurskilgreining. Mullingan segir að skattur geti einungis verið það sem stjórnvöld leggja á og þvinga aðila til að greiða og eigi ekki við þegar stjórnandi fyrirtækis eyðir fjármunum fyrirtækisins og þar með hluthafa. Mullingan gagnrýnir einnig þá sýn sem Friedman hefur á stjórnendur fyrirtækja en Friedman stillir stjórnendum upp sem einförum sem hafi ekkert samráð við aðra aðila og geri allt upp á eigin spýtur. Þar telur Mulligan að Friedman beiti annari rökvillu sem er kölluð "strámaður" þar sem búið er til viðmið fyrir stjórnandann sem er þannig úr garði gert að auðvelt er að ráðast að honum og fella hann.

Þrátt fyrir að röksemdarfærsla Friedmans sé ekki gallalaus, þá hefur hún lifað af þá gagnrýni sem sett hefur verið fram á hana. Meginástæðan fyrir því er að á meðan enginn sýnir fram á að ríkisvald og dómsvald sinni ekki starfi sínu sem skyldi, þ.e. að setja fyrirtækjum lagaramma sem tryggir að félagsleg málefni séu ekki fótum troðin, er óþarfi sýna fram á að fyrirtæki hafi aðra félagslega skyldu en að hámarka hagnað sinn.Spurningin um hver sé félagsleg ábyrgð eða félagsleg skylda fyrirtækja er ein þeirra spurninga sem komið hafa upp í umræðunni um grundvöll viðskiptasiðferðis. Milton Friedman hélt því fram að eina félagslega skylda fyrirtækja væri að hámarka hagnað sinn. Í gegnum tíðina hafa margir fræðimenn gagnrýnt afstöðu Friedmans til málsins en hann taldi sig þó aldrei knúinn til að svara þeirri gagnrýni því hann taldi að rök sín hefðu aldrei verið hrakin.

Þau rök sem Milton Friedman færði fyrir afstöðu sinni voru meðal annars að sjálf fyrirtækin gætu í sjálfu sér ekki haft félagslegar skyldur því slíkt væri aðeins persónum mögulegt. Einnig taldi hann að stjórnandi fyrirækis sem tæki á sig félagslegar skyldur væri um leið að vinna gegn bestu hagsmunum fyrirtækisins, þ.e. að vinna gegn hinu almenna markmiði fyrirtækja sem er að hámarka hagnað sinn. Friedman taldi einnig að þegar stjórnandi fyrirtækis tæki það upp hjá sjálfum sér að láta fyrirtækið leggja út í kostnað vegna félagslegra mála - umfram það sem lög kveða á um - væri hann í raun að skattleggja fyrirtækið, starfsmenn þess og eigendur.

Milton Friedman vildi að hið opinbera setti lög sem takmörkuðu athafnir fyrirtækja á ýmsum sviðum og taldi að fyrirtæki ættu að sjálfsögðu að fara að lögum og gangast við þeim skyldum sem þar eru lögð á fyrirtæki.Hins vegar taldi hann enga ástæðu fyrir stjórnendur fyrirtækja að fara út fyrir þann lagaramm til að vinna að félagslegum málum. Ríkisvald og dómsvald ættu að sjá til þess að lagararamminn væru nógu þröngur til að félagsleg mál yrðu ekki útundan.


þriðjudagur, desember 12, 2006

Ekkert er ókeypis


There's no such thing as a free launch

Þetta er ein frægasta setning hagfræðinnar og hún segir ótrúlega mikið. Sá sem mælti þessu fleygu orð hét Milton Friedman og var einn áhrifamesti hagfræðingur sögunnar. Í sjónvarpinu í kvöld var endursýndur 22 ára gamall sjónvarpsþáttur þar sem Milton Friedman átti í rökræðum við Ólaf Ragnar Grímsson, Birgi Björn Sigurjónsson og Stefán Ólafsson um hagfræði og stjórnmál. Þrír á móti einum. En það er skemmst frá því að segja að íslensku víkingarnir komust hvorki lönd né strönd gegn rúmlega sjötugum hagfræðingnum. Friedman var með þetta allt á hreinu og tók víkingana þrjá hreinlega í nefið.

