» Party in the moonlight and dance to the sunrise...



föstudagur, febrúar 23, 2007

Bestu sætin


Ég er strax farinn að telja niður dagana í leik Liverpool og Barcelona í Meistaradeildinni í knattspyrnu. Þriðjudaginn 6. mars næstkomandi verð ég staddur á Anfield í Liverpool ásamt tveimur góðum ferðafélögum sem eru líkt og ég gallharðir Poolarar. Við fengum sæti á besta stað, erum á 4. bekk í hólfi KK en það er fyrir miðjum velli. Nálægðin við leikmenn verður því mikil og alveg bókað að maður hefur góða myndavél með sér á leikinn. Þetta eru líklega bestu sætin sem hægt er að hugsa sér á fótboltaleik sem þessum.


miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Ólátabelgir


Ólátabelgirnir Craig Bellamy og John Arne Riise afgreiddu Barcelona á Nou Camp í kvöld. Golfkylfur komu þar hvergi við sögu en ævintýrið í Portúgal varð e.t.v. til þess að rauðhærði Norðmaðurinn uppgötvaði að hann gat skorað með hægri fæti. Leiknum lauk sem sagt með 2-1 sigri Liverpool þannig að það bíður mín að öllum líkindum skemmtilegur leikur á Anfield eftir tæpar 2 vikur.


sunnudagur, febrúar 18, 2007

Flensa


Ég hélt ég gæti sloppið enn einn veturinn við veikindi en svo er nú ekki. Stuttu eftir að ljóst varð að Eiríkur Hauksson hefði unnið forkeppni Eurovision fór maginn í mér að ókyrrast... og þið getið ímyndað ykkur framhaldið. Ekki ætla ég þó að kenna Eiríki eða Eurovision um slæmt heilsufar þessa helgina -og ekki er hægt að skella skuldinni á Bakkus í þetta skiptið - en vona hins vegar að ég verði orðinn hress í fyrramálið svo ég geti tekist á við hin hversdagslegu verkefni.


laugardagur, febrúar 17, 2007

blog.is


Það virðist sem annar hver maður sé kominn með blogg á www.blog.is Ég tryggði mér vikari.blog.is á sínum tíma en hef ekkert notað það að ráði hingað til, ef ég gefst einhvern tímann upp á Blogger og blogspot.com er aldrei að vita nema að ég setjist að á blog.is



Ég fjárfesti í The Confessions Tour DVD/CD disknum með Madonnu í dag. Það er skemmst frá því að segja að diskurinn er frábær enda er alltaf flott show í á tónleikum með poppdrottningunnni. Á tónleikunum er umdeilt atriði þar sem Madonna er krossfest á diskókrossi... mig minnir að kirkjunnar menn hafi viljað banna atriðið en mér fannst það bara flott.


fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Hryðjuverk


Það var tekist á um hryðjuverkamenn á Alþingi í dag. Samkvæmt fréttum virðist sem ákveðnir þingmenn hafi endurskilgreint hugtakið “hryðjuverk” þannig að fíkniefnasmygl falli þar undir. Hingað til hafa hryðjuverk verið skilgreind sem “hver sú árás sem af ásetningi er beint gegn almennum borgurum til ógnunar sem framin er í þeim tilgangi að ná fram stjórnmálalegum, trúarlegum eða hugmyndafræðilegum markmiðum.” Ég efast hins vegar um að innflytjendur (smyglarar) fíkniefna fremji glæpi sína í slíkum tilgangi. Þarna er í besta falli farið frjálslega með orð sem lýsir slæmum verknaði. Með hliðsjón af framantöldu geri ég þá kröfu á alþingismenn að þeir þekki muninn á eplum og appelsínum þegar fjallað er um jafn alvarleg mál og hryðjuverk á þjóðþingi Íslendinga.


þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Ríkur


Ég er ekki lengur fátækur ef marka má frétt Baggalúts um uppfærslu fátæktarmarka. Ég hef sem sagt látið undan vilja litla eyðslupúkans sem ásækir veskið mitt reglulega og hef fjárfest í nægilega stóru flatskjársjónvarpi. Það er ekki laust við að mér finnist ég vera orðinn ríkur núna.


