» Party in the moonlight and dance to the sunrise...miðvikudagur, maí 31, 2006

Rigning


Sólin sem ég færði Bolvíkingum í síðustu viku fékk í gærkvöldi að víkja fyrir rigningunni. Og það rignir enn. Næst á dagskrá gæti verið að sækja um starf bæjarstjóra...


þriðjudagur, maí 30, 2006

Hálfvitinn


Ég var búinn að heita sjálfum mér því að fara í golf daginn eftir kosningar. Ég stóð við það loforð og tók 9 holur á Syðridalsvelli. Skorið var misjafnt en það kom mér í sjálfu sér ekkert á óvart. Það var ein ný kylfa í settinu, svokallaður hálfviti eða björgunarkylfa, og ég held að hún eigi eftir að reynast vel í sumar.

Takmark sumarsins í golfinu verður í fyrsta lagi að lækka forgjöfina, í öðru lagi að komast niður fyrir Halldór bróður í forgjöf og í þriðja lagi að spila meira golf en í fyrra og hafa meira gaman af því. Endapunkturinn á golfvertíðinni verður svo vonandi golfferð á El Rompido og Islantilla.


mánudagur, maí 29, 2006

List


Ég gerðist menningarlegur í kvöld og keypti tvö málverk í nýja húsið mitt. Einnig tók ég heim skopmyndina sem franski listmálarinn Alain Garrabé gaf mér í kosningabaráttunni. Á þeirri mynd er hann að hæðast að "ruslrigningunni" í Bolungarvík sem ég átti minn þátt í að skapa. Þessi skopmynd verður innrömmuð og fer upp á vegg þegar ég flyt inn.Ég átti 10 ára stúdentsafmæli á laugardaginn og fór þá í sérstakt útskriftarhóf hjá nýstúdentum í MÍ. Það er oft þannig að ef maður kemst einu sinni í eitthvað hlutverk þá er erfitt að komast úr því aftur. Þannig var það með mig í þessu stúdentsafmæli.

Fyrir 10 árum síðan steig ég í fyrsta skipti á ævinni upp í pontu og hélt ræðu, þetta var auðvitað ræða nýstúdenta á þeim tíma. Þegar kom að því að ákveða hver ætti að halda ræðu 10 ára stúdenta var dregið um í hlut hvers það félli... og auðvitað datt ég í "lukkupottinn". Við þetta tækifæri var einnig ákveðið að ég myndi flytja allar ræður fyrir hönd árgangsins hér eftir.

Það er skemmst frá því að segja að flutningur ræðunnar gekk mjög vel, salurinn hló á réttum stöðum í ræðunni og er greinilegt að Ísfirðingar hafa sama húmor og Bolvíkingar. Ég notaði nefnilega hluta úr framboðsræðunni minni í þessa stúdentsræðu þannig að ég vissi hvenær ég mætti eiga von á viðbrögðum úr salnum. En það sem skipti mestu máli var að skólafélagar mínir voru ánægðir með ræðuna - sem var reyndar titluð sem skemmtiatriði í dagskrá skólameistara. Ég hefði nú haft hana aðeins fyndnari ef ég hefði vitað það ;o)Það er ekki svo langt síðan að KAN kom aftur, nýjustu fréttir herma að George Michael og Andrew Ridgeley ætli að koma saman aftur undir merkjum Wham! - ég er Duran Duran maður og fagna ekkert sérstaklega þessari endurkomu.


sunnudagur, maí 28, 2006

Kosningarnar


Ég get ekki verið annað en ánægður með árangur minn í kosningunum í gær. Ég komst inn í bæjarstjórn sem 3. maður á D-lista. Ég hef fengið mikið hrós fyrir frammistöðu mína kosningabaráttunni og er greinilegt að fólk væntir mikils af mér, ég vona að ég geti staðið undir því.

