» Party in the moonlight and dance to the sunrise...laugardagur, september 30, 2006

23 dagar


Hún er frekar auðveld á pappírunum en einhvern veginn er aðvelt að klúðra 5. holunni á Islantilla.

5. hola - par 4 - 364 m

Þá er loksins komið tækifæri til að nota driverinn í upphafshögg, í góðum draumi endar upphafshöggið akkúrat í beygjunni þannig að trén tvö á miðri brautinni verða ekki í leik. Þá eru um 150 metrar eftir að flötinni og þá þýðir ekkert annað en að taka fram 7 tréð góða, smell hitta boltann og setja inn á grín. Púttin verða tvö og parið staðreynd... eða kannski bara góður draumur.Ég hef haft nóg fyrir stafni í dag, fyrir utan vinnuna er ég búinn að fara út að hlaupa, taka góðan fitness hring og endurbyggja 1. flötina á Syðridalsvelli. Við tekur eldamennskan, ennþá meiri vinna og svo verður maður eiginlega að mæta á "Grjóthrunið" í Kjallaranum í kvöld.


föstudagur, september 29, 2006

24 dagar


Hún er vægast sagt erfið 4. holan á Islantilla. Ég hef aðeins einu sinni náð að para hana, þá setti ég niður 80 metra langt innáhögg - en það var í rauninni hálfgerður fugl því ég fékk víti eftir annað höggið.

4. hola - par 4 - 383 m

Þegar þessi hola er spiluð í draumi tek ég nett 3 tré (gæti líka tekið 7 tréið góða) á teig og slæ alveg fram að lautinni sem er í miðri brautinni. Röggi tekur reyndar alltaf driver hérna í þeirri von að ná yfir lautina og fram í beygjuna. Í annað höggið tek ég 7 tréið og sker doglegginn þannig að ég slæ fullkominn háan bolta sem steindrepst á miðri flötinni. Svo 2 pútt til að ljúka við parið. Það er gott að láta sig dreyma.


fimmtudagur, september 28, 2006

Næntís


Hvert er uppáhalds 90's lagið ykkar?

Það ætti engum að koma á óvart að uppáhalds 90's lagið mitt er No Limit með hollenska dúettnum 2 unlimitedÞriðja holan á Islantilla var mér erfið til að byrja með en í raun er hún ein auðveldasta hola vallarins.

3. hola - par 4 - 272 m

Hér tæki ég 3 tré í upphafshöggið. Þar sem brautin hallar frá vinstri til hægri er best að láta boltann lenda vinstra megin í brautinni til að koma í veg fyrir að boltinn renni að öllum hættunum (tré og sandgryfjur) sem eru hægra megin í brautinni. Upphafshöggið mitt myndi sem sagt enda þar sem 80-90 metrar (jafnvel minna) eru eftir að flötinni. Innáhöggið væri tekið með "pitching wedge" og myndi boltinn lenda vinstra megin við flötina og rúlla inn á mitt grín. Að venju er fyrra púttið trygging og það seinna öruggt fyrir parinu.Ég er sammála mörgu sem kemur fram um skattkerfið í þessari grein. Lykilatriðið er að einfalda skattkerfið, það lágmarkar undanskot og minnkar skriffinsku og óþarfa kostnað hjá skattgreiðendum.


miðvikudagur, september 27, 2006

26 dagar


Þá er það hin víðfræga 2. hola á Islantilla.

2. hola - par 3 - 170 m

Eins og allar góðar par 3 holur blasir gífurleg áskorun við kylfingum þegar þeir stíga á upp á teiginn. Á 2. holunni á Islantilla blasir stór tjörn við kylfingum og handan hennar er 2. flötin. Til að ná inn á flötina þarf a.m.k. 150 metra flug á boltann. Ég tæki því 7 tréð í upphafshöggið, að sjálfsögðu staðnæmist boltinn inn á flötinni og þá gef ég mér 2 góð pútt til að klára hana á parinu.Ég bauð bæjarstjóranum í golf í veðurblíðunni í gær. Það er skemmst frá því að segja að ég spilaði ljómandi vel og var á 41 höggi og fullkomnaði hringinn með frábærum fugli á 9. holu.


