» Party in the moonlight and dance to the sunrise...sunnudagur, apríl 30, 2006

Ég held ég gangi heim


Ég fór ásamt félögum mínum í ansi skemmtilega ferð á djammið í bænum Lepe á meðan ég var á Islantilla. Við þurftum að taka leigubíl frá hótelinu á Islantilla yfir til Lepe og á þessum slóðum þarf maður að panta bílinn báðar leiðir ef maður ætlar sér að fá far tilbaka því það er ekki boðið upp á leigubílaþjónustu að næturlagi. Leigubílstjórinn keyrði okkur að besta diskótekinu í bænum sem mig minnir að hafi heitið "Habinas" og við báðum um að verða sóttir aftur klukkan þrjú.

Það er skemmst frá því að segja að ég skemmti mér konunglega á Habinas diskótekinu og var auðvitað eins og kóngur í ríki mínu á dansgólfinu umkringdur spænskum senjorítum ;o) Þegar klukkan var orðin þrjú var ég ekkert á því að fara heim en að lokum náði Stjáni að draga mig útaf dansgólfinu og útaf af diskótekinu. Þegar út var komið var farið að tékka á leigubíla málunum og auðvitað var engan leigubíl að fá. Þá voru góð ráð dýr. Ég var fljótur að sjá lausn á vandunum, ég ætlaði bara að ganga heim á hótel. Ég sannfærði Stjána um að þetta væri ekki nema svona 10-15 mínúta göngutúr og við héldum af stað. Það hefur eflaust verið fyndið að sjá okkur á röltinu þarna í vegarkantinum á myrkvuðum þjóðvegi "in the middle of nowhere". Þegar upp var staðið varð þetta rúmlega eins og hálftíma göngutúr og ég held að Stjáni blóti mér enn fyrir þessa vitleysu.

Það var auðvitað mikið hlegið að okkur daginn eftir en ég var nú bara stoltur af því að hafa gert þetta, maður leggur nú ýmislegt á sig til að komast á gott diskótek ;o) Eftir þessa frægðarför fékk ég gamalt íslenskt popplag á heilann og ég held að það eigi bara vel við í þessu tilfelli....

Þetta er búið að vera eitt brjálæðislegt geim.
Ég held ég gangi heim, held ég gangi heim.Ég er búinn að fara tvisvar sinnum út á flugvöll um helgina til að æfa mig í golfinu en þessa dagana er gamli flugvöllurinn "driving-range" okkar Bolvíkinga. Ég held að núna sé rétti tíminn til að laga þau atriði sem þarf að laga fyrir sumarið og um leið viðheldur maður sveiflunni eftir Spánarferðina. Ég rakst líka á ágætis heimasíðu á netinu þar sem undirstöðuatriðin í golfi eru kennd með einföldum hætti... nú er bara að nýta allan dauðan tíma í æfingar ;o)


laugardagur, apríl 29, 2006

FBI


Ég notaði góða veðrið í borg óttans í gær til að rölta niður Laugaveginn, þar urðu á vegi mínum 3 stelpur sem voru að dimitera og klæddust búningum sem voru auðkenndir með bókstöfunum FBI. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan voru þessir búningar efnislitlir og er óhætt að segja að stelpurnar hafa fangað athygli vegfaranda því einum bílstjóranum varð það á að keyra aftan á næsta bíl... þið getið ímyndað ykkur af hvaða kyni bílstjórinn var...

Þessi árekstur minnti mig á fréttina sem ég las í Mogganum um daginn þar sem fram kom að 36% ökumanna teldi að kynþokkafullir vegfarendur væri líklegastir til að trufla þá við aksturinn... greinilega orð að sönnu. Þess má geta að þessar sömu stelpur voru ansi hressar á Hverfisbarnum seinna um kvöldið... ég fer nú ekkert nánar út í það hér ;o)


föstudagur, apríl 28, 2006

Kominn á Klakann


Þá er maður kominn heim til Íslands eftir þessa mögnuðu Spánarferð. Það var auðvitað algjör draumur að fá að spila 27-36 holur á dag í sól og blíðu (oftast nær), ég tók meira að segja smá lit í ferðinni sem heyrir til tíðinda ;o) Hápunktur ferðarinnar var tvímælalaust ferðin á Habinas diskótekið í Lepe en sú ferð var ævintýraleg og að sama skapi mjög eftirminnileg. Þið fáið að heyra þá sögu síðar...


laugardagur, apríl 22, 2006

Mér finnst rigningin góð


Síðustu tveir dagar hafa verið rakir hérna á Spáni. Í gær var þrítugsafmælinu fagnað með viðeigandi hætti á besta veitingastað bæjarins en þar mættu bæði gengin ásamt fararstjórunum okkar. Við fengum fjölbreytt úrval spænskra forrétta og að sjálfsögðu var nautasteik í aðalrétt, með nautasteikinni var meira að segja borin fram sósa að íslenskri fyrirmynd. Að lokum drukkum við nokkra gin & lemon á barnum þar til að lokað var á okkur.

