» Party in the moonlight and dance to the sunrise...föstudagur, október 27, 2006

Ópal


Koníakið er á undanhaldi sem birdie drykkur á Spáni í dag, nú hefur Ópal-pelinn tekið við hlutverki koníaksins - enda er eftirfarandi sagt um Ópal: "Bætir, hressir og kætir"Hinir vestfirzku sleikipinnar njóta sífellt meiri athygli og vinsælda hjá netverjum, nú hafa til að mynda Grímur bæjarstjóri Atlason og Pétur framsóknarspunameistari Gunnarsson tekið upp á því að linka á sleikipinnana geðþekku. Skál fyrir því.Við spiluðum Texas Scramble í dag, ég átti góða spretti og setti niður nokkur löng pútt... þó ekki fyrir fugli. Aldrei þessu vant fór ég á æfingasvæðið eftir 18 holur í dag og var þeim tíma vel varið.

Á morgun förum við á El Rompido og spilum þar nýja völlinn sem er víst erfiðari en gamli völlurinn sem við spiluðum í vor.Víkari.is er 3 ára í dag, ég ætla að halda ærlega upp á afmælið í kvöld.


fimmtudagur, október 26, 2006

Saddur


Það er sagt að þeir sem séu svangir kjósi til vinstri en þeir sem séu saddir kjósi til hægri. Ég er pakksaddur. Bara svo það sé á hreinu.Það var haldin óformleg Eurovision keppni á barnum á hótelinu í kvöld. Þar áttust við Írar, Skotar, Hollendingar og auðvitað Íslendingar. Við unnum mikinn baráttusigur enda ekki margar þjóðír sem hafa Runólf Pétursson í sínu liði. Írarnir eru hressir og léttgeggjaðir, það verður gaman að djamma með þeim næstu dagana.Við fórum til Lepe í kvöld og fengum okkur staðgóða máltíð á kínverska veitingahúsinu Mandarin. Þaðan sem ég hef aldrei farið svangur. Það sama var upp á teningnum í kvöld, Tie-Ban kjúklingur, apppelsínuönd, rækjur í hvítlaukssósu, kjúklingur í hnetusósu og Peking-önd voru meðal þess sem fór á minn disk. Allur pakkinn ásamt frábæru rauðvínu og þjórfé var 2 þúsund kall á mann sem er algjör brandari.Veðrið var fínt í dag, skorið ekki. Þó fékk ég nokkur pör en fuglarnir vilja ekki detta, einhverra hluta vegna. Hef samt afrekað að hafa parað 2. holu þrisvar í þremur tilraunum. Annars hafa trén verið að flækjast fyrir mér, ég er alveg sammála Stebba Hilmars um að það þurfi að saga þessi helv tré niður.... hann er annars á El Rompido þessa stundina að slá í þau fáu tré sem þar eru.Það lítur úr fyrir að veðrið verði upp á sitt besta hér á Islantilla í dag, í gær gengum við öll yfir 18 holur en það er spurning hvort að hægt verði að vera á bílum á vellinum í dag.


miðvikudagur, október 25, 2006

Einn fugl


Aðeins einn fugl kom í hús í dag hjá okkur Bolvíkingunum á Islantilla, það var Smári sem setti niður innáhögg á 10. holu. Ég var heitur þrisvar í dag, á 6. holu, 13. holu og 19. holu en heppnin var ekki með mér, varð að sætta mig parið.

Það var svo mikið sungið á barnum á hótelinu í kvöld, held að starfsfólkið hafi verið komið með leið á öllum íslensku ættjarðarlögunum, "Í Bolungarvíkinni" var samt ekki tekið að þessu sinni, það verður bara næst.

Í undirbúningi er óvissuferð - one way ticket - til Lepe á laugardagskvöldið, vona að eitthvað líf sé í fólkinu og að einhverjir vilji skella sér á disco með mér.... og spænsku stelpunum.Veðurguðirnir tóku á móti okkur með rigningu við komuna til Spánar. Tveir hörðustu jaxlarnir í hópnum náðu þó að taka 9 holur í gær, hinir tóku nokkra gin á barnum í staðinn. Það voru sem sagt Nonni og Smári sem fóru holu 1 til 9, Nonni lék á 50 höggum og Smári á 51 höggi. Þá afrekaði Nonni að para 4. holu en það er nokkuð sem gerist ekki á hverjum degi.