þriðjudagur, september 26, 2006

27 dagar


Það eru 27 dagar í næstu ferð á "Tillann" svokallaða. Það er því eðlilega kominn tími á að telja niður til brottfarar. Ég ætla að stytta mér biðina með því að fara yfir hvernig mig dreymir að leika holurnar 27 á Islantilla golfvellinum.

1. hola - par 4 - 316 m

Upphafshöggið væri annað hvort létt 3 tré eða fullt högg með 7 trénu. Boltinn ætti að lenda á miðri braut í beygjunni. Þar ætti ég líklega um 100 metra upp í móti ófarna að flötinni. Næsta högg yrði tekið með 7 járni og auðvitað myndi boltinn staðnæmast á flötinni eftir það. Tvö pútt duga þá fyrir parinu, fyrra púttið verður trygging svo það seinna verður öruggt. Easy par í draumaheiminum.


laugardagur, september 23, 2006

Paul Oscar


Stefnan er tekin á vaXon.is í kvöld þar sem DJ Páll Óskar þeytir skífum fyrir okkur dansþyrstu Víkarana. Ég hef aldrei upplifað annað en dúndur stemmningu þar sem Páll Óskar er að dj-ast þannig að kvöldið verður örugglega magnað.


föstudagur, september 22, 2006

Bæjarstjórar


Mér finnst bæjarstjórar vera lágt launaðir. Starf bæjarstjóra er vanþakklát vinna sem er unnin allan sólarhringinn, allan ársins hring. Ef við viljum hafa bæjarstjóra sem eru framúrskarandi þá verðum við að borga þeim í samræmi við það. Þess vegna skil ég ekki Í-listann á Ísafirði - og spurningu vikunnar á bb.is um hvort ég sé ósáttur við laun bæjarstjórans á Ísafirði svaraði ég auðvitað játandi - launin ættu nefnilega að vera hærri en þau eru.Ég held ég sé bara farinn að fíla Nylon, í það minnsta er þetta remix af gamla Eurythmics slagaranum Sweet Dreams alveg hreint ágætt.

Nylon - Sweet Dreams (Uniting Nations Extended Mix)Ég velti því oft fyrir mér af hverju fólk ljúgi til um hluti. Stundum er lygin saklaus en stundum gengur lygin svo langt að viðkomandi veit ekki lengur hvort hann er að ljúga eða segja satt. Þannig fer fólk ósjálfrátt að ljúga að sjálfu sér og lifir í eigin upplogna draumaheimi. Ég þekki svona dæmi og ég kenni virkilega í brjósti um viðkomandi. Ég var alinn upp við að sannleikurinn væri sagna bestur, sama hve sár hann væri og að hann kæmi sér illa fyrir mig. Lygin kemur líka alltaf í bakið á fólki - það er ekki spurning hvort, heldur hvenær.Þá eru færslurnar á þessu bloggi orðnar 2.500 á tæplega 4 árum. Leggið töluna á minnið, upplýsingar sem þessar geta verið jafn verðmætar og kassi af Carlsberg.


fimmtudagur, september 21, 2006

Fótapressan


Undanfarnar vikur hef ég æft af krafti í þreksalnum í íþróttahúsinu hér í bæ, kappið var líklega heldur mikið hjá mér í kvöld því ég afrekaði að valda þó nokkrum skemmdum á fótapressunni góðu. Ég er viss um að Gunnar Halls verður ekki par hrifinn þegar hann fréttir þetta.