Spilamennskan á afmælisdaginn var með besta móti, ég var að brillera í púttunum í texas-scramble mótinu og setti þar niður nokkur góð pútt fyrir fuglum og pörum. Ég fékk líka fyrsta fuglinn minn í gær, nánar tiltekið á 24. braut sem er par 3 holu... ég var í rauninni nálægt því að fara holu í höggi en heppnin var ekki með mér í þetta skiptið. Eftir texasinn spilaði ég 10-18 holu og náði að leika á 17 punktum sem ég er mjög sáttur við. Spilamennskan í dag var misjöfn, þó má segja að mér hafi gengið betur eftir því sem það rigndi meira....

Stefnan er tekin á kvöldverð á kínverska veitingastaðnum Mandarin í Lepe í kvöld, það má því búast við fjöri á hópnum... hver veit nema við tékkum á skemmtistöðum bæjarins í leiðinni ;o)


fimmtudagur, apríl 20, 2006

30 ár að baki


Fyrst af öllu verð ég að biðjast afsökunar á því að hafa ekki bloggað í rúma 2 sólarhringa, netið hér á hótelinu fór allt í rugl fyrsta kvöldið þegar rafmagnið fór (þar gerist líka á Spáni!) og ég hef ekki komist á netið í langan tíma.

Það er 21. apríl í dag og klukkan er að vera 2 að spænskum tíma og ég er að átta mig á því að ég er kominn á fertugsaldurinn. Sumir geta haldið því fram að ég sé loksins orðinn fullorðinn en sjálfur er ég ekkert alltof viss um að svo sé. En 30 árin eru víst staðreynd og ég verð bara að sætta mig við það.

Annar er lífið mjög ljúft hér á Islantilla, ég spilaði 9 holur fyrsta daginn og 27 holur síðustu 2 daga. Ég get ekki sagt að ég hafi verið að standa mig vel í golfinu en það verður bara að hafa það, ég er bara þakklátur fyrir hver högg sem heppnast og geri ekkert miklar kröfur til árangurs.

Eftir að hafa spilað með fararstjórunum, Sigga Hafsteins og Sigga Palla, í dag sá ég að ég á langt í land með að verða góður í golfíþróttinni. En vonandi hef ég mörg ár til að bæta mig - "svo lengi lærir sem lifir" stendur einhver staðar. Eftir allt ruglið í spilamennskunni í dag datt mér helst í hug að það væri kominn tími á að ég fjárfesti í golfsetti fyrir örvhenta og viðurkenndi strax þessa fötlun mína í stað þess að vera alltaf að rembast með golfkylfur sem hannaðar eru fyrir rétthent fólk.


þriðjudagur, apríl 18, 2006

Islantilla


Þá er fyrsti dagurinn á Islantilla að kveldi kominn. Veðrið var frábært í dag, rúmlega 20 stiga hiti og góður aðstæður til að slá golfbolta eftir iðagrænum golfvellinum. Spilamennskan í dag bar þess greinileg merki maður hefur ekki snert kylfu í marga mánuði, fyrstu 7 holurnar voru slappar en síðustu 2 voru góðar. Annað fréttnæmt af mér er að ég varð fyrir skoti á 4. braut en það voru miðaldra Spánverjar sem gerður of ákafir í hita leiksins. Mér varð ekki meint af högginu en það er alltaf óhugnarlegt að fá golfkúlu í sig. Nú er bara að vona að morgundagurinn verði betri svo ég geti komið með betri tíðindi á morgun. Í það minnsta er veðurspáin góð en reiknað er með að það verði 21-27 gráðu hiti hjá okkur næstu dagana.


föstudagur, apríl 14, 2006

Föstudagurinn langi


Í minningunni er föstudagurinn langi, lang lengsti dagur ársins. Á þessum degi mátti maður aldrei gera neitt skemmtilegt og mér fannst sem þessi föstudagur væri heila eilífð að líða. Ég hafði ætlað mér að eyða deginum í vinnunni en mér var bannað það þar sem miklar líkur væri á því að afi og amma sæu til mín... og ég vil nú ekki vera að valda þeim vonbrigðum með því að vera að vinna á þessum heilaga degi.