Í dag var leik frestað til hádegis vegna bleytu á golfvellinum, næsta athugun er klukkan 12 að staðartíma og kemur þá í ljós hvort okkur verður hleypt út á golfvöllinn.


þriðjudagur, október 24, 2006

872


Oft var þörf en nú er nauðsyn, ég held að það veiti ekki af að ég fari að standa við kosningaloforðin.

Ég var að skoða tölur á vef Hagstofu Íslands yfir mannfjölda í Bolungarvík 1. október 2006 og þar kemur fram að íbúar í Bolungarvík sé orðnir 872 og samkvæmt því hefur Bolvíkingum fækkað um 46 frá 1. desember 2005. Þarna var að vísu um áætlun að ræða en mér finnst þetta grafalvarlegt mál og ég hreinlega trúi ekki þessum tölum.Fyrir þá sem ekki kunna mannganginn þá eru þetta grundvallaratriðin í skák.Þessi pæling hjá Sigmari er nokkuð góð. Það keppa reyndar flestir að svipuðum markmiðum, einhverhverjum góðum gildu, það sem aðgreinir fólk er hvaða leiðir það vill fara til að ná þessum markmiðum. Hins vegar veit ég ekki hvort ég passa inn í þetta módel hjá Sigmari, allavega var framboðsræðan mín ekki gerð eftir kúnstarinnar reglum.


mánudagur, október 23, 2006

Fleiri myndbönd


Innáhögg á 17. braut - Hólmar og Pétur Geir slá inn á flöt á einni fallegustu holu vallarins á Islantilla (12,1 MB)

Fugl á 2. holu - Bolvíska stálið púttar fyrir fugli á 2. flöt (11,4 MB)

100 metra pútt - Pétur Geir notar pútterinn víðar en á flötunum, hérna púttar hann af 100 metra færi á 15. holu (16,2 MB)

Fugl á 23. holu - Hér reynir Stjáni Sax að fá fugl - réttara sagt önd - á 23. holu (6,39 MB)Víkarar eru að gera það gott víða, Víkari varð efstur í formúluleiknum á mbl.is, Sæbjörn Guðfinnsson sigraði á atkvöldi Hellis og Hjörleifur Larsen sigraði á Haustmóti GS á Hólmsvelli í Leiru um helgini.Kaztro snýr aftur laugardagskvöldið 4. nóvember næstkomandi...Í síðustu Spánarferð tók ég nokkur video á golfvöllunum á Islantilla og El Rompido. Hérna eru nokkur þeirra myndbanda sem gátu talist birtingarhæf.

Þokan - Það getur verið erfitt að spila golf í þoku, svona var skyggnið af svölum hótelsins einn morguninn. (5,67 MB)

Röggi púttar fyrir fugli - Það er ekki á hverjum degi sem eru í birdie-séns á 4. holu en Rögga tókst það þó einu sinni. (19,9 MB)

Slegið af 26. teig (hvíta) - Það má ekki mikið klikka í upphafshöggum á hvítum teigum eins og hér má sjá, það fer samt ekkert úrskeiðis hjá þessum snillingi. (5,46 MB)

Siggi Palli púttar fyrir erni - Mig minnir að það hafi verið á 21. flöt sem fararstjórinn átti möguleika á erni. (5 MB)

Guðbjartur púttar fyrir erni - Það eru fleiri en meistararnir sem púta fyrir erni, hérna er Guðbjartur á 18. flöt á El Rompido. Því miður datt það ekki hjá Guðbjarti í þetta skiptið en hann hafði átt ótrúlegt innáhögg á þessari par 5 holu. (11,9 MB)


sunnudagur, október 22, 2006

1 dagur


Samkvæmt niðurtalningunni er rúmlega sólarhringur til brottfarar og þess vegna er kominn tími á 27. og síðustu holunni á Islantilla.

