» Party in the moonlight and dance to the sunrise...



sunnudagur, október 31, 2004

Uppgufun


Það er merkilegt hvað vodki gufar hratt upp, ég tók einmitt eftir þessu í gærkvöldi þegar ég smellti einni flösku af Smirnoff á borðið í partýi nokkru... stuttu síðar var flaskan tóm og líklega hefur vodkinn bara gufað upp... það er allavega svo að skilja ef marka má frétt á mbl.is í kvöld: "Lögreglan í Borgarnesi hefur upplýst þjófnað á 380 lítrum af Pölstar-vodka sem stolið var úr birgðageymslum vínframleiðanda í Borgarnesi í byrjun mánaðarins. Að sögn lögreglunnar er málið að fullu upplýst og náðst hefur að endurheimta rúmlega helminginn af þýfinu eða um 50 kassa. Afgangurinn hefur væntanlega gufað upp enda er þarna um mjög rokgjarnan vökva að ræða."



Ég var að taka til í gömlu dóti hjá mér og fann þá minningabók frá því ég var í 5. bekk (væri núna 6. bekkur). Þar kemur margt skemmtilegt fram og ég ætla að leyfa mér að birta smá brot af því sem bekkjarfélagar mínir höfðu fram að færa á þessum árum:

Byrjum reyndar á mér sjálfum, á þessum tíma var ég 148,5 cm á hæð og vigtin hafði sýnt 46,5 kg. Ég hef greinilega verið mikill nákvæmnismaður á þessum tíma. Besti kennarinn var Skarphéðinn, mér fannst skemmtilegast í stærðfræði en leiðinlegastur var lesturinn. Ég taldi mig standa best að vígi í stærðfræði en verst gekk mér í sundinu. Ég var svo frumlegur að segjast spila á spil og var félagi í UMFB. Eftirlætisbókin mín var "Í föðurleit", Stuðmenn voru sú hljómsveit sem mér þótt best og uppáhalds lagið var BAD með Michael Jackson. Á þessum tíma voru tölvurnar ekki komnar til sögunnar þannig að áhugamálin mín voru fótbolti, skák og golf... að lokum var ég óákveðinn um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór.

Ef ég tek Gumma Gunnars fyrir þá hafði hann lítið til málanna að leggja annað en að eftirlætisbókin hans var "1000 brandarar" og áhugamálin voru fótbolti. Svipaða sögu er að segja af Ara, hann var mikið í boltanum og uppáhalds bókin hans var "Eusébio" en mig minnir að það hafi verið "Svarta perlan". Rúnar Geir breytti aðeins út af vananum og nefndi hlaup auk fótboltans og hann hlustaði á norsku popparana í Ah-a. Jónas Guðmunds las "Frank og Jóa" og fór á skíði auk þess að spila fótbolta. Guðbjartur Atli var rokkari á þessum tíma og hlustaði á sænsku ofursveitina Europe (ég man ekki betur en að ég hafi gefið honum plötuna þeirra í afmælisgjöf á sínum tíma) og honum fannst lagið "Ninja" vera gott. Guðbjarti þótti líka ástæða til að benda á að Jónas og Erna væru e.t.v. að stinga nefjum saman á þessum tíma. Róbert Anni kom merkilega á óvart, hann ætlaði sér að verða geimfari og fannst mjög gaman að lesa bókina um "Krummafélagið". Takið svo eftir... Róbert Anni fílaði Europe í tætlur á þessum tíma og var algjör fótboltafíkill! Þetta eru bara stórkostleg tíðindi. Bjarni Vals skrifaði næstur, hann hlustaði á Stuðmenn en eftirlætis lagið var "Digiló Digilei" sem mig minnir að hafi verið með sænskri hljómsveit sem sigraði í Eurovision á sínum tíma. Bjarni var hrifinn af bókinni "Ævintýradalurinn" og áhugamálin hans voru fótbolti og sund, þess má einnig geta að Bjarni ætlaði sér að verða sundþjálfari þegar hann yrði stór. Síðasti strákurinn sem ég vitna í er Sigurbjörn, það helsta sem ég rak augun í hans skrifum var að honum þótti skemmtilegast í handavinnu, ég er viss um að Dóra Lína verður ánægð þegar hún fréttir af því.