Í seinni tíð hefur föstudagurinn langi verið einn mesti skemmtanadagur ársins, hefð er fyrir því að mæta á ball í Hnífsdal á föstudaginn langa og skiptir þá engu hverjir spila fyrir dansi. Aðalmálið er að hitta alla þá sem koma vestur í páskafrí og rifja upp gamla og góða tíma. Ég geri ráð fyrir að kvöldið í kvöld verði þar engin undantekning, í það minnsta er stefnan sett á Svarta hanska í kvöld.Ég er búinn að sitja sveittur fyrir framan tölvuna síðustu daga við að taka saman tölfræði úr golfferðunum mínum. Ég fór fyrst út til Islantilla fyrir 2 árum og er að fara í fjórðu ferðina núna. Hérna er hægt að sjá hvernig spilamennskan mín hefur þróast á þessum tíma. Það sem ég er hvað ánægðastur með hjá sjálfum mér er að skrömbum (2 yfir pari) og sprengjum (3 eða meira yfir pari) fer fækkandi, í fyrstu ferðinni voru 72% holanna sem ég lék skrambi eða sprengja, í næstu ferð var þessi tala komin í 65% og í síðustu ferð var þetta 61%. Núna er stefnan að koma þessari tölu niður í 50%, ef það tekst er ég búinn að fækka slæmu höggunum nógu mikið til að geta borið höfuðið hátt.Nú eru ekki nema 4 dagar í að ég fari í hina árlega golfferð til Spánar. Ég fer auðvitað með félögum mínum í Svarta genginu og Hvíta genginu, þetta er 14 manna hópur hjá okkur í ár og fjölgar okkur með hverju árinu. Ég tek fartölvuna með mér út og verða daglegar fréttir (og jafnvel myndir) af okkur á heimasíðu Svarta gengisins.

Ég er langt kominn með að pakka golfsettinu niður, farmiðinn og vegabréfið eru á sínum stað og gjaldeyririnn gleymist ekki. Það er aðeins einn hlutur sem ég sakna þessa stundina og það er litla vasabókin með öllum upplýsingum um Islantilla golfvöllinn - en það er algjört "möst" af hafa þá bók með í farangrinum í Islantilla-ferðum.


fimmtudagur, apríl 13, 2006

Kráargáfur


Trausti Salvar er búinn að þýða enska orðið "pub-quiz" yfir á okkar ástkæra ylhýra tungumál. Hér eftir eigum við að kalla spurningaleiki á öldurhúsum "Kráargáfukeppnir" og er þar vísað í að þarna séu kráargestir að keppa í gáfnafari. Ein slík "kráargáfukeppni" verður haldin fyrir gesti í páskagleðskap Vestfirzkra Sleikipinna. Eins og í afmælunum í gamla daga þá fæ ég ekki að vera með sökum þess að kráargáfur mínar teljast vera örlítið yfir meðallagi. Mér er hins vegar sá sómi sýndur að fá að spyrja sleikipinnana spjörunum úr. Að þessu sinni get ég lofað að þetta verða auðveldar og skemmtilegar spurningar.


miðvikudagur, apríl 12, 2006

Snilld


Þessi brandari er bara hrein og tær snilld.Komdu litli ljúfur,
labbi, pabba stúfur,
látum draumsins dúfur
dvelja inni' um sinn,
- heiður er himininn.
Blærinn faðmar bæinn,
býður út í daginn.
Komdu, Kalli minn.

Göngum upp með ánni,
inn hjá mosaflánni,
fram með gljúfragjánni,
gegnum móans lyng,
- heyrirðu hvað ég syng,-
líkt og lambamóðir
leiti' á fornar slóðir
innst í hlíðahring.

Héðan sérðu hafið,
hvítum ljóma vafið,
það á geymt og grafið
gull og perluskel,
ef þú veiðir vel.
En frammi á fjöllum háum,
fjarri sævi bláum,
sefur gamalt sel.

Glitrar grund og vangur,
glóir sund og drangur.
Litli ferðalangur
láttu vakna nú
þína tryggð og trú.
- Lind í lautu streymir,
lyng á heiði dreymir,
þetta land átt þú.