En það voru fleiri en ég sem komust í bæjarstjórn í gær, Gísli Ósvaldur Valdimarsson frændi minn komst inn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir hönd Samfylkingarinnar. Það er sem sagt mikil pólitík í ættinni.


föstudagur, maí 26, 2006

Ungt fólk - 2


Nýjasta tölublaðinu af "Ungu fólki" verður dreift til bæjarbúa á morgun. Eins og venjulega var blaðið unnið af Mímis mönnum að öllu leyti. Sem sagt ekta bolvískur heimilisiðnaður :D


fimmtudagur, maí 25, 2006

Bolvísk fegurð


Ásdís Svava frænka mín varð í 2. sæti í keppninni um fegurðardrottningu Íslands. Þó ég tali um bolvíska fegurð þá er Ásdís Svava auðvitað blanda af Bolvíkingum og Ísfirðingum ;o)

Heimsins fegursta kona átti þó moment kvöldsins þegar hún féll kylliflöt í gólfið í beinni útsendingu. Óborganlegt.Hinn hefðbundni sameiginlegi framboðsfundur fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Bolungarvík var fyrr í kvöld. Ég var þar með aðra af tveimur framsöguræðum D-listans. Ég komst vel frá mínu hlutverki í ræðustólnum og vakti ræðan mín kátínu hjá flestum fundarmanna.


laugardagur, maí 20, 2006

Er hægt að kaupa þitt atkvæði?


Ég las þessa grein fyrr í vetur og ég verð að segja að ég er hjartanlega sammála því sem þar stendur. Mér finnst reyndar í lagi að stjórnmálaflokkar bjóði upp á hóflegar veitingar á fundum sínum en mér finnst ekki rétt að reyna að kaupa atkvæði.

Þegar ég tala við kjósendur þá brýni ég það fyrir þeim að það sé mikilvægt að nýta kosningaréttinn og að hver og einn eigi að kjósa eftir eigin sannfæringu. Ég segi frá því hver ég sé og hvað ég hafi gert því ég vil vera dæmdur af verkum mínum. Mér finnst best að koma til dyranna eins og ég er klæddur og ég er ekki hrifinn af því að þykjast vera eitthvað annað en ég er.

En aftur að atkvæðakaupum eða kannski atkvæðasölum. Það er nefnilega líka þannig að fólk reynir að "selja" atkvæðin sín, slíkir aðilar ganga á milli frambjóðenda og kosningaskrifstofa og láta í það skína að þeir styðji viðkomandi - segjast sem sagt ætla að kjósa öll framboðin. Mér finnst slík framkoma vera alveg jafn siðlaus og þegar frambjóðendur reyna að kaupa atkvæði kjósenda.

Að lokum, ég virði þá sem hafa aðrar skoðanir á málunum en ég. Mér finnst betra að eiga samskipti við fólk sem viðurkennir að það sé ósammála mér en við þá sem þykjast hafa sömu skoðanir og ég. Heiðarleikinn er mér mikilvægur.Ég heimsótti franska listmálarann Alain Garrabé í dag og fékk að sjá skopteikningarnar sem hann hefur verið að gera í tilefni af bæjarstjórnarkosningunum hér í bæ. Mér finnst þetta skemmtilegt framtak hjá Frakkanum og það er gott að vita af því að það eru einhverjir sem geta séð spaugilegu hliðarnar á þessu pólitíska brölti. Átta fyrstu teikningarnar hans Alain eru núna aðgengilegar á www.bolungarvik.is, en annars er líka hægt að sjá teikningarnar í Einarsbúð ;o)

Ég spjallaði líka um kosningar almennt við Alain og ég komst að því að kosningabarátta í Frakklandi er ekkert ósvipuð þeirri sem tíðkast hér. Annars er ég ákveðinn í að kaupa einhver málverk hjá Alain þegar ég verð fluttur í húsið mitt, stíllinn hans höfðar ágætlega vel til mín.


föstudagur, maí 19, 2006

Ungt fólk


Mímir, félag ungra sjálfstæðismanna í Bolungarvík var að senda frá sér fréttabréf í dag sem var borið út í öll hús í Bolungarvík. Það hefur verið skorað á mig að setja fréttabréfið á netið svo að brottfluttir Bolvíkingar geti fylgst með kosningabaráttunni. Það var auðvitað minnsta mál að verða við því.

Minni svo á að það eru allir velkomnir á fundinn á kosningaskrifstofu D-listans í kvöld. Ég lofa stuttum og skemmtilegum fundi, já og svo verður boðið upp á pizzur og öl ef einhver skyldi vera svangur.


fimmtudagur, maí 18, 2006

Orðrétt


"Þegar lítið er bloggað er mikið að gera."
- Kalli Hallgríms á Tilraunavefnum í gær

...ég gæti ekki verið meira sammála.


miðvikudagur, maí 17, 2006

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt


Þetta eru orð að sönnu ;o)
Það er spurning hver fær allan þennan bjór eftir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni...