Af stelpunum er lítið að segja, þær virtust þó vera mjóg samhljóða að flestu leyti. Engin þeirra vissi t.d. hvað þær voru þungar (einmitt, ekki séns að maður trúi því), þær sögðust myndast illa, sundið og sundferðalög voru vinsæl, Whitney Houston átti greinilega hug þeirra allra og allar voru þær að tapa sér yfir laginu "I Wanna Dance" (eða "I wanna Dens" eins og þær orðuðu það) sem var einmitt með Whitney Houston. Þeim þótti líka leiðinlegt í líffræði og Skarphéðinn var vinælasti kennarinn... hann var reyndar líka í uppáhaldi hjá öllum strákunum líka.

Ég vil svona að lokum benda bekkjarsystkynum mínum á að við eigum 15 ára fermingarafmæli á næsta ári og það er ekki seinna vænna að fara að huga að undirbúningi þessa stórafmælis.



Mér dauðbrá þegar ég fór inn bloggið hjá Jóni Atla og sá þar frétt af því að Svarta gengið hefði loksins verið handsamað... sem betur fer var þetta ekki Svarta gengið úr golfinu...



Ég fór á körfuboltaleik áðan... UMFB vs. Fúsíjama... það er skemmst frá því að segja að UMFB tapaði leiknum þrátt fyrir stórleik hjá Bigga Olgeirs sem kom inná í 3. leikhluta eftir að Snævar þurfti að fara meiddur af leikvelli eftir ljóta tæklingu. Annars fannst mér of mikið um ótímabær 3 stiga skot hjá UMFB og svo var Ingó frekar dapur í dag... þeir áttu samt góða spretti inn í milli.



Manni líður bara illa að sjá myndirnar af því þegar Djibril Cisse fótbrotnaði í leiknum gegn Blackburn í gær, þetta minnir mann bara á það þegar Henrik Larsson brotnaði fyrir nokkrum árum síðan. Það er líka hægt að sjá video-upptöku af þessu atviki hér.


föstudagur, október 29, 2004

Ekki kjósa Bush


Gott myndband hjá honum Eminem



Í kjölfar lista yfir meinta dópsala hefur verið birtur listi yfir meinta alþingismenn... algjör snilld, t.d. kommentið við ákveðinn vestfirskan þingmann sem sagður er vera með "dulda anóreksíu"



Ég elska Hed Kandi. Diskar á borð við Disco Heaven, Twisted Disco, Beach House, Back To Love, svo ekki sé minnst á diska frá Base barnum á Ibiza, World Series UK diskinn og Hed Kandi Summer 2004 diskinn, hafa gjörsamlega heillað mig upp úr skónum undanfarið. Mig er líka farið að langa óstjórnlega mikið til að heimsækja spænskar sólarstrendur næsta sumar... Ibiza væri algjör draumur...


miðvikudagur, október 27, 2004

Back To Love


Sagt er að ein mynd segi meira en þúsund orð þannig að ég ætla ekki að segja mikið um ástina í mínu lífi þessa stundina... þessi mynd verður að duga í bili.



Það er spurning hvort maður eigi að fá sér nýtt dót fyrir þessi jól... ég er afskaplega heitur fyrir iPod Photo.



Anna Sigga var fljót að átta sig á því að það er eitt ár síðan Víkari.is leit dagsins ljós. Upphaflega átti vefurinn að fara í loftið 28. október 2003 en þann dag hefði afi minn orðið 100 ára... en ég gat ekki beðið í einn dag eftir að ég var búinn að eignast lénið www.vikari.is.

Þetta ár er búið að vera mjög viðburðaríkt hjá mér og ég er búinn að eyða mjööög mörgum klukkutímum í sjálfboðavinnu (og rúmlega það) við að afla og vinna efni fyrir vefinn. Samtals hafa um 600 fréttir og pistlar birst á www.vikari.is auk nokkurra myndasafna. Undanfarið hafa myndirnar setið á hakanum hjá mér, ástæðurnar fyrir því eru aðallega að það er mjög tímafrekt að forvinna myndir fyrir vefinn og svo er ég ekki nógu ánægður með gæðin á myndunum.