Hér bjó afi' og amma
eins og pabbi' og mamma.
Eina ævi skamma
eignast hver um sig,
- stundum þröngan stig.
En þú átt að muna
alla tilveruna
að þetta land á þig.

Ef að illar vættir
inn um myrkragættir
bjóða svika sættir,
svo sem löngum ber
við í heimi hér,
þá er ei þörf að velja:
Þú mátt aldrei selja
það úr hendi þér.

Göngum langar leiðir,
landið faðminn breiðir.
Allar götur greiðir
gamla landið mitt,
sýnir hjarta sitt.
Mundu, mömmu ljúfur,
mundu, pabba stúfur,
að þetta er landið þitt.

Frekar flott ljóð eftir Guðmund Böðvarsson


þriðjudagur, apríl 11, 2006

Kylfingur.is


Mér finnst ekkert leiðinlegt að sjá nafnið mitt í fjölmiðlum, í það minnsta þegar það er af góðu tilefni eins og í þessari frétt á golfsíðunni kylfingur.is. Það er ekki amalegt að vera á forsíðunni á svona fjölsóttum vef í næstum viku.Það verður fjör heima á Holtastígnum yfir páskahelgina því von er á tveimur syskinum mínum ásamt fjölskyldum þeirra í heimsókn. Ætli það þýði ekki að ég verði að vera stilltur og til fyrirmyndar um páskana.

Ég hitti Björn Teitsson, gamla skólameistarann minn úr FVÍ, á Reykjavíkurflugvelli í dag. Við áttum saman gott spjall um liðna tíma. Það kom mér á óvart að Björn mundi greinilega eftir miklum áhuga mínum á breska hagfræðingnum John Maynard Keynes en ég skrifaði söguritgerð um þann ágæta mann. Kenningar Keynes eru nefnilega eitt af því sem mótaði stjórnmálaskoðanir mínar á sínum tíma. Útskýringar á kenningum Keynes verða að bíða betri tíma en ein setning sem hrökk af vörum Keynes á sínum tíma hefur mér hefur verið mér hugleikin í gegnum árin... "In the long run we are all dead"Menn deila um hvor það sé hættulegt að blanda saman áfengi og orkudrykkjum en eins og í flestu öðru er líklega allt best í hófi. Ég get mig þó geta staðfest þetta... Orkudrykkir draga úr timburmönnumÉg gerði góða ferð í borg óttans um helgina. Fjörið byrjaði á föstudaginn með Idol kvöldi á mínu gamla heimili í Dvergabakkanum. Svo var haldið út á lífið í fylgd þriggja fagurra fljóða og djammað fram á morgun. Ég ætlaði að vera duglegur að versla á laugardeginum en þegar ég sá traffíkina við Smáralindina taldi ég það vera tímasóun og ákvað að horfa frekar á söngkeppni framhaldsskólanna í sjónvarpinu. Líklega skynsamleg ákvörðun. Ógnareðlið var svo alls ráðandi síðar um kvöldið.

Ferming Fríðar frænku minnar var á sunnudaginn og var veislan hin mesta snilld. Halldór bróðir var með sér fótboltaherbergi þar sem fótboltabullurnar í fjölskyldunni gátu fylgst með leikjum ensku stórliðanna. Á efri hæðinni var svo hlaðborð sem ég gat varla staðið upp frá, maður fer aldrei svangur heim úr Fagrahjallanum. Saddur horfði ég á Masters mótið fram eftir kvöldi og var bara sáttur við að Phil Mickelson hafi fengið græna jakkann í ár.

Mánudeginum var eytt í Kringlunni, þar var líka öllum peningunum eytt. Ég setti persónulegt met í fatakaupum og ætti því að geta farið vel klæddur til Spánar. Að lokum var Fokkerinn tekinn heim og næsta mál á dagskrá er að snúa sér að vandamálum hversdagsins.


föstudagur, apríl 07, 2006

Kjallarakeppnin


Það er loksins komið að næstu "Drekktu betur" keppni í Kjallaranum í kvöld. Spyrill kvöldsins er kyntröllið Pétur Magnússon en hann þykur vera mjög reyndur í "pub-quiz"-brannsanum. Þar sem ég er á leiðinni suður í fermingarveislu bróðurdóttur minnar þá geri ég ekki ráð fyrir að mæta í kvöld. En ég mæli með að þið hin fjölmennið á staðinn og reynið að vinna bjórkassann góða sem eru sigurlaunin í Kjallarakeppninni.


fimmtudagur, apríl 06, 2006

Félagsheimili Bolungarvíkur


Eins og margir vita stendur til að gera upp Félagsheimili Bolungarvíkur. Síðastliðinn sunnudag voru kynntar hugmyndir að stórfelldum endurbótum á húsinu, ég er nokkuð hrifinn af þessum hugmyndum og vona að þær verði einhvern tímann að veruleika. Þeir sem vilja kynna sér málið frekar geta nálgast teikningarnar á vef Bolungarvíkurkaupstaðar.Þessi frétt var í Mogganum á dögunum...