Ég kynntist skrifum Milton Friedman strax á fyrsta ári í Háskóla Íslands þar sem ein ritgerða (greina) hans, The Social Responsibility of Business is to Increase its Profits, var notuð til kennslu í rökfræði og gagnrýnni hugsun. Í ritgerðinni glímir Friedman við þá spurningu hver sé félagsleg ábyrgð fyrirtækja og kemst að þeirri niðurstöðu að eina félagslega ábyrgð fyrirtækja sé að hámarka hagnað sinn. Hvað finnst ykkur um þetta, eruð þið sammála Friedman eða getið þið hrakið þau rök sem hann færir fyrir máli sínu?Í síðustu viku bárust fréttir af því að bæjaryfirvöld í Lepe á Spáni hafi fyrirskipað að þar yrðu hvít jól í ár. Þar sem ég er á leið á bæjarráðsfund í fyrramálið væri upplagt fyrir mig að leggja fram álíka tillögu hér í Bolungarvík, nema í minni tillögu yrði kveðið á um að jólin í Bolungarvík verði blá í ár.

En aftur að Lepe. Ég á góðar minningar frá Lepe, þar er til dæmis hinn frábæri kínverski veitingarstaður "Mandarin" sem bolvískir kylfingar þekkja af góðu einu... og eitt allra eftirminnilegasta næturbrölt lífs míns var einmitt í Lepe nú í vor. Þar kom Habinas diskótekið og langur göngutúr mikið við sögu.


fimmtudagur, desember 07, 2006

Stúkuhúsið


Stúkuhúsið var rifið í gær og þar með er eitt af baráttumálum mínum komið í höfn. Allt frá því á síðustu jólum þegar þakið fauk af Stúkuhúsinu og brak úr því skemmdi nærliggjandi hús, hef ég barist fyrir því að Stúkuhúsið yrði rifið. Þrátt fyrir að húsið hefði sögulegt gildi fyrir Bolungarvík þá taldi ég öryggi íbúa bæjarins vera mikilvægara. Hvaða gagn er annars af ónýtu húsi sem enginn vill hirða um og er þar að auki hættulegt umhverfinu?
903


Samkvæmt óstaðfestum heimildum mínum töldust Bolvíkingar vera 903 talsins samkvæmt tölum Hagstofu Íslands 1. desember síðastliðinn. Við erum því aftur skriðin yfir 900 manna múrinn eftir að hafa farið ofan í 872 fyrir 2 mánuðum síðan. Það munar greinilega um Pólverjana sem fluttust hingað í haust.

Fyrst ég er farinn að minnast á innflytjendur í Bolungarvík þá er ekki úr vegi að rifja upp laugardagskvöldið á Vaxon þar sem haldið var diskótek. Það kvöld var líklega um helmingur gesta staðarins af erlendum uppruna. Og þessi erlendi helmingur var mikið áhugasamari um að skemmta sér heldur en Íslendingarnir sem sátu flestir við borð og drukku öl. Útlendingarnir voru sem sagt með mér og hinum vitleysingjunum á dansgólfinu.

Það var líka greinilegt að tónlistarsmekkur gesta staðarins var misjafn, útlendingarnir vildu dansa við nýlegs danstónlist en Íslendingarnir vildu helst gamla slagara, eitthvað íslensk - gamalt og gott. Stundum held ég að Íslendingar séu fastir í sveitaballamenningunni. Við þurfum hljómsveit á sviði sem spilar sömu lögin aftur og aftur, ár eftir ár.


