» Party in the moonlight and dance to the sunrise...miðvikudagur, janúar 31, 2007

Liðsmaður


Stundum pæli ég í ótrúlegustu hlutum, í kvöld var það hugtakið "liðsmaður" sem var mér hugleikið. Ég veit ekki hvort þið kannist við þessa lýsingu en ég ætla samt sem áður að láta hana flakka.

Liðinu gengur illa og liðsmaðurinn kennir hinum í liðinu um slæman árangur en lítur ekki í eigin barm. Liðsmaðurinn hlýðir ekki fyrirliðanum, virðir ekki leikskipulagið og spilar bara sína eftirlætis stöðu. Liðsmaðurinn er með yfirlýsingar um að hann sé mikið betri en hinir í liðinu og að hann sé þar að auki í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum liðsins. Að lokum missir liðsmaðurinn sæti sitt í liðinu og fer í kjölfarið að leita að nýju lið.

En vill eitthvað lið taka við slíkum liðsmanni? Er slíkur liðsmaður líklegur til að skapa góða liðsheild? Er líklegt að slíkur liðsmaður geti skilað liðinu og stuðningsmönnum þess góðum árangri?Íslenska landsliðið í handbolta stóð sig með prýði gegn Dönum í 8 liða úrslitum heimsmeistaramótsins. Þrátt fyrir að strákarnir okkar hafi verið óheppnir að tapa á síðustu sekúndunum í framlengingunni voru þeir að sama skapi heppnir að ná að knýja fram framlenginuna.

Mér fannst gaman að heyra viðtalið við Snorra Stein Guðjónsson eftir leikinn þar sem fréttamaðurinn spurði hann að því hvort það hefði ekki verið ljós punktur í leiknum að hafa skorað 15 mörk. Snorri Steinn svaraði því að það væri enginn ljós punktur við leikinn, þeir hefðu tapað leiknum og það skipti engu máli hvort hann hefði skorað 15 eða 25 mörk, það dugði ekki til sigurs. Mér finnst þetta viðhorf lýsa miklum metnaði og mættu fleiri temja sér slíkan hugsunarhátt.


þriðjudagur, janúar 30, 2007

Áfengi á Alþingi


Á morgun er 14. mál á dagskrá þingfundar á Alþingi frumvarp um breytingu á fyrirkomulagi smásöluverslunar með áfengi á Íslandi. Með frumvarpinu er lagt til að einkasala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins með annað áfengi en sterkt áfengi verði aflögð en með sterku áfengi er yfirleitt átt við áfengi með meiri vínandastyrk en 22%. Sem sagt skref í átt að auknu frelsi í viðskiptum með löglega drykki sem hafa þá sérstöðu að innihalda alkóhól - en þó ekki í of miklu mæli. Frumvarpið hefur þrisvar áður verið lagt fram á Alþingi en hefur eins og gefur að skilja ekki enn hlotið afgreiðslu. Ég vona að þingmönnum beri gæfa til þess að afgreiða málið að þessu sinni.


mánudagur, janúar 29, 2007

Annir


Ég hef haft lítinn tíma til að skrifa pistla eða fréttir á netið undanfarna 10 daga. Sumir sakna skrifa minna en aðrir eru fegnir að ég skuli þegja af og til. Það hefur þó mikið gerst í þjóðfélaginu síðustu daga og eflaust hefði ég getað sagt skoðanir mínar á öllu milli himins og jarðar á blogginu.

Ég hefði getað sagt margt fallegt um strákana okkar eftir sigurinn sæta á Frökkum en ég ætl að bíða með fallegu orðin þangað til við höfum unnið Danina í 8 liða úrslitum.

Frjálslyndi flokkurinn virðist geta fallið endalaust í áliti hjá mér, mislyndu þjóðernissinnuðu karlarnir sem óttast útlendinga eiga eftir að tapa á því að hafa hafnað Margréti Sverris sem varaformanni um helgina.

Eðalkratinn og Ísfirðingurinn Jón Baldvin Hannibalsson afskrifaði Samfylkinguna í Silfri Egils í dag, enda ekki nema von þar sem ISG er búin að koma flokknum niður fyrir fylgi VG samkvæmt skoðanakönnunum... mig minnir að síðasta könnun hafi sagt 18%...

Ríkisútvarpið er oðið opinbert hlutafélag og við munum sjá hin óskiljanlegu afnotagjöld hverfa innan tveggja ára. Mikið framfaramál þar á ferð sem mun án efa efla Ríkisútvarpið.