Annars get ég upplýst að heilsuátakið gengur ágætlega hjá mér, markmiðin fyrir veturinn er metnaðarfull en ég SKAL ná þeim.Mér fannst þessi frétt um áfengis- og tóbaksnotkun knattspyrnumanna frekar sláandi. Þar kemur meðal annars fram að fjórði hver knattspyrnumaður notar munntóbak. Fyrir utan að mér finnst munntóbaksnotkun vera viðbjóðslega hallærisleg þá er hún hreinlega hættuleg því munntóbak getur valdið miklum skaða á heilsu manna. Þar að auki eru íþróttamenn fyrirmyndir barna og verða því eðlilega að vera til fyrirmyndar á sviðum sem þessum.

Í fréttinni segir til að mynda: "Í munntóbaki eru að minnsta kosti 28 þekktir krabbameinsvaldar og sumir í mun meira magni í munntóbaki en reyktóbaki. Sá sem notar 10 grömm af munntóbaki á dag fær til dæmis allt að þrefalt meira af ákveðnum krabbameinsvaldandi efnum en sá sem reykir 1 pakka af sígarettum á dag." Skaðskemi tóbaks er óumdeild og jafn víðtæk tóbaksnotkun sem þessi er ekki íþróttamönnum sæmandi.


miðvikudagur, september 20, 2006

Barcelona


Ég er búinn að vera algjör eyðsluseggur síðustu daga og keypti meðal annars stólinn sem mágkonu mína langaði svo mikið í. Hann er flottur en kostaði sitt.

Annars styttist í Spánarferðina, eftir akkúrat 5 vikur er mjög líklegt að ég verði búinn að spila fyrstu 18 holurnar og sitji jafnvel úti í sólinni með glas af gini í annarri hendi.


föstudagur, september 15, 2006

Endurtekningar


Eitt af því sem betur má fara á www.bolungarvik.is er svokallaðar endurtekningar. Þannig er mál með vexti að á forsíðu vefsins eru nokkrir fréttaflokkar sem eiga að vera til þess að aðgreina fréttir eftir efni. Oft á tíðum hafa fréttir ratað í fleiri en einn flokk á forsíðunni og til dæmis má í dag sjá sömu fréttina 4 sinnum (Fréttir - Menning - Athyglisvert - Bolungarvík á bb.is) á forsíðunni. Þetta finnst mér ekki flott og er það í raun skrítið að stórum hluta jafn verðmæts svæðis og forsíðan er, sé varið í endurtekningar á sömu fréttinni.

Þar sem búið er að skipa mig í nefnd sem á meðal annars að endurskoða www.bolungarvik.is er ljóst að þetta verður eitt af þeim atriðum sem ég mun leggja áherslu á að breyta.Svart-Hvíta einvígið er í dag. Bæði Svarta gengið og Hvíta gengið hafa æft af krafti undanfarnar vikur fyrir mikilvægasta golfmót ársins. Síðast réðust úrslitin á síðustu holunni og er ljóst að barist verður til síðasta blóðdropa í dag. Úrslitin verða birt ef þau verða hagstæð.


fimmtudagur, september 14, 2006

Réttarball


Eftir því sem ég best veit mun verða réttarball í Bolungarvík á laugardagskvöldið þar sem hljómsveitin Starfish mun leika fyrir dansi á skemmtistaðnum vaXon.is. Ætli við fjölmennum ekki eins og venjulega...Það má með sanni segja að ég hafi verið ofdekraður í gærkvöldi. Afleiðingarnar urðu þær að ég lék á alls oddi í vinnunni í dag. Held ég geti alveg vanist svona dekri.


miðvikudagur, september 13, 2006

Stelpuslagur


Ég hef nú ekki fylgst mikið með aðalfundum Heimdalls síðustu árin en þar hafa yfirleitt verið góðir formannsslagir. Núna hafa tvær ungar konur, Erla Ósk Ásgeirsdóttir og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, tilkynnt um framboð til formanns Heimdalls. Það lítur því út fyrir stelpuslag hjá ungum sjálfstæðismönnum í Reykjavík. Það er eitthvað sem vert er að fylgjast með.Þetta mark sem boltastrákur skoraði í brasilísku 3. deildinni slær nú út tilþrif Jose Reina í grannaslagnum í Liverpool á síðustu helgi.Það er alveg merkilegt hvaða áhrif það hefur á íbúa Ísafjarðarbæjar að þar sé farið að lögum stöku sinnum - sem sagt reiðarslag fyrir íbúa sveitarfélagsins.


