» Party in the moonlight and dance to the sunrise...



miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Vegamál


Ég var á fundi í kvöld þar sem vegamál voru rædd. Það var fróðlegur og fjörugur fundur. Ef þið viljið hitta sérfræðinga í vega- og jarðgangagerð þá skulið þið tala við Bolvíkinga. Næstum hver einasti Bolvíkingur telur sig vera sérfræðing í vegamálum, vandamálið er hins vegar að þessir sjálfskipuðu sérfræðingar eiga mjög erfitt að vera sammála um nokkurn skapaðan hlut. Meðal annars þess vegna verður líklega aldrei sátt um hvar Bolungarvíkurgöng eiga að liggja.


þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Survivor: Bolungarvík


Sterkur orðrómur er um að innan skamms hefjist tökur á nýjum íslenskum raunveruleikasjónvarpsþætti. Þátturinn nefnist “Survivor: Bolungarvík” og munu þar 20 þekktar miðbæjarrottur glíma við erfiðasta verkefni lífs síns – búsetu í krummaskuði.

Stjórnandi þáttanna er sjálfur Dr. Gunni og verða þátttakendur í “Survivor: Bolungarvík” kynntir til sögunnar á síðum Fréttablaðsins áður en langt um líður. Þá hefur kyntröllið og tískulöggan Trausti 200 verið fenginn til að gefa álit sitt á væntanlegum þátttakendum.

Sagan segir að miðbæjarrotturnar muni dveljast í “brjáluðu blokkinni” meðan á tökum stendur og verður verkefni þeirra í þáttunum m.a. að koma sér í mannsæmandi vinnu og aðlagast hinum afskekkta bolvíska þjóðflokki. Vikulega munu áhorfendur fá að senda einn þátttakanda heim á malbikið en sú miðbæjarrotta sem lifir lengst af í fámenninu, fábreyttninni og doðanum fær sérstök verðlaun frá Samtökum landsbyggðarandstæðinga.

Miðbæjarrotturnar eru farnar að undirbúa sig undir förina í villta vestrið og hafa nokkrar þeirra m.a. sést taka strætó upp í Grafarvog til að komast í snertingu við lífið á landsbyggðinni. Einn þátttakandi hefur látið hafa það eftir sér að helst af öllu óttist hann af fá ekki hamborgara í Bolungarvík. Annar þátttakandi segist hafa lesið í Fréttablaðinu að það sé hættulegt að ferðast til Bolungarvíkur því þar sé furðufuglaflensa að ganga og að þar sé auðveldlega hægt að smitast af heilabilun.

Ekki er ljóst á hvaða sjónvarpsstöð “Survivor: Bolungarvík” verður tekinn til sýninga en orðið á götunni er að þessa stundina sé slegist um sýningaréttinn og er talað um að til samanburðar sé enski boltinn á góðu verði.


mánudagur, nóvember 27, 2006

Blueboy


Blái liturinn á hug minn og hjarta þessa dagana. Af því tilefni eru hér þrjú lög sem hafa eitthvað með bláa litinn að gera.

Eiffel 65 - Blue >> Algjör klassík
Orgy - Blue Monday >> Rokkuð New Order ábreiða
Blue Boy - Remember Me >> Mikið spilað á Jóni Bakan fyrir 10 árum síðan



Fyrir nokkrum árum fékk ég viðurnefnið "Teigabaninn" vegna þess að ég þótti fara illa með teigana á golfvellinum, var þá haft á orði að ég þyrfti að borga tvöfallt árgjald í golfklúbbinn til að standa straum af auknum viðhaldskostnaði golfvallarins.

Það kæmi mér ekkert á óvart ef forstöðumaður Árbæjar myndi krefja mig um tvöfallt gjald fyrir næsta árskort í ræktina eftir meðferð mínum á tækjum þreksalarins undanfarið. Fyrr í haust var það fótapressan sem gaf sig eftir átök mín og í dag gaf eitt spinninghjólanna upp öndina. Líklega verð ég hér eftir kallaður "Tækjabaninn".




sunnudagur, nóvember 26, 2006

Bakstur


Ég er í nammibanni og verð því að láta sælgætið eiga sig í bili. Bakkelsi er samt ekki á bannlistanum þannig að ég tók mig til og bakaði í dag.


fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Hraðskák


Spurning dagsins er svohljóðandi:

Hver varð Hraðskákmeistari Íslands árið 1986?