27. hola - par 4 - 404 m

Hérna þarf maður gott upphafshögg til að eiga möguleika á að skora. Ég nota því driverinn í teighöggið, í þetta sinn er höggið þráðbeint og mjög langt - sem sagt, smellhitti boltann. Boltinn verður á braut og staðnæmist við 160 metrana. Þar tek ég upp 7 tréð og set boltann inn á grín. Tryggi parið og dríf mig á barinn þar sem ginið bíður mín.Ég fór í útskriftarveislu til Guffa í gær, þar var vel við hæfi að á borðum var meðal annars reykt hrefnukjöt og ég verð að segja að það var ótrúlega ljúffengt. Þar söng ég líka "Í Bolungarvíkinni" og er það önnur helgin í röð sem slíkt gerist. Í þessu partýi var ekki notast við gítar við undirleikinn heldur var það pianóið sem réði ríkjum, það var eins og að færa tónlistarflutninginn á annað og hærra stig. Flottasta atriði kvöldsins var flutningur Jónatans á "Hallelujah" sem Jeff Buckley gerði vinsælt. Fjörið hélt áfram í afmælispartýi á Laugarveginum, góðri dansveislu á Barnum og rólegheitum á Rex þar sem sjálfsálit mitt var í hæstu hæðum í samræðum við háskólastúdínur.


laugardagur, október 21, 2006

2 dagar


Þessi draumur fer senn að enda, aðeins 2 dagar til brottfarar og tvær holur eftir af draumahringnum.

26. hola - par 5 - 476 m

Það er óhætt að taka driverinn í upphafshöggið á þessari holu, ég næ rúmlega 200 metra höggi og verð rétt fyrir framan brautarbunkerana eftir fyrsta högguð. 3 tréð er næst notað og það högg verður beint að flötinni, ég mun eiga um 80 metra eftir þegar kemur að þriðja högginu. Þar kemur pitching wedge að góðum notum, höggið er hnitmiðað og nær inn á flötina. Langt pútt fyrir fugli missir marks en púttið fyrir parinu rétt dettur.Það virðist sem það sé mismunandi viðhorf til ökuhraða í Bolungarvík og Ísafirði. Bolvíkingar hafa búið við 50 km/klst hámarkshraða í öllu þéttbýlinu og virðast vera ánægðir með þann hraða (samanber könnun á www.vikari.is), en 50 km/klst hámarkshraðinn á þar jafnt við um aðalgötur og íbúagötur. Í Ísafjarðarbæ er annað upp á teningnum, þar er ekki vilji fyrir að hækka hámarkshraða á aðalgötum, t.d. í Hnífsdal og Krók, úr 35 km/klst í 50 km/klst sem er þó leiðbeinandi hámarkshraði í þéttbýli samkvæmt íslenskum lögum. Ekki er heldur vilji fyrir því að hækka hámarkshraða á Skutulsfjarðarbraut - "Hraðbrautinni" - úr 60 km/klst í 70 km/klst.

Ætli umferðarslys séu algengari í Bolungarvík þar sem 50 km/klst hámarkshraði er en á Ísafirði þar sem hámarkshraðinn er 35 km/klst? Eru einhverjar sérstakar aðstæður fyrir hendi í Hnífsdal og Krók sem réttlæta lækkaðan hámarkhraða? Hver skyldi vera ástæðan fyrir mismunandi viðhorfum til ökuhraða í þessum tveimur bæjarfélögum?


föstudagur, október 20, 2006

3 dagar


Þá er þetta alveg að skella á, golfsettið er tilbúið og ég er búinn að fylla golfsettið af boltum sem eiga líklega eftir að týnast í trjánum á Islantilla.