þriðjudagur, maí 16, 2006

Kosningagrín


Þetta er bara skemmtileg síða ;o)

http://rvik.blogspot.comÉg var í þjónustustörfum á kvennakvöldi í skíðaskálanum á Ísafirði um helgina. Ég held að mér hafi tekist ágætlega til í þetta skiptið, konurnar voru í það minnsta ánægðar með þjónustuna.


mánudagur, maí 15, 2006

Helgin...


...var ljómandi góð.


föstudagur, maí 12, 2006

Göngin


Ég fór á mjög skemmtilegan fund með samgönguráðherra í gærkvöldi. Þar var eins og gefur að skilja fjallað um samgöngumál og voru þar jarðgöng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar efst á baugi. Það helsta sem kom fram í máli ráðherra var:
  • Rannsóknum vegna mögulegrar legu jarðganga mun ljúka í sumar
  • Ákvörðun um hvaða leið verður valin mun byggja á þeim rannsóknum
  • Það verður valin lausn sem tryggir öryggi alla leið
  • Fjármagn til verksins verður tryggt þannig að verkið verður unnið í einni framkvæmd
  • Það verður byrjað að bora á næsta ári

Þetta eru auðvitað frábær tíðindi fyrir okkur öll. Það kom einnig fram að í kjölfar framkvæmda í Svínadal, Arnkötludal, Mjóafirði-Ísafirði verður orðið malbik alla leið suður. Það er mikil framför. Einnig má gera ráð fyrir að á sama tíma verði framkvæmdum við Bolungarvíkurgöng lokið. Ég hlakka til.


fimmtudagur, maí 11, 2006

Annir


Ég get ekki annað sagt en að það sé annasamur tími hjá mér þessa dagana og líklega verður engin breyting þar á næstu vikurnar. Ástæðan er einföld, það styttist í bæjarstjórnarkosningarnar. Næstu vikurnar eiga eftir að vera erfiðar en jafnframt skemmtilegar.

27. maí verður stór dagur hjá mér, þá verður kosið og þá á ég 10 ára stúdentsafmæli. Við erum tvö úr útskriftarárgangi 1996 sem erum í framboði núna í vor, ég er í 3. sæti D-listans í Bolungarvík en Arna Lára er í 3. sæti Í-listans á Ísafirði. Ég fékk að halda stúdentsræðuna fyrir 10 árum síðan enda var ég dúx það árið, ég vona að einhver annar sjái um ræðihöldin í ár.

En fyrst ég var að minnast á kosningarnar þá var ég að skoða myndir frá því í kosningabaráttunni fyrir 4 árum... mér sýnist ég hafa breyst eitthvað örlítið á þessum 4 árum...

...ég man að ég gaf sjálfum mér eitt loforð eftir kosningarnar 2002, ég ætlaði mér að léttast um 0,5 kg fyrir hvern mánuð á kjörtímabilinu, þ.e. 24 kg alls. Kílóin urðu rúmlega 30 þannig að stóð við þetta loforð og gott betur. Ég get líklega ekki gefið sjálfum slíkt loforð aftur, það væri líklega raunhæfara að tala um 0.25 kg á mánuði næstu 4 árin.


sunnudagur, maí 07, 2006

Afi


Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir öfum mínum og ósjaldan hef ég fengið góðar ráðleggingar frá þeim. Bensi afi hafði mikil áhrif á mig meðan hann lifði en Danni afi er enn að ráðleggja mér um hina ýmsu hluti.

Danni afi er elsti íbúi Bolungarvíkur, 89 ára gamall, og er í fullu fjöri eins og sjá má á þessum tveimur myndum sem ég tók við opnun kosningaskrifstofunnar okkar í gær.

Afi hjólar mikið og fer í göngutúr með ömmu daglega. Svo förum við þessi yngri varla á milli húsa nema í bíl.