Sá/sú sem verður fyrst/ur til að koma með rétt svar getur rukkað mig um drykk á barnum við fyrsta tækifæri.


mánudagur, nóvember 20, 2006

7D


Ég flaug frá Reykjavík til Ísafjarðar í dag, þegar ég kom inn í flugvélina var ókunnur maður í sætinu mínu. Það kom svo í ljós að við vorum báðir með kvittun upp á sæti 7D... eini munurinn var að ég var á leiðinni til Ísafjarðar en hann var á leið til Egilstaða. Til allra hamingju fyrir ókunna manninn var Egilstaðavélin ekki farin í loftið þannig að hann komst líklega á leiðarenda líkt og ég.


sunnudagur, nóvember 19, 2006

Snjór


Það kyngdi niður snjó í borg óttans í nótt, það kom mér skemmtilega á óvart að sjá allt hvítt hér í morgun. Bílar fast í sköflum hér og þar og jólaskreytingar verslana loksins orðnar jólalegar.


laugardagur, nóvember 18, 2006

Borgarnesræða


Það er nóg að gera í pólitíkinni þessa dagana, úrslit prófkjörs framsóknarmanna í kjördæminu eiga e.t.v. eftir að skapa sérframboð og sjálfstæðismenn kjósa um tillögu uppstillingarnefndar að framboðslista í Borgarnesi á morgun. Kannski einhver góð Borgarnesræða líti dagsins ljós þar.

Hvað framsóknarmenn ræðir er ljóst að Kristinn H Gunnarsson hefur tapað sínu sæti til Herdísar Sæmundsdóttur en uppstilling sjálfstæðismanna gerir ráð fyrir óbreyttri röð þingmanna flokksins í efstu 3 sætin á listanum. Það vekur þó athygli mína að í sætum 4 til 9 hjá sjálfstæðismönnum eru aðeins 2 af 6 einstaklingum sem gáfu upphaflega kost á sér á kjördæmisþingi flokksins á Ísafirði fyrir rúmlega mánuði síðan. Hinir 4 eru einstaklingar sem upphaflega sóttust ekki eftir sæti á listanum og vekur það upp spurningar hjá mér hvort uppstilling sé eðlileg aðferð þegar kemur að vali á fólki á framboðslista.

Ég á seturétt á kjördæmisþinginu í Borgarnesi á morgun og á þar að greiða atkvæði um tillögu uppstillingarnefndar, ég hefði frekar viljað vera þar að kjósa um framboðslista sem væri mótaður eftir niðurstöðu prófkjörs.


föstudagur, nóvember 17, 2006

Bónusbjór


„Ég frétti að það væri verið að selja bjór fyrir mistök í Bónus frá maka mínum sem frétti þetta í vinnunni. Við fórum í Bónus og fundum umræddan bjór. Það stóð Beer efst á dósinni og þegar við lásum nánar stóð þar greinilega 5% Thule, ég keypti því tvo kassa. Við opnuðum einn til að vera viss um að um bjór væri að ræða sem var tilfellið“

Þetta voru orð heimildarmanns bb.is fyrir meintri sölu á bjór í verslun Bónus á Ísafirði.

Mér fannst þessi frétt frekar skondin, svo ekki sé meira sagt. Ég velti því fyrir mér hvað heimildamaðurinn var að hugsa þegar hann frétti af því að það væri hægt að kaupa bjór í almennri verslun. Viðkomandi veit líklega að ÁTVR er eini aðilinn sem má selja áfengi í lausasölu á Íslandi og þar með væri ljóst að ef Bónus væri að selja bjór þá væri verslunin að brjóta lög. Heimildarmaðurinn hefur greinilega ekki samband við lögregluna til að tilkynna um mögulega glæpastarfsemi þannig að verðir laganna gætu stöðvað lögbrjótana líkt og frjálshyggjumennina sem seldu einn bjór á Lækjatorgi um daginn. Þess í stað fer heimildarmaðurinn ásamt maka sínum í Bónus og kaupir ekki eina dós heldur tvo kassa til að sannreyna að um bjór sé að ræða. Mér fannst þetta alveg kostuleg saga - sama hvert sannleiksgildi hennar er.