þriðjudagur, september 12, 2006

Málfar


Kalli skammaði mig um daginn fyrir að tala um opnunartíma þegar ég var að meina afgreiðslutíma. Mér er annt um íslenskuna og ég vil að málfar í mínum skrifum sé sem best og þess vegna finnst mér gott að fá leiðsögn frá góðum kennurum.

Mér finnst þessi fyrirsögn á bb.is í dag vera skrítin: "Höfnin á Flateyri sígur". Þarna kemur upp í hugann skilgreiningin á því hvað sé "höfn" og hvað það sé sem raunverulega sígur á Flateyri. Þegar betur er að gáð virðist sem að sjálfur hafnarkanturinn eða bryggjan hafi sigið. Einnig stendur í myndatexta með fréttinni að "ysti hluti hafnarinnar hafi sigið umstalsvert" og að "sjór hafi gengið yfir höfnina". Í mínum huga er höfnin það svæði sem afmarkast landi, bryggjum, sjóvarnargörðum og öðrum hafnarmannvirkjum en ekki einn stakur hafnarkantur. Ég hefði líka haldið að sjórinn gæti ekki gengið fyrir höfnina þar sem sjórinn er hluti hafnarinnar.

Hvað finnst Kalla og fleiri kennurum sem lesa þetta blogg um þetta? Hvað er málfarslega rétt að segja í þessu dæmi?


sunnudagur, september 10, 2006

Jarðgangaumræðan


Ég gæti trúað því að umræðan um jarðgöng milli Bolungarvíkur og umheimsins fari að glæðast á næstunni. Samgönguráðherra segir að niðurstaðna rannsóknarboranna sé að vænta innan skamms og að á grundvelli þeirra verði ákvörðun tekin í málinu. Bæjarstjórinn sendir skýr skilaboð á heimasíðu sinni í dag og heyrst hefur að Vegagerðin sé búin velja þá leið sem mælt verður með við samgönguráðherra. Það verður fróðlegt að vita hvaða leið Vegagerðin vill fara og hvort að sú leið geti sætt ólík sjónarmið í málinu.


laugardagur, september 09, 2006

Ósigrandi


Það er skemmst frá því að segja að ég og Gunni rústuðum fyrstu Kjallarakeppni vetrarins fyrr í kvöld. Við hlutum 25 stig af 30 mögulegum en það lið sem komst næst okkur var með 13 stig. Þar með heldur sigurganga mín í þessari keppni áfram en hingað til hef ég verið ósigrandi á heimavelli. Með sigrinum í kvöld uppskar ég reyndar leikbann og fæ ekki að taka aftur þátt fyrr en á nýju ári. Sigurlaunin voru eins og venjulega einn kassi af bjór, kippurnar tvær sem komu í minn hlut verða gefnar til góðgerðarmála (þ.e. til fátækra námsmanna) enda hef ég ekkert við slíkar veigar að gera.


föstudagur, september 08, 2006

Heilsufrík


Eftir ansi óheilsusamlegt sumar er kominn tími á að taka sig á til að geta verið í góðu formi á Islantilla í haust. Matarræðið var tekið í gegn og Árni og Helga Salóme ætla að þræla mér og fleiru góðu fólki út næstu 6 vikurnar. Ég er sem sagt algjör heilsufrík þessa dagana og ætla ekkert að gefa eftir fyrr en tilætluðum árangri er náð.Fyrir utan að mér finnst afnotagjöld Ríkisútvarpsins vera tímaskekkja þá finnst mér fáránlegt að þessi RÚV-skattur sé hækkaður um 8% núna á þessum síðustu og verstu tímum. Það væri miklu nær fyrir hið opinbera að draga saman og spara í rekstri Ríkisútvarpsins heldur en að skammta stofnuninni rekstrarfé úr vösum skattgreiðenda.


miðvikudagur, september 06, 2006

Stærðfræðin


Það er ýmislegt sem kennarar hirða upp úr prófum nemenda sinna og láta á netið... öðrum til skemmtunar. Þessi stærðfræðidæmi eru til að mynda ágætis skemmtun.