Ég vona að ég fari að fá langþráða uppfærslu á vefinn... þá mun koma nýtt útlit og vonandi einhverjir nýjir "dagskrárliðir".

Annars vil ég bara biðla til þeirra Víkara sem lesa bloggið mitt... ef þið viljið leggja hönd á plóg þá er öll aðstoð vel þegin... það er erfitt að vera einn í að halda svona vef úti.


þriðjudagur, október 26, 2004

Merkisdagur


Það er merkisdagur hjá mér á morgun... þið megið giska á hvað það er sem gerir miðvikudaginn 27. október 2004 merkilegan.



Ég held að það sé deginum ljósara að Mugison var að meika það á Iceland Airwaves hátíðinni. Þessi umsögn var t.d. á heimasíðu Sýrðs rjóma:

"Fólk að byrja að týnast inn og held ég að mestu hafi verið áhuginn að sjá næsta tónlistarmann, MUGISON. Og Mugison átti kvöldið, hann var stjarna kvöldsins. Hann gjörsamlega saltaði alla aðra. Sérlega gaman að horfa á tónlistarmann uppi á sviði sem hefur gaman af þessu og lætur vita af því. Í stað þess að vera í einhverjum listastæla, vera feiminn og súr, þá talaði hann til áhorfenda og bjó til bara massívt "show". Undir lokin kallaði hann inn á svið pabba sinn sem má vera stoltur af syni sínum, enda lag um föður sinn víst. Eitt af "mörgum" ástarlögum hans þetta kvöldið. Dúettinn hans með Röggu Gísla var magnaður. Ragga náttúrulega schnilldarsöngkona en Mugison söng einnig eins og engill. Sýndi það og sannaði í gær að hann hefur kraftmikla og víða rödd. Bara eitt besta performance sem ég hef séð hjá íslenskum tónlistarmanni. Öruggur, skemmtilegur, einlægur og frumlegur. Topklass."

Og ekki spillir fyrir að fá þessa umfjöllun hjá frændum vorum Dönum.

Það eru greinilega margir snillingarnir í bolvíska '76 árgangnum...



Það þekkja allir veggjakrotið við malarnámurnar á Kjalarnesi þar sem stórum stöfum er ritað: "Flatus lifir" Núna hefur Baggalútur birt frétt um að Flatus sé látinn. Ég heyrði fyrir nokkrum árum sögu um hvernig þetta veggjakrot varð til, sagan tengdist Kirkjutorginu fræga minnir mig... vitið þið eitthvað meira um málið?


mánudagur, október 25, 2004

Queen on Fire


Ég verð að eignast þennan DVD... Queen klikkar aldrei.



Arsenal tapaði loksins leik um helgina, Liverpool er búið að vinna 2 leiki í röð og það hyllir undir að Bolvíkingar fái að sjá enska boltann á Skjá Einum fljótlega. Það er vonandi að öll vinnan og peningurinn sem maður eyddi í tengslum við söfnun fyrir sjónvarpssendi eigi eftir að skila einhverju til samborgara minna.

Svo vitnað sé í fréttatilkynningu Símanns... "Síminn hyggst veita þeim bæjarfélögum sem söfnuðu fyrir sendum, til þess að eiga möguleika á Skjá 1 og þar með horfa á enska boltann, ákveðinn forgang við uppbyggingu á sjónvarpsþjónustu yfir ADSL kerfi sín. Bæjarfélögin hafa sýnt mikinn áhuga á því að fylgjast með boltanum og því hefur verið ákveðið að koma til móts við óskir þeirra og gerist það vonandi fyrir jól. Staðirnir sem um ræðir eru Bolungarvík..." Vonandi verður þetta jólagjöfin okkar í ár.


sunnudagur, október 24, 2004

Trallið


Ég fór á Trallið á Suðureyri í gærkvöldi og skemmti mér ljómandi vel. Ég gat ekki betur séð en að skemmtunin hefði farið mjög friðsamlega fram þrátt fyrir að fjölmiðlaumfjöllun hafi bent til annars. Sagt var að verðir laganna hefðu staðið í ströngu (eins og sjá má á þessari mynd og reyndar þessari hér líka) en annríkið hjá þeim fólst aðallega í að stöðva bíla í leit að áfengi (og líklega niðurhellingu þess) auk tíðra heimsókna inn á sjálft ballið... að ógleymdum fyrirsætustörfunum sem geta oft á tíðum verið erfið og krefjandi.