Ég sá líka aðra hlið á málinu, sú hlið snýr að því þegar einokun Ríkisins á áfengissölu verður afnumin. Þá eigum við e.t.v. eftir að sjá sérstakan "Bónusbjór" í verslunum Bónus, dósirnar yrði líklega gular með bleikum grís. Samkaup gæti líka verið með sitt eigið brugg, þar væri þá e.t.v. líka hægt að kaupa gin og jafnvel hinn magnaða drykk Fanta Lemon. Ég verð líklega að bíða aðeins með að geta keypt gin í matvöruverslunum en kaupfélagsstjórinn mætti alveg fara að selja Fanta Lemon í verslun sinni.


þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Dyskoteka


Við búum í fjölþjóðlegu samfélagi, það sést best meðal annars þegar diskótek eru auglýst í Bolungarvík. Ég sem DJ Kaztro verð að öllum líkindum að spila á vaXon.is 2. desember næstkomandi en þar mun ég hafa mér til halds og trausts þrjá aðra plötusnúða. Eins og margir vita byrjaði ég plötusnúðsferil minn á þessum sama stað sem hét þá Jón Bakan... en síðan eru liðin nærri 10 ár og ég held að ég hafi engu gleymt.


mánudagur, nóvember 13, 2006

Dauði Baldurs


Ég rak upp stór augu þegar ég sá dagskrá Norrænu bókasafnavikunnar sem haldin er hátíðleg í Bolungarvík þessa dagana. Á fimmtudaginn er samkoma í Félagsheimilinu þar sem einn dagskrárliðurinn heitir "Dauði Baldurs" - ég ímynda mér bara allt hið versta...



Sjálfur Valdimar Víðisson, skólastjóri á Grenivík, var gestur í Laufskálanum á Rás 1 í morgun. Í þættinum ræðir Valdimar m.a. um nýjungar í skólastarfi og einlægan áhuga sinn á tónlist Ragnars Bjarnasonar.



Fyrir viku síðan fékk ég lánaðan geisladiskinn Come On Feel The Illinoise! með Sufjan Stevens. Ég verð að viðurkenna að Sufjan kom mér skemmtilega á óvart og það er virkilega notalegt að hlusta á þessu ljúfu tóna meðan óveðrið geysar utandyra. Þeir sem voru svo heppnir að fá miða á tónleika Sufjan Stevens í Fríkirkjunni síðar í vikunni eiga eflaust eftir að skemmta sér vel.



Ég var að átta mig á því að heimilistölvan mín er orðin rúmlega 4 ára gömul og það lítur ekkert út fyrir að ég þurfi að fara að endurnýja hana í bráð. Samkvæmt afskriftareglum bókhaldsins ætti tölvan að vera orðin ónýt en sem betur fer er ekki alltaf beint samband á milli bókhaldsins og raunveruleikans.


laugardagur, nóvember 11, 2006

Baggalútur


Jólasnjórinn er kominn í Víkina og það er ball með köntrísveitina Baggalút í Víkurbæ í kvöld. Auðvitað er skyldumæting á ball í kvöld enda ekki á hverjum degi sem jólalag er frumflutt í Víkurbæ. Grjóthrun í Hólshreppi hitar upp fyrir Baggalút í kvöld og veðrið er þannig í dag að við getum treyst því að ekkert grjóthrun verður á Óshlíð í kvöld.



Er að lesa bók sem heitir "Draumalandið". Mjög góð bók sem vekur mann til umhugsunar um ansi margt í daglega lífinu.




föstudagur, nóvember 10, 2006

Chacarron


Þessi snilld kemur frá Panama og fellur undir tónlistarstefnuna Reggeaton. Lagið varð vinsælt í gegnum YouTube vefinn... textinn er bull og breskir veðbankar spá því toppsæti breska vinsældarlistans á jólunum... hér er líka Teletubbies útgáfan...


fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Tæknileg mistök


Þetta er ein ótrúlegasta afsökun sem hægt er að hugsa sér fyrir að hafa drepið 18 óbreytta borgara.


þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Köntrí


Næstkomandi laugardagskvöld stígur köntrísveit Baggalúts á stokk í Félagsheimili Bolungarvíkur. Sjálfskipaðir djammfræðingar bæjarins spá því að mikið verði um dýrðir á balli Baggalúts enda ekki á hverjum degi sem slíkir snillingar láta sjá sig í Gómorru norðursins. Einnig má fastlega gera ráð fyrir að íbúar þessa höfuðbóls óeðlis og viðurstyggðar væti vel kverkar sínar með söngvatni og mega þá þeir sem eiga ættir sínar að rekja til hins heiðbláa Hnífsdals gæta sín.