Samgönguáætlun verður lögð fyrir Alþingi á næstu dögum og þar fáum við að sjá hvaða leið verður farin í Bolungarvíkurgöngum (eða Óshlíðargöngum) og hvenær verður byrjað að grafa göngin. Ég veðja á Skarfaskersleiðina enda tel ég hana vera besta kostinn sem okkur Bolvíkinga.

Röggi pensill var um helgina útnefndur íþróttamaður ársins í Bolungarvík árið 2006, þetta er því annað árið í röð sem kylfingur úr Golfklúbbi Bolungarvíkur hlýtur þennan eftirsótta heiður. Ég óska Rögga innilega til hamingju með árangurinn.

Að síðustu, Vertinn á Kjallaranum er farinn að blogga. Ragna er frábær penni og pistlarnir hennar eru alltaf stórskemmtilegir.


sunnudagur, janúar 28, 2007

Landsins forni fjandi


Hafísinn lét sjá sig við Djúp í gær og hafa stakir ísjakar rekið á land hér í Bolungarvík. Enginn ísbjörn er þá sjáanlegur á götum bæjarins. Þó má finna einn frægan ísbjörn hér um slóðir en sá er hafður til sýnis á Náttúrugripasafni Bolungarvíkur.


mánudagur, janúar 22, 2007

Fótboltinn


Ég veit ekki hvort ég á að þora að minnast á úrslit helgarinnar í fótboltanum, ég er í það minnsta ánægður með árangurinn hjá sjálfum mér í laugardagsboltanum.


fimmtudagur, janúar 18, 2007

Sleggjan


Fyrir tæpum mánuði síðan fullyrti dyggur stuðningsmaður Kristins H Gunnarssonar við mig að Kristinn myndi ekki taka sæti á lista Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar í vor. Í dag kom tilkynning frá Kristni þar sem þau tíðindi voru staðfest.

Ákvörðun Kristins kemur mér ekki á óvart, hann tapaði prófkjörsslagnum um efsta sætið í kjördæminu og flestum er ljóst að skoðanir hans hafa í raun aldrei átt samleið með Framsóknarflokknum. Ég hef ekki trú á að Kristinn sé hættur í pólitík og ég geri ráð fyrir að hann hafi notað tímann frá því að úrslit prófkjörsins voru ljós til að leita fyrir sér á öðrum vígstöðvum og leggja línurnar nokkra leiki fram í tímann.

Kristinn er mjög klár maður og mun gera það sem tryggir eigin hag best.

Sagan segir að 2. sætið hjá Frjálslyndum sé laust og miðað við síðustu skoðanakannanir er líklegt að 2. sætið hjá Vinstri grænum sé öruggt þingsæti og sérframboð er ekki útilokað. Þá er gamla kjaftasagan um að Kristinn eigi eftir að setjast forstjórastól Tryggingarstofnunar ansi lífseig. Ég held reyndar að Kristinn vilji hætta í pólitík því mig grunar að þau stríð sem hann hefur háð undanfarin ár hafi verið erfið fyrir þá sem standa honum nærri. Ég held líka að kraftar Kristins myndu nýtast vel innan veggja Tryggingarstofnunar. En ef Kristinn á eftir að leita á önnur mið í stjórnmálum þykir mér ljóst að Sleggjan á eftir að hefna sín illilega á Framsóknarflokknum.Umræður á kaffistofum og götuhornum í Bolungarvík snúast þessa dagana nær eingöngu um þorrablótið og hefðir og reglur því tengdu. Mér er ekki boðið í partýið eftirsótta og mér er svo sem slétt sama. Mér er ekki heldur boðið á árshátíð kvennfélagsins og ég er ekki velkominn í saumaklúbba bolvískra kvenna. En það virðist vera mikill pirringur í Bolvíkingum þessa dagana vegna þess að það er ekki öllum boðið á þá árvissu skemmtun sem er vinsælust í Víkinni.

Í gegnum tíðina hefur hið þjóðlega bolvíska þorrablót notið jákvæðrar umfjöllunar í fjölmiðlum en nú er svo komið að búið er að skemma hina góðu ímynd þorrablótsins. Utanaðkomandi aðilum finnst umgjörðin um þorrablótið áhugaverð. Klæðaburðurinn, trogin og skemmtiatriðin - bolvíska skaupið. Umræður um hvort hefðirnar og reglurnar séu sanngjarnar eru hins vegar þess eðlis að þær eiga aðeins heima hér á svæðinu. Það er ekkert unnið með að bera svona mál á borð fyrir alþjóð, fréttaflutningurinn hefur aðeins neikvæð áhrif á ímynd Bolungarvíkur. Við viljum byggja upp en þetta getur ekki kallast annað en að rífa niður.