Í hnotskurn er ekki hægt að segja annað en að Trallið og umgjörðin í kringum það hafi verið til fyrirmyndar... Biggi Olgeirs og co... til hamingju með frábært Trall!


fimmtudagur, október 21, 2004

Stærðfræðin


Ég fékk þessa spurningu á mig í ræktinni um daginn: "Baldur, hefurðu einhvern tímann fengið 10 í stærðfræði?" Ég svaraði þessari spurningu játandi.




G8


Gazza heitir núna G8


þriðjudagur, október 19, 2004

Markvarsla


Það er örugglega nóg að gera hjá markmanninum í þessu belgíska liði, hann hefur aðeins þurft að sækja boltann 139 sinnum í markið í síðustu 8 leikjum, þar af 58 sinnum í síðustu 2 leikjum. Áhorfendur á leikjum félagsins geta allavega ekki kvartað undan því að það vanti mörk í leiki félagsins.


mánudagur, október 18, 2004

Gott mál


Mikið var ég feginn þegar ég frétti að Vegagerðin hefði hafnað beiðni um lækkun hámarkshraða á þjóðveginum milli Holtahverfis og flugvallarins í Skutulsfirði. Þar með var komið í veg fyrir að leiðinlegasti vegarkaflinn á leiðinni frá Bolungarvík til Reykjavíkur væri lengdur. Málið er bara ósköp einfalt: Þjóðvegirnir eru ætlaðir bílum en ekki gangandi fólki.



Að mínu mati er lagið Call On Me með Eric Prydz algjör snilld, ég kemst allavega alltaf í gott skap þegar ég heyri það.... svo er myndbandið við lagið líka guðdómlegt.


laugardagur, október 16, 2004

Nammidagur


Það er opinber nammidagur í dag, það þýðir að maður má sukka að vild í sælgæti og annari óhollustu. Ég ætla að taka daginn hátíðlegan og kaupa mér súkkulaði og borða það af bestu lyst.

Í kvöld er það svo Verklokagleðin hjá STEV... þar verða á borðum einhverjar kræsingar og svo verður að öllum líkindum drukkið og djammað fram eftir nóttu.

En aftur að súkkulaðinu... vinnufélagarnir mínir hafa verið mjög duglegir að reyna að freista mín með súkkulaði í kaffitímum undanfarna mánuði... ég ætla að tileinka þeim lagið Chocolate með Soul Control en textinn hljóðar einhvern svona:

Everybody In The World Likes Chocolate
Oooh, We Love It!
Oh, It Makes You Happy
Yeah, It Gets You Sexy
It Makes You Fat But We Don't Care About That...


fimmtudagur, október 14, 2004

Sk@urinn


Eitt af því sem vinnan mín snýst um eru skattamál... ég á reyndar að heita sérfræðingur í þeim efnum. Ég var að rekast á nýjan vef um skattamál sem er ætlaður unglingum, þarna er farið í grundvallaratriði í sambandi við skatta og ég held að það hafi allir - ungir sem aldnir - gott af því að fara í gegnum efnið á vefnum.



Ég hvet alla sem verða staddir í borg óttans á morgun að mæta á tónlistarveisluna sem kennd er við ísfirska nýbylgju. Mæting er í Iðnó kl. 20 og er aðgangur ókeypis. Meðal þeirra sem þar koma fram er hinn bolvíski Mugison sem er nota bene stórfrændi Kalla kennara. Ég mæli líka með að fólk lesi forystugrein Baggalúts sem fjallar um tónleikana.


miðvikudagur, október 13, 2004

Óskalag


Ég hef rökstuddan grun um að Stálið sé að koma út úr skápnum sem aðdáandi rafvirkjapopps og má sjá merki þess á bloggi fólksins í dag. Greinilegt er að Kris saknar hinnnar undurofuræðislegu baðstrandartónlistar sem DJ Base hefur verið þekktur fyrir að miðla til lesenda bloggsins. Þó svo að tónlistarhornið sé í komið í smá hvíld þá ákvað ég að gera eina undartekningu sem smá sárabót fyrir Stálið. Hérna er uppáhaldslagið hans þessa dagana en það er með rúmensku hörkutólunum í O-Zone, lagið heitir svo mikið sem "Dragostea Din Tei".