Þrátt fyrir ófögur orð Bagglúts í garð Bolvíkinga í gagnrýni um kvikmyndina Nóa Albínóa á sínum tíma geri ég ekki ráð fyrir öðru en að við Víkarahelvítin taki vel á móti köntrísveit Baggalúts. Lítill fugl hvíslaði því að mér að til að bæta Bolvíkingum upp fyrri skrif um bæjarfélgið muni köntrísveitin frumflytja nýtt aðventulag á ballinu. Ef það verður eitthvað í líkingu við önnur lög sveitarinnar á borð við "Allt fyrir mig" eða "Brimbretta-Baldur" þá er þeim allt fyrirgefið.



Fyrr í kvöld fór ég á borgarafund vegna gerðar snjóflóðavarnargarðs í Bolungarvík. Það var fátt nýtt sem kom fram í máli fundarmanna enda hefur hönnun mannvirkisins að mestu legið fyrir í lengri tíma. Á fundum sem þessum heyrist yfirleitt aðeins í þeim sem eru óánægðir með hlutina og að þessu sinni voru þeir ansi fáir. Þó sumir bæjarbúar berji enn höfðinu við steininn og vilji kaupa upp hús á hættusvæði (sem væri stór hluti húsa í bænum ofan Völusteinsstrætis) þá eru flestir bæjarbúar fegnir að nú skuli ráðist í gerð snjóflóðavarnargarðsins. Þó skil ég vel áhyggjur þeirra sem búa næst garðinum en óumdeilanlega verður mikil breyting á nánasta umhverfi þeirra með tilkomu varnargarðsins að ógleymdu ónæðinu sem fólk verður fyrir meðan framkvæmdir við garðinn standa yfir.

Umfram allt er ég ánægður með að snjóflóðavarnargarðurinn sé loksins að verða að veruleika. Bolvíkingar, rétt eins og aðrir íbúar landsins, eiga rétt á að geta búið við öryggi á heimilum sínum allan ársins hring. Við eigum hvorki að þurfa að búa við þá hættu á að snjóflóð falli á hús okkar né að við þurfum að yfirgefa heimili okkar í tíma og ótíma vegna snjóflóðahættu.



Með aðstoð einkaspæjara sem áður var á mála hjá Leyniþjónustu Dómsmálaráðuneytisins a.k.a. LEYNDÓ, fékkst þessi tölvugerða mynd af baðströnd Bolvíkinga eins og hún mun líta út að næturlagi árið 2020. Sami spæjari komst einnig yfir ljósmynd af tilvonandi strandvörðum þar sem þeir voru að máta einkennisfatnað bolvísku strandvarðanna á spænskri sólarströnd nýverið.



Ef það er einhver drykkur sem ég sakna frá Spáni þá er það Fanta Lemon, þ.e.a.s. ég sakna hins guðdómlega drykkjar "Gin Lemon" sem á Islantilla er blanda af tvö...þreföldum gin í Fanta Lemon.



Samkvæmt frétt á mbl.is ríkir óvissa um endurkomu Kastrós forseta Kúbu. En það ríkir einnig óvissa um endurkomu skífuknapans Kaztro sem ráðgerð var síðastliðið laugardagskvöld. Kaztro stefnir á að snúa aftur 2. desember næstkomandi en einmitt þann dag verða hátíðahöld vegna 80 ára afmælis Kúbuforseta.


mánudagur, nóvember 06, 2006

Orðið á Hafnargötunni



Orðið á Hafnargötunni um risa-mega-stórtónleika David Hasselhoff í Félagsheimili Bolungarvíkur er að tónleikahaldið sé ekki ástæðan fyrir komu strandvarðarins til Bolungarvíkur, heldur sé heimsóknin hluti af umfangsmiklum leynilegum áformum um að koma Bolungarvík rækilega á kortið hjá ferðamönnum.

Því til stuðnings er nefndur hinn dularfulli 7. liður í fundargerð atvinnumálaráðs Bolungarvíkur frá 25. október síðastliðinn. Leyndarmálið ógurlega mun vera áætlun um að "Baðstrandarbærinn Bolungarvík" verði mesta aðdráttarafl erlendra ferðamanna sem sækja Ísland heim. Þar mun strandvörðurinn David Hasselhoff gegna lykilhlutverki en hann mun verða yfirstrandvörður á "Sandinum". Því hefur einnig verið slegið föstu að þær Pamela Anderson, Erika Eleniak og Carmen Electra verði í starfsliði bolvísku strandvarðanna. Þá mun vera í bígerð bygging fjölmargra glæsihótela og spilavíta í nágrenni "Sandsins" auk þess sem að á næstunni verði boðin út gerð alþjóðaflugvallar í Syðridal. Einnig er á teikniborðinu bygging tónleika- og ráðstefnuhallar á hafnarsvæðinu en staðsetning hallarinnar þykir einkar hentug fyrir þinghald af ýmsu tagi.