25. hola - par 4 - 364 m

Það er í rauninni ekki hægt að nota aðra kylfu en driverinn í upphafshöggið á þessari braut. Markmiðið er að ná boltanum fram fyrir tréð sem er í beygjunni á brautinni. Mitt högg nær rétt fram fyrir tréð þannig að ég á 150 metra eftir að flötinni, í öðru höggi tek ég 3 tréð og freista þess að ná upp að flötinni en þetta högg er upp í móti. Mig vantar örlítið upp á að ná inn á flöt en vippa létt að holu með pitching wedge. Set svo 2 metra pútt niður fyrir parinu.Þegar ég var að leita að vegabréfinu mínu í dag rakst ég á veski með 295 evrum sem ég týndi fyrir ári síðan. Samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans er ég því búinn að græða rúmlega 4 þúsund krónur á því að týna (og finna aftur) þennan falda fjársjóð. Þetta mun koma sér vel á Spáni.


fimmtudagur, október 19, 2006

4 dagar


Það styttist í að maður fari úr kuldanum á Íslandi yfir í hitann á Spáni, í dag er frost hér en á Islantilla er 25 stiga hiti.

24. hola - par 3 - 121 m

Ef ég færi einhverja holu á Islantilla á erni þá væri það 24. holan. Upphafshöggið er létt og tekið með 7 járni, boltinn lendir 2 metrum frá pinna, hann skoppar tvisvar og boltinn rúllar ofan í holuna - Hole In One.Mikið er ég ánægður með að við séum farin að veiða hvali aftur. Og ekki er ánægjan minni í ljósi þess að það var bolvískur ráðherra sem braut ísinn í þessu máli.


miðvikudagur, október 18, 2006

Skylda að læra golf


Kínverjar ætla sér að ná langt í viðskiptaheiminum og því til marks má nefna að háskóli í Kína hefur skyldað nemendur í nokkrum fögum til að læra golf. Ástæðan er einföld, viðskipti nú til dags fara oft fram á golfvellinum og á slíkum viðskiptafundum er betra að kunna undirstöðuatriði íþróttarinnar.Nú eru aðeins fimm dagar, fullir eftirvæntingar, þangað til haldið verður til Islantilla og komið að holu sem hefur leikið mig grátt.

23. hola - par 4 - 336 m

Hér verður maður að taka teighöggið með driver og höggið þarf að heppnast, annars er maður í vondum málum. Upphafshöggið mitt nær 200 metrunum þannig að ég kemst fram fyrir tjarnirnar. Þá á ég eftir um 110 metra að flöt og þar sem hér er mótvindur tek ég upp 7 járnið og aldrei þessu vant hitti ég flötina. Færið fyrir fuglinn er langt þannig að ég tryggi parið og get gengið sáttur að 24. teig.Ég hef á tilfinningunni að það sé stafsetningarvilla í borða á bb.is þar sem "Veturnætur" eru auglýstar. Ég sé ekki betur að þar sé verið að auglýsa "langan laugadag" en ekki "langan laugardag".þriðjudagur, október 17, 2006

Bleiki bikarinn


Þeir sem sáu Ísland í bítið í morgun tóku líklega eftir útdrætti vegna golfmóta sem báru nafnið "Bleiki bikarinn" og voru haldin til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands nú í sumar. Í þættinum voru 6 konur dregnar út og hlutu þær verðlaun. Það sem var merkilegt í þessum drætti var að 3 af þessum 6 konum kepptu á Syðridalsvelli í Bolungarvík. Þær sem unnu til verðlauna voru Sigrún Sigurðardóttir, Guðrún D Guðmundsdóttir og Emma Rafnsdóttir.Einn íslenskur læknir var kallaður "heimilislæknirinn" eftir að hafa slegið upphafshöggi sínu inn í eldhús í einu húsanna hægra megin við brautina.