Það er spurning hvort ég hafi allan þennan dansáhuga frá afa?


laugardagur, maí 06, 2006

GBO kynningin


Ég læt hér fljóta með "Kraft-bendils" (Power Point) kynninguna sem ég gerði fyrir Golfklúbb Bolungarvíkur vegna sýningarinnar "Perlan Vestfirðir 2006". Mér tókst auðvitað að troða bæði sjálfum mér og bílnum mínum inn í kynninguna ;o)Ég er búinn að vera mjög óvirkur í myndatökum síðastliðið ár, en eftir að ég sá hvað það voru margar myndir frá mér sem prýddu bás Bolungarvíkur í Perlunni um helgina þá fannst mér tímabært að taka myndavélina fram að nýju. Í góða veðrinu í dag tók ég um 200 myndir, einhverjar þeirra eiga eftir að rata inn á netið og verða jafnvel einhvern daginn að kynningarefni fyrir Víkina okkar.


föstudagur, maí 05, 2006

Kossar


Tekið af mbl.is

Kossar létta ofnæmisviðbrögð

Ný japönsk könnun sýnir að langir kossar (30 mínútur) geta verið gagnlegir þeim sem þjást af heymæði og frjóofnæmi. Rannsóknin sýnir að kossarnir róa ofnæmissjúklinga og minnkar histamínframleiðslu í líkama þeirra, en það er hún sem kemur ofnæminu af stað...

Nú getur maður sem sagt bara skipt ofnæmispillunum út fyrir kossa ;o)Víkari.is er loksins kominn í loftið aftur eftir 2 mánaða hvíld.


fimmtudagur, maí 04, 2006

Afmæli


Mikið af góðu fólki á afmæli þessa dagana, ég fór í eitt afmæli í dag en það var til Baldurs Þórs Guðbjartssonar, "guðsonar" míns, en hann náði tveggja ára aldri í dag. Þá er Kolla spinningkennarinn minn 25 ára í dag og ég óska henni að sjálfsögðu til hamingju með daginn.Heyrst hefur að Bolvíkingar og Ísfirðingar ætli að tefla fram sameiginlegu liði í 3. deildinni í fótboltanum í sumar, ég vona að þessi saga eigi við rök að styðjast og ég vona að þessi samvinna verði þá til lengri tíma.Ég vona að það sé í lagi að ég segi eina sögu af föður mínum. Ég held því fram að það sé varla til heiðarlegri maður en hann. Svo var mál með vexti að í dag fór pabbi niður í búð og verslaði í matinn, þegar hann kom heim sá hann salatpoka í ísskápnum sem hann kannaðist ekkert við að hafa keypt. Hann fór því aftur niður í búð og skilaði salatinu því hann hafði ekkert borgað fyrir það. En þá er sagan ekki öll því þegar ég kom heim í kvöldmat og ætlaði að fara að gæða mér á salatinu sem ég sjálfur keypt fyrr um daginn var það hvergi sjáanlegt... pabbi hafði auðvitað í sakleysi sínu skilað því á meðan ég var í íþróttahúsinu. En vegna heiðarleikans í pabba sit ég víst eftir einhverjum krónum fátækari og salatátið verður víst að bíða betri tíma.

Ég tók þessu öllu með miklu jafnaðargeði og minntist þess um leið að það sem ég met hvað mest í fari fólks er heiðarleiki.Ég var að útbúa "slideshow" fyrir Golfklúbb Bolungarvíkur vegna sýningar sem heitir "Perlan Vestfirðir 2006" og verður í Perlunni í Reykjavík á helginni. Ég er nokkuð sáttur við afraksturinn og ég vona að þessi kynning mín á GBO og Syðridalsvelli eigi eftir að laða einhverja kylfinga hingað vestur. Ætli ég skelli ekki þesari kynningu inn á netið um helgina svo fleiri fái að njóta hennar.


miðvikudagur, maí 03, 2006

Strengir


Ég er alveg að farast úr harðsperrum eftir lyftingatímann hjá Árna í gær og eins og gefur að skilja var spinning tíminn í dag frekar erfiður. En ég hafði það nú af.

Af mér er það annars að frétta að það er brjálað að gera á öllum vígstöðvum. Það sem tekur tímann minn þessa dagana er aðallega vinnan, pólitíkin, golfklúbburinn og líkamsræktin. Það er varla að maður hafi tíma til að éta og sofa.Þetta verður líklega einn heitasti sumarsmellurinn í ár...