þriðjudagur, desember 05, 2006

Áfengispólitík


Það voru skemmtilegar umræður á Alþingi í dag þar sem formaður Samfylkingarinnar líkti fylgi stjórnmálaflokka við alkóhólprósentu áfengra drykkja. Þar talaði ISG um að fylgi Framsóknarflokksins væri á pilsners-mörkunum. Samkvæmt sömu skilgreiningu er Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi léttvín en Sjálfstæðisflokkurinn er í koníaksdeildinni. Það er ekki nema von að ég hrífist af sterkum drykkjum.

En annað leiðindamál tengt áfengi er hin fáránlega hækkun á áfengisgjaldi sem fjármálaráðherra boðar. Það er alltaf slæmt að hækka skatta, ekki síst þegar skattahækkunin á að bæta ríkissjóði upp tekjumissi af annarri skattalækkun. Hækkun áfengisgjalds á einungis eftir að verða til þess að verð bjórs og "ódýrs" léttvíns hækkar umtalsvert. Ódýrasta rauðvínið í Ríkinu hækkar um 200 krónur og bjórkassinn verður 700 krónum dýrari.

Einhverra hluta vegna virðist sem að íslenskir stjórnmálamenn hafa það að aðaláhugamáli að halda áfengisverði á Íslandi sem hæstu. Það má ekki afnema einokun ríkisins á einkasölu áfengis og lofa neytendum að njóta ávinnings frjálsrar samkeppni. Og það má ekki leyfa neytendum að njóta þess að virðisaukaskattur í veitingarekstri lækkar í 7%, þess í stað er áfengisgjald hækkað á móti svo sopinn með steikinni verði ekki of ódýr.


mánudagur, desember 04, 2006

Tónlistarsmekkur


Það hafa orðið frekar heitar umræður um tónlistarsmekk minn undanfarið. Það eru alltaf einhverjir sem setja sig á háan hest og segja að ég hafi lélegan tónlistarsmekk. Slíkt tal er ekkert nýtt af nálinni og ég er kominn með ansi harðan skráp gagnvart gagnrýni á tónlistarsmekk minn. En hvers vegna er tónlistarsmekkur mönnum svo heilagur að þeir geti jafnvel metið fólk af verðleikum af því hvaða tónlist það hlustar á?

Tónlistarsmekkur er aðeins huglægt mat hvers og eins á tónlist. Það sem einum finnst gott getur öðrum fundist slæmt. En svo framarlega sem tónlist veitir einhverjum ánægju þá er hún góð. En munum að smekkur manna er misjafn.

Metum við kannski líka fólk eftir því hvernig smekk það hefur fyrir mat? Er fólk sem fílar indverskan mat eitthvað verra en fólk sem elskar ítalska matargerð?

Það er talað um menn séu matvandir ef þeir borða ekki ákveðnar tegundir af mat, má ekki til sanns vegar færa að menn séu "tónvandir" ef þeir sneiða hjá vissum tónlistarstefnum?

Ég get viðurkennt að ég er matvandur en ég er alæta á tónlist. Ég fíla jafnt popp, klassík, rokk, house, trance eða hvað svo sem allar þessar tónlsitarstefnur heita. En ef það hægt að segja að það sé einhvað ákveðið einkenni á mínum tónlistarsmekk þá er það leitin eilífða að nýju efni, nýrri upplifun - framþróun.


sunnudagur, desember 03, 2006

Gærkvöldið


Ég held að mér hafi tekist ágætlega til sem plötusnúður í gærkvöldi, ég náði a.m.k. að fylla dansgólfið og halda uppi einhverri stemningu. Ég hefði viljað spila lengur, 40 mínútur eru of stuttur tími fyrir mig. Ég byrjaði á rólegu jólalagi en þegar það fór að heyrast í "Bara í Viðarvatni" trylltist lýðurinn. Eftir Crazy, Kokaloca og Pink Floyd var ég búinn að fá salinn algjörlega á mitt band. Þurfti svo að víkja fyrir partýdýrinu að sunnan en kom svo aftur og spilaði Boney M fyrir stelpuna sem var greinilega mikið fyrir plötusnúða. Ég spilaði Total Eclipse Of The Heart fyrir Bjarna Pétur og að lokum Boten Anna fyrir ónafngreindan aðila.