Það eru óhuggulegar fréttir sem berast okkur í dag, einn látinn og tveir alvarlega veikir eftir að hafa tekið inn e-töflur eða ecstasy í borg óttans um helgina. Það best að láta dópið alfarið eiga sig.



Eins og flestir vita hefur bæjarstjóri Bolungarvíkur rekið fyrirtækið Austur-Þýskaland sem m.a. hefur staðið fyrir innflutningi erlendra tónlistarmanna til Íslands. Samkvæmt nýlegum fréttum hefur Grímur ráðið sér kanslara til að sinna Reykjavíkurdeild fyrirtækisins og er haft eftir kanslaranum nýráðna að nú væri réttast að kalla fyrirtækið Vestur-Þýskaland.

Heyrst hefur að fyrsta verkefni kanslarans verði að flytja inn eilífðartöffarann og strandvörðinn David Hasselhoff. Búist er við að Hasselhoff haldi risa-mega-stórtónleika í Félagsheimili Bolungarvíkur og vonast bæjarstjórinn til þess að "The Hoff" nái að heilla harmi slegnar bolvískar húsmæður.


sunnudagur, nóvember 05, 2006

Dularfullar símhringingar


Þegar ég var úti á Spáni á dögunum fékk ég nokkrar dularfullar símhringingar úr óþekktu númeri. Þar sem ég var að spila golf var ég alltaf með gemsann stilltan á "silent" meðan ég var úti á golfvelli. Á hverjum einasta degi voru nokkur "missed calls" frá óþekktu símanúmeri. Þetta vakti forvitni mína og svo einn daginn hringdi síminn þegar ég var ekki að spila golf. Ég svaraði og á hinum enda línunnar var rödd sem talaði ensku, mig grunaði strax að eitthvað gruggugt væri við símtalið og sagðist ekki hafa tíma til að spjalla. Ég hafði heldur engan áhuga á að borga millilandasímtal útaf einhverjum óþarfa. Eftir þetta héldu hringingarnar áfram en ég svaraði aldrei, mig grunar helst að þarna hafa einhverjir óprúttnir peningasvindlarar verið á ferð.



Í morgun var ég kallaður aumingi fyrir að hafa ekki mætt á tónleikana með skærustu stjörnum Vestfjarða í Krúsinni í gærkvöldi. Líklega átti ég nafngiftina vel skilið en ég hef róast svo mikið með árunum að rokkið heillar mig ekkert lengur. Ætli það séu ekki liðin um 15 ár síðan ég gat með einhverju móti kallað sjálfan mig þungarokkara.


laugardagur, nóvember 04, 2006

Jöfnuður


"Ögmundur Jónasson, alþingismaður og formaður BSRB, segir það til vinnandi að senda viðskiptabankana úr landi til að geta aukið jöfnuð í samfélaginu."

Klassískt dæmi um jafnaðarmennsku? Losum okkur við þá efnuðu sem borga skatta til samfélagsins svo allir geti orðið jafn fátækir?


föstudagur, nóvember 03, 2006

Helgarskammtur




Það hefur líklega aldrei skapast jafn mikil samstaða um gerð nokkurs samgöngumannvirkis á Íslandi en þegar ákveðið var að gera jarðgöng sem eiga að leysa veginn um Óshlíð af hólmi.

Það eru um þrjú ár síðan ég minntist fyrst á jarðgangagerð hér á blogginu. Þá horfðu menn til þessara 4 leiða en á síðustu þremur árum hefur umræðan þróast og fleiri möguleikar eru komnir til sögunnar.