22. hola - par 4 - 298 m

Hér er sjálfagt að taka upp driverinn fyrir upphafshöggið, boltinn svífur inn fyrir 100 metrana og fær 20 metra rúll niður brekkuna í átt að flötinni. Þar tek ég pitching wedge og set innáhöggið alveg upp að pinna. Stutt pútt og auðveldur fugl í höfn.


mánudagur, október 16, 2006

Hungurverkfall


Þegar ég steig upp frá kvöldverðarborðinu kom ég með þá óvæntu yfirlýsingu að ég væri kominn í hungurverkfall. Ég krefst betri aðbúnaðar á heimilinu og vil fá almennilegan mat. Ég held ég hafi talað fyrir daufum eyrum og ég er ekki frá því að lítill fugl hafi hvíslað því að mér að ég væri bara gikkur og ætti að splæsa í eitt stykki uppþvottavél til að losna við uppvaskið.Það er stundum stutt á milli hægri og vinstri manna, ég er til dæmis í meginatriðum sammála bæjarstjóranum þegar kemur að boðum og bönnum tengdum brennivíni. Lækkum áfengiskaupaaldurinn í 18 ár og leyfum áfengisauglýsingar - en höfum auðvitað einfaldar og skýrar leikreglur um allt saman.Það er ekki gott að vera vinstrisinnaður á 21. braut, það þekki ég af eigin raun.

21. hola - par 5 - 473 m

Það dugir ekkert annað en driverinn í upphafshöggið en jafnframt er mikilvægt að slá beinan bolta niður eftir brautinni. Upphafshöggið mitt verður rúmlega 200 metra langt og mun boltinn enda nálægt brautarbunkerunum. Næsta vopn sem tekið er upp úr töskunni er 3 tréið góða, höggið mitt verður beint niður eftir brautinni þannig að ég geti tekið þriðja höggið um 50 metra frá gríni. Innáhöggið verður frekar auðvelt með sandjárninu. Birdie púttið verður alveg við það að detta en ég sætti mig við parið í þetta skiptið.


sunnudagur, október 15, 2006

Fjör


Það var heldur betur fjör í Kjallaranum í gærkvöldi, sagt er að ég hafi verið manna glaðastur enda ekki annað hægt þegar maður fer út á djammið með á þriðja tug kvenna. Benni Sig var góður í hlutverki trúbadors og við sungum "Í Bolungarvíkinni" og "Undir bláhimni" af miklum eldmóð. Myndir af gleðinni birtast líklega á www.vikari.is bráðlega.Það er ekki nema rúm vika til brottfarar og 8 skemmtilegar holur eftir af draumahringnum mínum. Það verður sjálfsagt leiðinlegt að vakna af þessum góða svefni.

20. hola - par 3 - 142 m

Ég hef verið vanur að taka 7 tré á teig á þessari holu en í þessum draumi nota ég 5 járnið, boltinn svífur milli bunkeranna og skríður inn á flötina. Framundan en 7 metra langt birdie-pútt, eftir miklar pælingar í brotum, halla og hraða kemst ég að þeirri niðurstöðu að best sé að reyna tryggja parið. Púttið verður hnitmiðað beint á holu, miðað var gott og lengdin rétt, og fuglinn dettur óvænt.Í gær tók ég fram körfuboltaskóna sem legið hafa á hillunni í um 15 ár. Hittnin var ekki upp á marga fiska til að byrja með en undir lokin fóru langskotin að hitta ofan í körfuna. Ég er ekki frá því að það sé svipuð tilfinning að skora hreina 3 stiga körfu og að setja niður langt pútt.


laugardagur, október 14, 2006

9 dagar


Þá er komið að draumaholu allra kylfinga, sjálfri 19. holunni...

19. hola - par 4 - 342 m

Það er óhætt að brúka driverinn á teig á þessari braut, upphafshöggið mitt verður létt í þetta skiptið, rétt um 200 metrar þannig að ég mun eiga eftir rúma 100 metra fyrir innáhöggið. Þar tek ég upp 8 járnið og slæ flottan bolta inn á miðja flötina. Púttið fyrir fuglinum er aðeins og fast en 1,5 metra par pútt hringar holuna en dettur samt sem áður.