mánudagur, október 11, 2004

Vonbrigði


Það eru viss vonbrigði að lesa um þessa rannsókn á því hvernig kynin þola áfengisdrykkju, ég sem stóð alveg fastur á því að við karlarnir værum sterkara kynið í þessum málum. En ég get nú alveg verið sammála því að áfengi hafi örvandi áhrif á karlmenn... það er allavega mín reynsla frá liðinni helgi.



Eftir að hafa lesið þessa frétt á bb.is datt mér helst í hug að skólastjórnendur MÍ væru búnir af afskrifa nemendafélag skólans. Ummælin „Ekki í verkahring Nemendafélagsins að skipuleggja almennar skemmtanir“ hljóma vægast sagt furðulega í mínum eyrum og í rauninni tel ég að hér sé um að ræða aðför að NMI og félagslífi nemenda skólans. Ég geri ráð yfir að framvegis muni skólameistari sjá um allt skemmtanahald innan vegna MÍ, það má því gera ráð fyrir nemendur MÍ skemmti sér aðeins á hagyrðingakvöldum á Tofnesi næstu árin.


sunnudagur, október 10, 2004

Slett úr klaufunum


Ég fór út á lífið í gærkvöldi og sletti ærlega úr klaufunum. Að sjálfsögðu skemmti ég mér vel en dagurinn í dag var frekar erfiður sökum slæmrar heilsu. Það er alveg merkilegt hvað maður verður alltaf slappur daginn eftir gott djamm. Ég gerði heiðarlega tilraun til að losna við þynnkuna í dag með því að fá mér göngutúr inn að vita, það var nú bara fínasta hreyfing en veðurguðirnir voru mér ekkert sérstaklega hliðhollir því það rigndi duglega á mig á heimleiðinni. Ég kom heim gegnum blautur án þess að losna við timburmennina.


föstudagur, október 08, 2004

Face North


Ég mæli með því að þið tékkið á video-upptökunni af Face North fyrirsætukeppninni sem haldin var á Broadway í sumar... Á meðal keppenda var einn Víkari, þ.e. Einar G og svo var líka hluti þeirra sem stóðu að keppninni svokallaðir Víkarar, þ.e. Jónatan og Ragnhildur.



Maður sem lyktaði eins og bruggverksmiðja kom inn á skyndibitastað og settist við hliðina á presti. Bindið á manninum var drullugt, andlitið allt út í varalit og hálffull ginflaska stóð út úr vasanum á rifna jakkanum hans. Hann opnaði dagblað og byrjaði að lesa. Eftir nokkrar mínútur snýr maðurinn sér að prestinum og spyr: "Heyrðu faðir, hvað veldur liðagigt?" "Herra minn, henni veldur of mikið næturlíf, að vera með ódýrum og rugluðum konum, of mikið alkóhól og fyrirlitning á náunganum." "Ég er svo hissa" sagði hálffulli maðurinn og hélt áfram að lesa dagblaðið. Presturinn fór að hugsa um hvað hann hefði sagt við manninn og ákvað að biðjast fyrirgefningar. "Ég biðst afsökunar, ég ætlaði ekki að vera svona ruddalegur. Hvað hefurðu haft liðagigt lengi?" "Ég er ekki með liðagigt, ég var að lesa að páfinn hefði hana."



Síðustu vikur hafa verið mjög annasamar hjá mér, ég get varla sagt að ég hafi átt dauðan tíma í háa herrans tíð. Hefðbundinn dagur hjá mér er þannig að ég mæti í vinnuna á morgnana, fer heim í hádeginu, svo aftur niður í vinnu, skrepp í ræktina seinni partinn og svo heim í mat eftir það, strax eftir kvöldmat er haldið aftur í vinnuna og venjulega er ég ekki kominn heim úr henni fyrr en um eittleytið. Þá tekur við "frítíminn" sem fer að mestu leyti í að skrifa fréttir fyrir Víkari.is vefinn og svo get ég stundum skrifað smá pistla sem þennan á bloggið. Ef einhver á lausa nokkra auka klukkutíma í sólarhringinn þá gæti ég vel þegið þá...


fimmtudagur, október 07, 2004

Miðnæturblogg


Fyrir nokkrum mánuðum síðan vildi einhver fá að heyra lögin sem ég hef sett saman. Ætli það sé ekki best að drífa í því að svipta hulinni af þessum meistaraverkum...