Mér finnst rétt að skoða alla möguleika í stöðunni og velja þá leið sem er heppilegust með tilliti til öryggis vegfarenda og kostnaðar. Þær leiðir sem helst er rætt um þessa dagana eru eftirfarandi:

  • Stutt jarðgöng undir Óshyrnu og önnur stutt undir Arahyrnu, vegskálar og aðrar varnir milli Seljadals og Hnífsdals
  • Jarðgöng frá Ósi yfir í Seljadal, vegskálar og aðrar varnir milli Seljadals og Hnífsdals
  • Jarðgöng frá nyrsta hluta Syðridalsvatns yfir í Hnífsdal, nánar til tekið undir Lambaskál fyrir innan Hraun. Nýr vegur í sunnanverðum Hnífsdal fyrir ofan byggð
  • Jarðgöng frá Syðridal (við Reiðhjallavirkjun) yfir í Tungudal við Skutulsfjörð, nýr vegur lagður í Syðridal

Hins vegar hefur einn leið ekki verið mikið rædd. Þetta er sú leið sem hefur lengstum verið efst í huga mér og er jarðgöng frá Ósi að Skarfaskeri ásamt nýjum veg yfir Hnífsdalsvíkina. Þetta er sú leið sem Hnífsdælingar vilja fara og í mínum huga er þetta rétta leiðin.



Allar helstu stjörnur vestfirskrar tónlistar

Af hverju er B.G. ekki þarna á meðal? Hvað með DJ Base? Eða Grjóthrun í Hólshreppi?



Ég trúi ekki að forsætisráðherra sé ánægður með framboðsbrölt skyldmenna eiginkonu sinnar. Inga Jóna Þórðardóttir er eiginkona Geirs Hilmars Haarde. Sonur hennar heitir Borgar Þór Einarsson og er formaður SUS. Borgar hefur verið búsettur í Reykjavík og sat m.a. í stjórn Heimdalls frá 1999-2001. Í krafti stöðu sinnar innan SUS hefði Borgar getað tryggt sér gott sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík. En formaður SUS fór ekki fram í borginni, hann flutti lögheimili sitt upp á Akranes - þangað sem hann á ættir sínar að rekja - og bauð sig fram í 4. sætið í Norðvesturkjördæmi. En Borgar var ekki eini ungi sjálfstæðismaðurinn af Skaganum sem sóttist eftir 4. sætinu. Þegar í ljós kom að Skagamenn vildu frekar að Bergþór Ólason, aðstoðarmaður samgönguráðherra, yrði mögulegur fulltrúi Akraness í 4. sæti framboðslistans ákvað Borgar að draga framboð sitt tilbaka. Ástæðan var sögð sú að Borgar taldi að kvennkyns frambjóðandi af Akranesi væri líklegri til að ná 4. sætinu. Á sama tíma tilkynnti frænka Borgars af Skaganum, Herdís Þórðardóttir sem er systir Ingu Jónu, að hún vildi 4. sætið eftirsótta. Merkileg tilviljun svo ekki sé meira sagt.

Það stendur samt upp úr að framboðsbröltið hjá Borgari er frekar klaufalegt, hann átti góðan séns í borginni, flytur sig í annað kjördæmi og hættir svo við allt saman. Einnig ættu ungir sjálfstæðismenn að hugsa um þá staðreynd að formaður SUS virðist taka hagsmuni frænku sinnar fram yfir hagsmuni ungra sjálfstæðismanna.


fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Fuglarnir


Smári fékk flesta fugla í ferðinni, 5 talsins, og er hann því birdie-kóngurinn. Gunna var birdie-drottningin en hún fékk 2 fugla, báða á 11. holu. Dæja fékk einn fugl, Olli náði að minnsta kosti einum fugli og Jói fékk einn fugl líkt og ég en báðir fuglarnir okkar komu á 13. holunni - við fengum að sjálfsögðu koníak að launum en ekkert sælgætisskot. Jón Þorgeir fékk par á 4. holu sem jafngildir fugli.

Á myndinni má sjá hvað Jói var nálægt því að fara holu í höggi á 13. holu á mánudaginn.

Takið eftir boltafarinu hægra megin við holuna, sumir hafa fengið smá bakspuna í þetta skiptið. Einnig virðist Jói vera ótrúlega lágvaxinn á myndinni.



Ég er kominn heim úr hreint stórkostlegri golfferð til Islantilla. Það var tekið á móti okkur með rigningu en ferðin endaði í einmuna veðurblíðu. Það eina sem var slæmt við ferðina var að moskítóflugurnar voru aðeins of hrifnar af mér. Ég náði öllum markmiðum mínum í ferðinni og þarf því að setja mér ný markmið fyrir næstu ferð.


Baldur Smári




  • » Tölvupóstur «

  • » að skoða «

Bloggarar


Tenglar


Líkamsrækt


Huxjónir



ATOM 0.3