föstudagur, október 13, 2006

Landi


Þessi frétt minnir mig á góða sögu frá því ég var um tvítugt en þá gerðist einn ónafngreindur vinur minn mjög hagsýnn þegar hann bjó í borg óttans. Hann tók upp á því í félagi við vin sinn (þó ekki mig) að kaupa 50 lítra af landa en með slíkum magninnkaupum náðu þeir lítraverðinu töluvert niður. Þeir hugsuðu sér því gott til glóðarinnar varðandi áfengisdrykkju þann veturinn en þegar á öllu var á botninn hvolft kom í ljós að þetta varð ekki svo ódýrt. Mikil afföll urðu á landanum og virtist sem aðrir einstaklingar hafi notið óeðlilega mikils góðs af landanum þeirra.Annar fararstjóranna okkar á Islantilla síðastliðið vor heitir Sigurpáll Geir Sveinsson og er ekki annað um hann að segja en að hann er prýðisnáungi auk þess að vera frábær kylfingur. Í dag var hann að vinna með yfirburðum eitt af fjórum úrtökumótum fyrir sænsku atvinnumótaröðina. Hann er því kominn með fullan þátttökurétt á Telia mótaröðina á næsta ári. Auðvitað þakkar Siggi Palli vikudvöl á Islantilla fyrir mótið velgengnina - það er spurning hvort dvölin á Islantilla hafi sömu áhrif á okkur Víkarana.Þegar maður stígur á 18. teig er ekki laust við að hungrið fari að segja til sín og að öllu jöfnu hugsar maður til allra kræsinganna sem bíða manns í klúbbhúsinu. Þar er líklega Islantilla hamborgarinn efstur á blaði enda er hann alveg einstaklega girnilegur.

18. hola - par 4 - 320 m

Hérna tek á driverinn í upphafshöggið, að venju er höggið frekar þráðbeint og endar boltinn rétt fyrir framan brautarbunkerinn þannig að um 100 metrar verða eftir í grínið. Þar tek ég upp 8 járnið og slæ frekar léttan bolta beint inn á grín. Þar sem svengdin er farin að segja til sín má ekki búast við að ég setji púttið fyrir fuglinum ofan í holuna, sökum kraftleysis verður púttið aðeins og stutt og ég verð því að sætta mig við parið að þessu sinni.Ég vil hrósa bb.is fyrir að fylgjast vel með störfum hljómsveita sem hafa ísfirska meðlimi. Ampop, Reykjavík!, Nine Elevens, Sign, 7oi að ógleymdum sjálfum Mugison fá verðskuldaða athygli á síðum vefsins þessa dagana. Ég ætti líklega að taka mér bb.is til fyrirmyndar hvað varðar umfjöllun um bolvíska tónlistarmenn á vikari.isÉg fékk símtal áðan frá Finnboga Hermannssyni sem er forstöðumaður Svæðisútvarps Vestfjarða. Tilefnið var tölvupóstur með fréttatilkynningu sem birst hafði á www.vikari.is fyrr í vikunni. Finnbogi virtist fyrst og fremst hafa áhuga á því að vita hvort að vikari.is væri vefur Sjálfstæðisflokksins þar sem tölvupósturinn kom úr netfangi með endinguna @vikari.is. Ég tjáði honum líkt og lesendur þessa bloggs vita (færsla 8. mars 2006) að allir þeir Bolvíkingar sem þess óskuðu gætu fengið netfang með endinguna @vikari.is. Hins vegar hef ég aldrei farið leynt með að vera sjálfur Sjálfstæðismaður og er meðal annars bæjarfulltrúi þess stjórnmálaflokks hér í bæ. En vikari.is er fyrst og fremst fréttavefur þar sem kastljósinu er beint að málefnum Bolungarvíkur og á þeim þremur árum sem vefurinn hefur verið starfandi hafa allir stjórnmálaflokkar sem þess hafa óskað fengið að koma sínum málum á framfæri á vefnum.


fimmtudagur, október 12, 2006

Sjálfsmark


Þetta sjálfsmark er eitt það fyndnasta sem ég hef á ævi minni séð, ég kenni í brjósti um Paul Robinson, markvörð enska landsliðsins.17. holan er einkar falleg og frábært upphafshögg getur gefið góða möguleika á fugli.