þriðjudagur, september 05, 2006

Magnavakan


Það fer að líða að því að Magnavakan byrji á SkjáEinum. Sumir tala um að það sé landsleikur hjá okkur Íslendingum í kvöld... og að við getum öll fengið að spila með... auðvitað með því að kjósa Magna áfram í úrslitaþáttinn í Rockstar:Supernova. Ég ætla að spila með í nótt og kjósa Magna nokkrum sinnum.

Þó mér finnist meðlimir Supernova vera hallærislegir útbrunnir rokkarar þá vil ég sjá Magna í úrslitunum, Magni hefur sýnt það og sannað að hann er frábær söngvari (Creep var auðvitað óhugnanlega flott hjá honum) og á sannarlega skilið að komast í úrslitaþáttinn. Hitt er annað mál að ég óska honum þess ekkert að syngja með þessum glötuðu gæjum í Supernova.


mánudagur, september 04, 2006

Dansa meira


Helgin í veðurblíðunni í borginn var með besta móti. Brúðkaupið var frábært og djammið eftir það algjör snilld. Ég datt inn á "Dansa meira" kvöld á Barnum á laugardaginn en þar var Ewan Pearson að spila ásamt Plötusnúðum ríkisins og fleirum. Ég skemmti mér alveg konunglega enda var tónlistin fyrsta flokks... Eins og oft áður endaði ég frábært kvöld á Pravda þar sem leifunum af skónum var slitið á dansgólfinu.


föstudagur, september 01, 2006

Ó borg mín borg


Ég verð í heimsókn í höfuðborginni um helgina.Það virðist sem Bolvíkingar séu búnir að afskrifa hina svokölluðu "Syðridalsleið" ef marka má frétt á visir.is í dag þar sem fram kemur að mótmælendur á Óshlíð vilji göng úr Bolungarvík í Hnífsdal. Mér þykja þetta nokkur tíðindi þar sem fyrir kosningarnar í vor barðist Bæjarmálafélag Bolungarvíkur hatrammlega fyrir göngum úr Syðridal yfir í Tungudal við Skutulsfjörð. Ég fagna því ef fólk er nú farið að opna augu sín fyrir öðrum möguleikum í legu jarðganga til og frá Bolungarvík.Samkvæmt bresk-kínverskri rannsókn geta kynsveltir karlar verið hættulegir. Í samfélögum þar sem karlar eru fleiri en konur getur myndast lágstétt kynsveltra karla og geta þessir menn orðið árásargjarnir þannig að ofbeldi eykst í samfélaginu. Þessi „umframfjöldi“ karla gerir að verkum að konur geta verið vandlátari í vali á förunautum, og þá myndast stétt ómenntaðra karla af lágum stigum sem ekki eiga von um kynferðislegt samband við konur, og því síður að stofna fjölskyldu. Í rannsókninni segir að karlar sem lendi í þessari stöðu geti leiðst út í hryðjuverk og skipulagða glæpastarfsemi. Því sé afar mikilvægt að stemma stigu við breytingunni á kynjahlutföllunum í þeim samfélögum sem um er að ræða.

Á vef Hagstofu Íslands kemur fram að karlar séu fleiri en konur í Bolungarvík. Það er því spurning hvort hér fari að grassera skipulögð glæpastarfsemi eða að stofnun hryðjuverkasamtaka sé í farvatninu.


Baldur Smári
  • » Tölvupóstur «

  • » að skoða «

Bloggarar


Tenglar


Líkamsrækt


HuxjónirATOM 0.3