Beatfreakz - Somebody's Watching Me


þriðjudagur, maí 02, 2006

Megrunarlausi dagurinn


Laugardagurinn 6. maí næstkomandi er "Megrunarlausi dagurinn" - ég verð að sniðganga þennan dag að þessu sinni þar sem ég er að byrja í nýju átaki í dag. Nú á að ná af sér Spánarspikinu fyrir sumarið, mér skilst að það verði veitt verðlaun fyrir besta árangurinn þannig að ég ætla að leggja mig allan fram ræktinni næstu 6 vikurnar.Það virðist sem búið sé að finna hinn bolvíska William Hung, í það minnsta er til upptaka frá Spáni af söng eins drengs sem slær jafnvel Flumbra út í sönghæfileikum (það minnir mann á ákveðið leikrit í gamla daga).


mánudagur, maí 01, 2006

Kaztro


Á árunum 1999-2003 var ég annað slagið að leika mér að því að semja tónlist. Ég náði að klára 7 lög eða réttara sagt demo á þessu tímabili. Hérna er afraksturinn:

Kaztro - Start >> Þetta var fyrsta lagið og er rúmlega sex ára gamalt en það leit dagsins ljós haustið 1999.

Kaztro - 2K >> Þetta lag varð nú bara til fyrir aldamótapartýið fræga á áramótunum 1999/2000... smá áhrif frá Mauro Picotto á þessum tíma.

Kaztro - Dogs >> Smá bútur úr Lick It með 20 Fingers lenti inn í þessu lagi... þetta lag heyrðist fyrst haustið 2000.

Kaztro - Snowstorm >> Þetta er bara trance.... þetta lag varð örugglega til á einhverju vetrarkvöldinu árið 2001, ég held að tæknilega séð sé þetta lag vel samið.

Kaztro - Melt >> Ég man ekki hvaða flipp þetta var... þetta var allavega árið 2001 og trommutakturinn í laginu er frekar sérstakur.

Kaztro - Sadness >> Ég fékk piano laglínuna á heilann í fyrir rúmlega tveimur árum síðan og auðvitað endaði það með því ég bjó til lag í kringum hana.

Kaztro - Seven >> Grunnurinn að þessu lagi var búinn til á klukkutíma rétt fyrir áramótin 2003/2004... auðvitað um miðja nótt... svo fóru 2-3 tímar í að klára verkið daginn eftir. Ég man að ég spilaði þetta lag í partýi á gamlárskvöld og það kom mér á óvart að það var bara til fólk sem fílaði það ;o)Ég er þannig gerður að ég tengi yfirleitt tónlist við allt sem ég geri og það sem gerist í kringum mig enda hefur tónlist alltaf verið stór þáttur í mínu lífi. Ég er nýkominn frá Spáni og það eru að sjálfsögðu tónlistin sem lifir úr þeirri ferð... hérna eru minningarnar mínar...

Paradisio - Vamos a la Discoteca >> Eitt gamalt og gott frá Paradisio, ég held að titillinn þýði "Við förum á diskótekið" - en það er auðvitað grundvallaratriði í Spánarferðum.

Ricky Martin feat. Amerie & Fat Joe - Que Mas Da (I Don't Care) >> Þetta var sko aðallagið í Lepe... I don’t care, I just wanna be yours... og auðvitað er þetta spænska útgáfan sem ég býð upp á ;o)

Juanes - La Camisa Negra >> Þetta var líka mikið spilað á diskótekinu í Lepe, mér skilst að það sé sungið um svarta skyrtu í þessu lagi

Daddy Yankee ft Pitbull & N.O.R.E. - Gasolina >> Týpiskt Habinas lag...

Rhianna - S.O.S. >> Hún kemur frá Barbados og er hrifin af Beyonce... bara nokkuð gott lag sem var mikið spilað á MTV þegar ég var úti

The Pussycat Dolls Feat. Will I Am - Beep >> Annað MTV lag, algjör snilld að mínu mati

Madonna - Sorry >> Algjört heilalím, Madonna er snillingur.

Paradisio - Bailando >> Dans, Dans og aftur Dans, þetta er eitt af þessum klassísku djammlögum, þetta lag kemur mér alltaf í sumarskap.

Það er ekki spurning að nándin er mikil hjá Orra og Rögga þessa dagana. Það er ef til vill nándinni að þakka að þeir eru að standa sig með prýði í golfinu, Röggi brilleraði á Spáni og Orri vann Opna Carlsberg mótið í Leirunni í dag.


Baldur Smári
  • » Tölvupóstur «

  • » að skoða «

Bloggarar


Tenglar


Líkamsrækt


HuxjónirATOM 0.3