mánudagur, febrúar 12, 2007

Jarðgöng


Samgönguráðherra kynnti í dag Samgönguáætlun fyrir árin 2007 til 2018. Þessi samgönguáætlun er mjög mikilvæg fyrir okkur Bolvíkinga en í henni er tryggð fjármögnun jarðganga milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Gert er ráð fyrir að farin verði svokölluð Skarfaskersleið en sú leið tryggir öryggi vegfarenda og styttir leiðina milli Bolungarvíkur og miðbæjar Ísafjarðar niður í 12 kílómetra. Við sjáum því fram á að geta keyrt milli þessara tveggja bæjarfélaga á um 10 mínútum og verið helming leiðarinnar undir "þaki" þar sem göngin sjálf ásamt vegskálum við gangnamunna verða rúmlega 5 kílómetrar. Búist er við að jarðgöngin verið fullbúin árið 2010 og munu þau kosta um 4,3 milljarða króna, þar af koma 3,7 milljarðar úr samgönguáætlun en 600 milljónir eru nú þegar tiltækar í verkið samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar Íslands haustið 2005. Það er því hægt að ráðast í útboð um leið og hönnun jarðganganna verður lokið og standa vonir til þess að framkvæmdir hefjist strax í haust.

Ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með að valin hafi verið besta leiðin sem hægt var að hugsa sér. Í mínum augum er þetta algjör draumalausn á samgöngumálum okkar Bolvíkinga. Það er líka ánægjulegt að hugsa til þess að það var fyrir tilstilli heimamanns að ráðamenn opnuðu augu sín fyrir Skarfaskersleiðinni. En fyrst og fremst sjáum við Bolvíkingar fram á bjartari tíma næstu árin, ég er þess fullviss að jarðgöngin muni færa okkar aukin tækifæri til þess að vaxa og dafna til framtíðar.


laugardagur, febrúar 10, 2007

Crazy Town


Haukur og Helga Vala kynntu villta drauma um Bolungarvík framtíðarinnar á íbúaþinginu í dag. Hugmyndin var kölluð "Crazy Town" og innihélt meðal annars frumleg not af bryggjublóminu Kristinu Logos og bolvískan sæðisbanka. Kynningin þeirra var frábær skemmtun og er greinilegt að Bolvíkinga skortir ekki hugmyndaflugið þessa dagana.



Það eru rúm 4 ár og 30 kíló síðan ég heimsótti Anfield síðast. Nú er orðið ljóst að ég er svo ljónheppinn að geta komist á leik Liverpool og Barcelona á Anfield í Meistaradeildinni 6. mars næstkopmandi. Ég hlakka mikið til og vænti hagstæðra úrslita fyrir hönd minna manna í Liverpool.


fimmtudagur, febrúar 08, 2007

X-A


Í dag er seinni kjördagur í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Að þessu sinni geta stúdentar við Háskóla Íslands fengið öflugan Víkara í Stúdentaráð með því að kjósa Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands.


miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Heift


"Nú virðist stefna í eitt sérkennilegasta framboð Íslandssögunnar. Það byggir ekki á neinum málefnaágreiningi, heldur miklu frekar óútskýrðri heift."

Þannig lýsir Sigurjón Þórðarson alþingismaður brotthvarfi Sverris Hermannssonar og Margrétar dóttur hans úr Frjálslynda flokknum og mögulegu sérframboði Margrétar í Alþingiskosningunum í vor. En það yrði þó ekki í fyrsta sinn sem sérframboð á Íslandi væri byggt á óútskýrðri heift.



Ef marka má skoðanakönnun Blaðsins er fylgi sumra stjórnmálaflokka í svokölluðu frjálsu falli þessa dagana. Helstu tíðindin er þó að Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi og er farinn að nálgast 50% múrinn. Einnig virðast Vinstri Grænir vera að festa sig í sessi sem næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins... samkvæmt skoðanakönnunum,



Sigursælasta knattspyrnulið Englands fyrr og síðar, Liverpool, var selt amerískum auðkýfingum í dag og er kaupverðið talið vera um 63 milljarðar íslenskra króna. Ég vona að þessi eigendaskipti eigi eftir að verða til einhverra breytinga hjá félaginu, til dæmis væri allt í lagi að fá nýja auglýsingu framan á búninga félagsins - það er ekki eins og Liverpool hafi verið sigursælt með danska bjórauglýsingu framan á búningunum.


föstudagur, febrúar 02, 2007

Grannaslagur


Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að þessi pistill fjallar um knattspyrnu en ekki einstaka íslenska stjórnmálamenn sem hugsanlega gætu verið nágrannar.

Á morgun eigast Liverpool og Everton við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Leikurinn fer fram á Anfield sem er heimavöllur míns ástkæra félags Liverpool og má að venju búast við fjörugum leik. Til að hita upp fyrir leikinn er tilvalið að rifja upp glæsileg tilþrif sem sést hafa í leikjum liðanna í gegnum tíðina.


Baldur Smári




  • » Tölvupóstur «

  • » að skoða «

Bloggarar


Tenglar


Líkamsrækt


Huxjónir



ATOM 0.3