Lagalistinn í heild sinni er svona:

Madonna - Santa Baby
Justin Timberlake - My Love
Gnarls Barkley - Crazy
Dr. Mister & Mr. Handsome - Kokaloca
Eric Prydz vs. Floyd - Proper Education
Till West & DJ Delicious - Same Man (Alex K Remix)
Lazard - Living On Video
Cascada - I Need A Miracle (SAD Remix)
Infernal - From Paris To Berlin
Cascada - Everytime We Touch (Styles & Breeze Remix)
- - -
Boney M - Megamix
Nicki French - Total Eclipse Of The Heart
BassHunter - Boten AnnaÞetta er í seinna lagi í þetta skiptið. Sitt lítið af hverju.


föstudagur, desember 01, 2006

Dizko


Ég hef ekki farið leynt með að ég mun rifja upp gamla plötusnúðstakta á vaXon.is á laugardagskvöldið. Þetta eru viss tímamót hjá mér því að það eru um 10 ár síðan ég kom fyrst fram á þessum ettvangi. Þá var ég að spila á skemmtistað sem hét Jón Bakan og var á þeim tíma einnig veitingarstaður. Það voru góðir tímar sem falla aldrei í gleymsku. Ég man að utan diskóteka þá spilaði maður á böllum með hljómsveitum á borð við Skítamóral, Sóldögg og Á móti sól, ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa tilbaka til þessa tíma.

Í dag nota ég nafnið Kaztro þegar ég spila opinberlega, þetta er að sjálfsögðu skírskotun í Fidel Castro - segiði svo ekki að ég horfi eitthvað til vinstri í lífinu. Á menntaskólaárunum var ég kallaður DJ Base en meðan ég var á Jóni Bakan var ég bara kallaður DJ Baldur.

Á laugardaginn get ég lofað stanslausu stuði, hvort sem ég verð að spila ferskustu danstónslist samtímans eða gamla slagara sem aldrei klikka. Þið munið e.t.v. hvernig ég var í gamla daga en ég hef vaxið með hverjum degi og er núna í mínu besta formi. Eitt af þeim lögum sem ég mun koma til með að spila um helgina er My Love með Justin Timberlake... en það er hreinasta snilldÓskalög eru vel þegin, ég tók við einu slíku á Kjallaranum á síðustu helgi og það lag verður spilað... ef þið hafið einhverjar sérstök óskalög þá mæli ég með að þið setjið þau í komment... nafnleysi er í lagi ef þið viljið ekki láta nafns ykkar getið.Það var bæjarstjórnarfundur hjá mér í dag, aldrei þessu vant var ekki lyftingatími hjá mér eftir fundinn og þýddi auðvitað aðeins eitt - ég tók til máls í tíma og ótíma. Þetta var að vissu leiti sögulegur fundur því þetta var í fyrsta sinn sem ég var ekki yngsti bæjarfulltrúinn í salnum, Jón frá Seljanesi mætti á sinn fyrsta bæjarstjórnarfund og það er ekki hægt að segja annað en að hann hafi átt góða frumraun. Ég veit ekki hvort það heyrðist í útsendingu frá fundinum en ég fékk hláturskast í miðri ræðu hjá Gunnari Halls þar sem hann talaði um klósettmál Náttúrugripasafns Bolungarvíkur, einhvern veginn komu orðin þannig út úr honum að hann teldi að nýtt klósett á náttúrugripasafninu væri sóknarfæri fyrir safnið... ég læt ykkur um að ímynda ykkur hverslags sóknarfæri það er.


Baldur Smári
  • » Tölvupóstur «

  • » að skoða «

Bloggarar


Tenglar


Líkamsrækt


HuxjónirATOM 0.3