Eftir mánuð verður annað merkilegt samkvæmi í Bolungarvík. Kúttmagakvöldið. Í gegnum tíðina hefur það verið karlakvöld en nú má líklega búast við að konur krefjist þess að fá aðgang að kúttmagakvöldinu í nafni réttlætis og sanngirni.


þriðjudagur, janúar 16, 2007

Vandamál


Það fer fátt meira í taugarnar á mér en tal um vandamál. Í hugum margra eru vandamál neikvæð fyrirbrigði sem íþyngja fólki ef of mikið er einblínt á þau. Ég hef reynt að temja mér að líta á vandamál sem óleyst verkefni og hvert verkefni er hægt að leysa með góðum og farsælum hætti. Því getur einstaklingur sem er sagður glíma við mörg vandamál alveg eins hugsað að hann sé svo heppinn að fá að takast á við mörg krefjandi verkefni. Hugarfarið er þess vegna mikilvægt, með jákvæðu hugarfari getum við leyst vanda en neikvæðni leiðir sjaldan eitthvað gott af sér.Nú er kominn sá tími ársins þegar Íslendingar fara að blóta þorra. Að venju ríða Bolvíkingar á vaðið og halda sitt hefðbundna þorrablót á fyrsta laugardegi í Þorra. Eins og flestir vita hafa merkilegar hefðir fest sig í sessi á þessu fræga bolvíska þorrablóti en blótið er víst eitt það elsta sem um getur á Íslandi.

Blótið er haldið af bolvískum konum sem hafa veg og vanda af undirbúningi blótsins og skemmtiatriðum á sjálfu blótinu. Sú kvöð hvílir á þeim konum sem sækja blótið að þær þurfa að gefa kost á sér í skemmtinefnd á nokkurra ára fresti og leggja þar fram vinnu sína til að halda siðnum við. Þá koma blótsgestirnir sjálfir með mat og guðaveigar í trogum til blótsins en ekki er um að ræða þorrahlaðborð líkt og víða annars staðar.

En það geta ekki allir mætt á bolvíska þorrablótið því samkvæmt hefðinni bjóða konur bónda sínum til blótsins og er blótið ætlað hjónum, sambýlisfólki, ekkjum og ekklum í Bolungarvík. Þá verða konur að mæta í upphlut eða peysufötum og karlar í hátíðarbúningi eða dökkum jakkafötum með hálstau. Þarna eru sem sagt kröfur um hjúskaparstöðu, búsetu, klæðaburð og jafnvel kynhneigð sem takmarka þátttöku í þorrablótinu.

Menn eru ekki á einu máli um ágæti þessara reglna og finnst mörgum komi tími á að rýmka reglurnar þannig að fleirum gefist kostur á að taka þátt í þessum merka menningarviðburði. Af því tilefni setti ég inn könnun á www.vikari.is þar sem Bolvíkingum gefst kostur á að svara eftirfarandi spurningu: "Finnst þér sanngjarnt að einhleypu fólki sé meinaður aðgangur að þorrablóti Bolvíkinga?"


fimmtudagur, janúar 11, 2007

Undir áhrifum


Síðastliðið ár hjá mér hefur að mörgu leyti markast af því að ákveðnir einstaklingar hafa reynt að breyta stjórnmálaskoðunum mínum. Ég hef tekið þessu fólki vel og hlustað á það sem það hefur haft fram að færa. Ólíkar og jafnvel andstæðar skoðanir hafa, þegar allt kemur til alls, haft jákvæð áhrif á mig og mótað betur skoðanir mínar á mönnum og málefnum. Ég tel mig vera betri mann fyrir vikið. Ég vil þakka þessu góða fólk - þið vitið hver þið eruð - fyrir mig, undir ykkar áhrifum hef ég vaxið og dafnað og náð lengra en ég þorði að vona.


miðvikudagur, janúar 10, 2007

Blaðamennska


Ég er ekki blaðamaður en fylgist nokkuð vel með fjölmiðlum hér á landi. Ég get ekki fullyrt um hvað sé góð blaðamennska eða slæm blaðamennska. Hins vegar tel ég mig hafa nokkuð góða þekkingu á hvernig meta skuli tölulegar upplýsingar um ýmis mál, til dæmis skoðanakannanir.