Flipp nr. 1
Kaztro - Start >> Þetta var fyrsta lagið og er fimm ára gamalt þessa dagana en það leit dagsins ljós haustið 1999.
Flipp nr. 2
Kaztro - 2K >> Þetta lag varð nú bara til fyrir aldamótapartýið fræga á áramótunum 1999/2000... smá áhrif frá Mauro Picotto á þessum tíma.
Flipp nr. 3
Kaztro - Dogs >> Smá bútur úr Lick It með 20 Fingers lenti inn í þessu lagi... þetta lag heyrðist fyrst haustið 2000.
Flipp nr. 4
Kaztro - Snowstorm >> Þetta er bara trance.... þetta lag varð örugglega til á einhverju vetrarkvöldinu árið 2001.
Flipp nr. 5
Kaztro - Melt >> Ég man ekki hvaða flipp þetta var... þetta var allavega árið 2001 og trommutakturinn í laginu er frekar sérstakur.
Flipp nr. 6
Kaztro - Sadness >> Ég fékk piano laglínuna á heilann í fyrir tæpu ári síðan og auðvitað endaði það með því ég bjó til lag í kringum hana.
Flipp nr. 7
Kaztro - Seven >> Grunnurinn að þessu lagi var búinn til á klukkutíma rétt fyrir síðustu áramót... auðvitað um miðja nótt... svo fóru 2-3 tímar í að klára verkið daginn eftir. Ég man að ég spilaði þetta lag í partýi á gamlárskvöld og það kom mér á óvart að það var bara til fólk sem fílaði það.

Þetta eru sem sagt lögin 7 sem ég hef klárað á undanförnum 5 árum, þau eru öll gerð í mismunandi útgáfum E-Jay forritinu en það er algjör barnaleikur að búa til tónlist með hjálp E-Jay.


miðvikudagur, október 06, 2004

Hvenær verður maður fullorðinn?


Þessi spurning hefur komið upp í hugann á mér reglulega frá því ég var lítill krakki að leika mér á Holtastígnum. Ég er reyndar ennþá að leika mér á Holtastígnum en er orðinn nokkrum árum eldri og er meira að segja farinn að trúa því að ég sé orðinn fullorðinn.

En þegar ég horfi tilbaka þá held ég reyndar að ég hafi fullorðnast mjög snemma, á einum góðum veðurdegi hoppaði ég úr því að vera barn í það að vera fullorðinn einstaklingur. Það er kannski ekki hægt að tímasetja þennan merka atburð nákvæmlega en ég myndi veðja á að þetta hafi gerst í kringum 16 ára aldurinn.

Ef maður horfir almennt á málin þá man ég eftir því að í gamla daga voru menn komnir í fullorðinna manna tölu að lokinni fermingu, í dag virðist þetta viðmið vera að færast æ ofar í aldursstigann og eru menn jafnvel að tala um tvítugsaldurinn í þessu sambandi.

Að mínu mati verður maður fullorðinn þegar maður er farinn að geta tekið ábyrgð á eigin lífi og eigin gerðum. Því fyrr sem það gerist, því betra.


þriðjudagur, október 05, 2004

Versti dagurinn


Ég held að dagurinn í dag sé einn versti dagur ársins 2004, það er brjálað að gera á öllum vígstöðvum í dag og það á örugglega eftir að verða góð afslöppun að komast í ræktina seinni partinn.