"Fallegir vegafarendur eru líklegastir til að trufla ökumenn við aksturinn og verða til þess að þeir lendi í bílslysum ef marka má könnun í Bretlandi.
Að sögn breska dagblaðsins The Daily Telepragh sögðu 36% ökumanna, sem tóku þátt í könnuninni, að kynþokkafullir vegfarendur væru líklegastir til að trufla þá við aksturinn. Aðeins 20% nefndu farsímann, 11% bílinn fyrir framan og 2% sögðu að vegamerki hefðu truflað þá.
Könnunin fór fram á vefsetri breskra bílasala."Hvernig er hægt að brenna af í svona dauðafæri?Ég er búinn að skemmta mér vel við að gera skattframtöl í kvöld, vertíðin er sem sagt byrjuð hjá mér og það verður næstum ekkert slappað af fram að páskum. Ætli ég setji ekki eins og eitt raunhæft skattadæmi hérna bloggið á morgun. Það gæti gefið ykkur smá innsýn í það hvað ég fæst við í vinnunni.


miðvikudagur, apríl 05, 2006

Snjór


Skíðasnjónum hefur kyngt niður hér vestra í dag. Snjónum fylgja kostir og gallar, kostirnir eru þeir að fólk kemst á skíði og snjósleðamenn geta brunað upp á fjöll á sleðunum sínum, gallarnir eru að það myndast snjóflóðahætta en afleiðingar slíkrar hættu eru t.d. að ákveðnum þjóðvegum er lokað. Til dæmis er Óshlíðin lokuð núna... það hefði nú verið gott að eiga jarðgöng til Hnífsdals núna, þá væri maður í það minnsta ekki einangraður í Víkinni góðu.


þriðjudagur, apríl 04, 2006

KAN-FAN


Í kommenti við síðustu færslu er því haldið fram að KAN verði með ball í Krúsinni um páskana. Ég fagna því enda telst maður vera alvöru KAN-FAN þessa dagana.What goes up, must go down... ætli þetta eigi ekki vel við um hlutabréfamarkaðinn í dag. Það hafa eflaust margir tapað síðustu daga. Það hefði óneitanlega verið sniðugt að selja allt um daginn þegar gengið var í hámarki... maður gerði sér bara vonir um meiri hækkanir á þeim tímapunkti. Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á.Hver vill fara með mér á tónleika með Madonnu í sumar?


mánudagur, apríl 03, 2006

KAN-æðið


Það hefur verið töluverð traffík inn á KAN-síðuna mína í dag, ástæðan er líklega sú að aðstandendur "Rokkhátíðar alþýðunnar" og blaðamenn bb.is komust á snoðir um KAN-æðið:
http://www.skidavikan.is/festival/frettir.php
http://www.bb.is/?PageID=141&NewsID=68061


laugardagur, apríl 01, 2006

Google Romance


Þetta er algjör snilld... When you think about it, love is just another search problem... Google Romance reddar málunum ;o) I'm Feeling Lucky!Ég hef ekki látið neinn hlaupa apríl í dag og ég held að ég hafi ekki heldur látið gabba mig neitt. Maður er allt var um sig á þessum degi. Ég hélt að slökkviliðið hérna hefði verið gabbað áðan en svo kom í ljós að það var raunverulegt útkall hjá þeim.Ég held að það sé eitthvað gruggugt við skoðanakönnunina sem er í gangi á Sleikipinnavefnum þessa dagana... ég er þar í samkeppni við kyntröllin Trausta Salvar og Pétur Magg um að vera kynþokkafyllsti Sleikipinninn. Þessu hefði ég aldrei trúað... en samt ekki.... í það minnsta get ég ekki kvartað undan kvennhyllinni sem ég hef notið hér vestra undanfarið...


Baldur Smári
  • » Tölvupóstur «

  • » að skoða «

Bloggarar


Tenglar


Líkamsrækt


HuxjónirATOM 0.3