Á dögunum rak ég augun í frétt á bb.is þar sem niðurstöður skoðanakönnunar um fylgi stjórnmálaflokka í Norðvesturkjördæmi voru tíundaðar. Þar kom fyrir þessi skemmtilega klausa:

"Samfylkingin mælist með 15%, líkt og fyrir mánuði síðan, en fyrir tveimur mánuðum mældist hún með 25%. Samfylkingin hlaut 23,2% fylgi í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkur tapar þá miklu fylgi samkvæmt könnunum en bæði fyrir mánuði og tveimur mánuðum mældist hann með 35%, en nær nú aðeins 28%, sem er undir kjörfylgi en flokkurinn hlaut 29,6% atkvæða í síðustu alþingiskosningum."

Þarna þykir það sem sagt fréttnæmt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað 1,6 prósentustiga fylgi frá síðustu kosningum og er því slegið upp sem miklu fylgistapi. Samfylkingin tapar hins vegar 8,2 prósentustiga fylgi á sama tíma en það telst víst ekki mikið fylgistap á þeim bænum.

Í mínum huga er þessi frétt dæmi um slæma blaðamennsku og ég velti því einnig fyrir mér hvort blaðamaðurinn hafi skrifað fréttina litaður af eigin stjórnmálaskoðunum sem eru líklega nær Samfylkingunni en Sjálfstæðisflokknum.Ég er búinn að kaupa mér miða á tónleikana með Lisu Ekdahl í Víkurbæ 3. mars næstkomandi. Það litla sem ég hef heyrt til þessarar söngkonu lofar góðu og ég hlakka til að sjá hana í Víkinni fögru í byrjun mars. Hægt er að kaupa miða á tónleikana í Víkurbæ - sem og hina tónleikana sem verða í Reykjavík og Akureyri á www.midi.isHelgi Seljan er með hugann við landsbyggðina og fjallar nú um þá mælistiku sem oft er notuð á lífið í þorpum landsins...

"Lengi vel hefur hin óopinbera mælistika á líf í þorpum úti á landi verið sú hversu margir sáust á ferli þar síðast þegar keyrt var í gegn."

Þetta er athyglisverð pæling. Ætli við getum ekki kveikt líf í bænum okkar með því að leggja bílunum og ganga á milli staða? Það er ekki eins og við þurfum á bílum hér að halda þar sem allt er í göngufæri.


þriðjudagur, janúar 09, 2007

Bolvísk fegurð


Það er stundum fallegt á Ísafirði en sólarlagið gerir Bolungarvík að fallegasta stað í heimi.Við kveðjum jólin með álfagleði á þrettándanum. Slík álfagleði var hér í Bolungarvík á laugardaginn og þar var ég meðal áhorfenda. Hátíðarhöldin fóru vel fram þrátt fyrir kalt veður og flugeldasýningin var frábær.

Þegar ég var á barnsaldri þótti mér mikið til þess koma að fá að sjá Grýlu, Leppalúða, jólasveinana, skrattann, ljósálfa, púka og fleiri kynjaverur á álfagleðinni. Ég var hræddur við Grýlu og passaði upp á að haga mér vel svo ég ætti ekki á hættu að lenda í pokanum hennar, ég óttaðist skrattann og vildi ekki fyrir nokkurn mun flytja til heitra heimkynna hans í Helvíti og ég trúði því að jólasveinarnir færðu mér glaðning í skóinn fyrir jólin. En mér varð brugðið undir lok álfagleðinnar á laugardaginn þegar kynnir kvöldsins tilkynnti að bæjarstjórinn okkar hefði leikið skrattann og að bæjarstjórafrúin hefði verið í gervi Grýlu. Hvernig var þá með allar hina sem tóku þátt í álfagleðinni, var Leppalúði ekki þarna í eigin persónu? Hvað með jólasveinana?

Mér fannst þessi tilkynning kynnisins vera algjör óþarfi því þarna var verið að skemma saklausa trú barna á fyrirbæri á borð við jólasveina - ef skrattinn og Grýla voru leikin af fólki út í bæ er þá ekki nokkuð ljóst að jólasveinarnir voru það líka? Svo er það líka sérstakt að getið sé um suma leikendur í álfagleðinni en ekki aðra, verður hér eftir ætíð tekið fram hverjir verða í hlutverki Grýlu og skrattans eða verður aðeins getið um leikendur ef um opinberar persónur eða svokallað frægðarfólk er að ræða?


fimmtudagur, janúar 04, 2007

Krummaskuðin


Ég datt inn á bloggið hjá Helga Seljan sjónvarpsmanni þar sem hann fjallar um heimsókn sína á æskuslóðirnar á Reyðarfirði en Reyðarfjörður var einmitt á dögunum útnefndur "mesta krummaskuð landsins" af Fréttablaðinu. Við Bolvíkingar fengum einnig okkar skammt af athygli í sama blaði og undirritaður sá sér ástæðu til að grínast aðeins með málið á sínum tíma. Sá pistill var líklega einn af mínum betri á síðasta ári og er því ekki úr vegi að birta hann hér aftur til upprifjunar.