mánudagur, október 04, 2004

Saklaus uns sekt er sönnuð


Ég frétti að það væri mikil óvissa um skólahald í Menntaskólanum á Ísafirði næstu vikuna þar sem búið væri að vísa stórum hluta nemenda tímabundið úr skólanum í kjölfar óvissuferðar NMÍ. Í ferðinni frægu brutu nær allir af þeim 115 sem héldu út í óvissuna 7. grein reglna um umgengni í og við MÍ. Þá skilst mér að maki skólameistara hafi ferðast með nemendum og skráð niður þá sem "sýnilega" brutu umrædda grein í ferðinni. Samt sem áður virðist sem handahófskennt úrtak hafi verið valið, þó með þeim undantekningum að nær eingöngu karlkyns nemendur fengu brottvísun, sérstaklega ef þeir voru bolvískir. Ekki mun vera þörf á að færa sönnur á að viðkomandi nemendur hafi brotið af sér því ákæruvaldið - í þessu tilviki skólastjórnendur MÍ - hafa alltaf rétt fyrir sér. Gamli frasinn "saklaus uns sekt er sönnuð" hljómar sennilega eins og brandari í eyrum dómsvaldsins í þessu máli - sem í þessu tilviki eru einnig skólastjórnendur MÍ - og auðvitað þarf ekkert að afla sönnunargagna, það yrði bara til þess að einhverjir saklausir nemendur myndu sleppa við refsingu.

Á vef MÍ er tekið fram að brot á umræddum reglum geti varðað viðurlögum og jafnvel brottvísun úr skóla. Þar er hvergi kveðið á um í hvaða tilvikum brottvísun skuli beitt eða hvaða viðurlög séu við broti á einstökum greinum. Það væri t.d. fróðlegt að vita hvort það séu sömu viðurlög við broti á 1. grein og 7. grein. Mega nemendur MÍ jafnvel eiga von á því í framtíðinni að þeim verði vísað úr skóla ef þeir mæta ekki nógu snyrtilega klæddir í skólann? Og hvernig er þetta með 6. greinina... "Nemendur eiga ekki að nota tyggigúmmí í skólanum". Það er aldrei að vita nema að í neðstu skúffuni í skrifborðinu hjá skólameistara liggi svarti listinn yfir þá nemendur sem "sýnilega" hafa einhvern tímann notað tyggigúmmi í skólanum... ætli þeir verði reknir næst?



föstudagur, október 01, 2004

Baggalútur


Ég var næstum búinn að gleyma einum besta fréttamiðli landsins en hann Baggalútur vaknaði víst af værum blundi í dag... einhverra hluta vegna fannst mér þessi auglýsing á forsíðu vefsins vera einstaklega fyndin...



Ég lenti í tveimur samtölum í dag þar sem tóbaksnotkun bar á góma. Ég hef sjálfur verið svo heppinn að hafa aldrei byrjað á þessum ófögnuði. Mér finnst reykingar bara ógeðslegar, þær eru líka hallærislegar, óhollar og umfram allt dýrar.

Mér skilst að það sé ekkert óalgengt að þeir sem reykja noti að jafnaði einn pakka af sígarettum á dag og þessi pakki kostar víst um 500 kall. Það gerir 15.000 krónur á mánuði og ef maður tekur tillit til þess að maður greiðir skatta þá þarf maður að þéna um 25 þúsund kall aukalega á mánuði ef maður ætlar ekki að skerða ráðstöfunartekjurnar með reykingum. Þetta þýðir að á ársgrundvelli þyrfti maður að raka inn extra 300 þúsund kalli fyrir það eitt að fá að anda að sér menguðu lofti... það eru eitt stykki mánaðarlaun hjá háskólamenntuðum einstaklingi og liggur reyndar mjög nærri tekjumörkum hátekjuskatts.

Ég fór svo að pæla í því hvernig staðan væri hjá mér ef ég hefði nú verið uppreisnargjarn unglingur og byrjar að reykja í kringum 16 ára aldurinn. Mér reiknast til að ég væri þá búinn að eyða um 2,2 milljónum króna (á verðlagi dagsins í dag) í tóbak á þessum 12 árum og til að ég gæti greitt þessa fjárhæð þá hefði ég þurft að þéna um 3,6 milljónir aukalega á þessum tíma... ég held að það sé nú viturlegra að nota peninginn í eitthvað annað... t.d. flottan bíl.


Baldur Smári




  • » Tölvupóstur «

  • » að skoða «

Bloggarar


Tenglar


Líkamsrækt


Huxjónir



ATOM 0.3