Survivor: BolungarvíkÞað var fjallað um forsjárhyggju í Speglinum á Rás 2 í dag. Tilefni umfjöllunarinnar voru sögusagnir um að einhverjir vel meinandi einstaklingar vilji setja flugeldaskotgleði Íslendinga á gamlárskvöld þröng mörk til að vernda öryggi almennra borgara. Í Speglinum komu fram mörg fáránleg dæmi um forsjárhyggju og var meðal annars sagt frá því að þriðjungur Svía vilji banna börnum yngri en 15 ára að horfa á fótbolta til að koma í veg fyrir að sænskir unglingar eigi eftir að gerast fótboltabullur. Í þættinum var einnig talað um þarna væri hreinlega um að ræða ýkta þörf fólks fyrir öryggi og að samfélagið væri í raun að búa til öryggisfíkla. En við þurfum víst frekar á ást og umhyggju að halda heldur en öryggi fyrir öllu mögulegu og ómögulegu sem getur valdið hættu í daglegu lífi. Við viljum frelsi í stað forsjárhyggju.Ég átti leið um nágrannabæjarfélagið Ísafjörð í byrjun vinnuvikunnar, þetta var á fallegum vetrarmorgni og var Pollurinn spegilsléttur þegar ég ók eftir Hraðbrautinni inn í Fjörð. Ég stóðst ekki freistinguna að horfa yfir Pollinn meðan á ökuferðinni stóð og virða fyrir mér fegurðina. Fjöllin spegluðust í Pollinum í fagurblárri birtunni. Ég vildi að ég hefði haft myndavélina meðferðis til að ná mynd af þessu fallega sjónarspili. Það er ekki laust við að ég öfundi þá Ísfirðinga sem hafa gott útsýni yfir Pollinn.Í upphafi hvers árs fara fram miklar umræður um hvort tiltekinn árlegur sjónvarpsþáttur hafi verið skemmtilegur. Þarna er auðvitað átt við Áramótaskaupið sem virðist fara versnandi með árunum ef marka má ýmsar gagnrýnisraddir. Ég verð þó að viðurkenna að ég gat alveg hlegið að Skaupinu í ár líkt og áður - kannski er það góðu gáfnafari að þakka.

Skopskyn manna er mismunandi og er allt eins líklegt að það sem einum þykir fyndið, þyki öðrum vera algjörlega húmorslaust. Mér fannst til dæmis hjólastólaatriðið í Skaupinu vera mjög slappt en ég get hlegið mig máttlausann af öllum hjólastólaatriðunum með Andy og Lou í Little Britain þáttunum. Mestu máli skiptir - eins og Pétur læknir heldur fram - að fólk sé ekki kímniheft og geti fundið sér eitthvert aðhlátursefni. Það er til að mynda alltaf gaman að hlæja að óförum annarra og fréttir á borð við þessa geta óneitanlega kitlað hláturtaugarnar... ég verð nú samt að viðurkenna að ég bókstaflega grét úr hlátri við lestur fréttarinnar sem er svohljóðandi:

Þrekvaxin kona lokar helli

22 ferðamenn lokuðust inni í Cango-hellunum í Suður-Afríku þegar nokkuð breiðvaxin kona hrasaði á leið út um þröngan innganginn. Konan sat föst í tíu klukkustundir.

Meðal þeirra sem lokuðust inni, var sykursjúkur maður og tvö astmaveik börn. Björgunarmanni tókst að skríða yfir konuna með insúlín, vatn, súkkulaði og teppi meðan félagar hans reyndu að losa stífluna. Með því að smyrja konuna og klettana í kringum hana með matarolíu, tókst að lokum að draga hana út. Kostnaður við björgunina nemur sem svarar 400.000 íslenskum krónum.


Baldur Smári
  • » Tölvupóstur «

  • » að skoða «

Bloggarar


Tenglar


Líkamsrækt


HuxjónirATOM 0.3