17. hola - par 4 - 294 m

Upphafshöggið með drævernum verður alveg fullkomið, beinn og langur bolti yfir hæðina með smá draw til vinstri í lokin þannig að hann fær meira rúll niður brekkuna að tjörninni. Boltin staðnæmist við 50 metrana þannig að ég tek milli (gap) wedge í innáhöggið sem verður alveg upp að pinna. Eftirleikurinn er auðveldur, stutt og öruggt pútt fyrir fugli, beint í miðja holu.
miðvikudagur, október 11, 2006

12 dagar


Það styttist í Spánarferðina og það er komið að 16. holunni sem er ekki sú erfiðasta á Islantilla.

16. hola - par 4 - 308 m

Í upphafshöggið dugir ekkert annað en driverinn, ég tæki fullt högg og fengi smá fade til hægri þannig að boltinn fljúgi alveg eftir brautinni. Boltinn staðnæmist við 80 metrana, þaðan tek ég pitching wedge beint inn á grín. Fimm metra pútt fyrir fugli hafnar í holunni og sjálfstraustið í hæstu hæðum fyrir fallegustu braut vallarins.Íslendingar taka á móti Svíum í landsleik í fótbolta í kvöld, fjölmiðlar í Svíþjóð telja Íslendinga auðvelda bráð... og ég get vel skilið það eftir frammistöðu okkar manna gegn Lettum á síðustu helgi. Ég vona að veðurguðirnir hjálpi okkar mönnum að sigra sænsku súkkulaðidrengina í kvöld. Áfram Ísland!

En að öðru. Undanfarna daga hef ég verið að gramsa í gömlu 90's diskunum mínum. Mér til mikillar ánægju rakst ég á gæðagripinn "Made in Sweden" með Íslandsvininum E-Type. Þarna er á ferðinni eðal eurodance úr smiðju Denniz Pop en hann var maðurinn á bak við marga af þekktustu tónlististarmönnum Svía á 10. áratug 20. aldar. Ég veit að Stálið fílar þennan disk.


þriðjudagur, október 10, 2006

13 dagar


15. hola - par 3 - 106 m

9 járn í upphafshöggið, boltinn er hár og lendir á miðju gríninu og steindrepst þar. Birdie púttið stöðvast svo til á brún holunnar, parpúttið dettur að sjálfsögðu.


mánudagur, október 09, 2006

Skattalækkanir


Ég gleðst alltaf þegar ég heyri að skattar og alls kyns opinberlegar álögur séu að lækka. Í dag var tilkynnt um að 14% vsk-þrepið fari í 7% 1. mars 2007 og að tollar af innfluttum kjötvörum lækki. Sumir segja að að þetta sé gert "korteri fyrir kosningar" en aðrir segja "betra seint en aldrei".

Persónulega vil ég afnema tolla og hafa aðeins eitt virðisaukaskattsþrep sem væri töluvert lægra en 24,5 prósentin sem eru í lögum í dag. Lægri skattprósenta þýðir minni hvati til skattsvika og þar af leiðandi vex hagkerfið okkar á kostnað svarta markaðsins. Það kannast líklega flestir við að hafa verið boðin vara eða þjónusta á 20% lægra verði ef enginn reikningur er gefinn út... slík skattsvik þýða auðvitað að engu er skilað til ríkisins til að reka velferðarkerfið. Þar að auki verður minni þörf fyrir eftirlitsiðnaðinn sem er að drekkja okkur, þar má spara líka.

Ég vil einnig taka undir með einum ágætum manni sem um helgina skoraði á forsætisráðherra að afnema auðlindaskattinn svokallaða. Sá skattur ætti ekki að vera til.Það er þrefaldur skammtur í dag og þrjár skemmtilegar holur teknar fyrir.

12. hola - par 5 - 440 m

Það má ekkert fara úrskeiðis á 12. holu, sérstaklega í upphafshögginu. Ég tek nú samt sénsinn með driverinn á teig hérna, það eru brautarbunkerar vinstra megin í brautinni og vallarmörk báðum megin við brautina, þar að auki hallar brautin frá hægri til vinstri. Upphafshöggið mitt verður langt með smá fade til hægri í lokin, boltinn endar á miðri brautinni þar sem um 150 metrar eru að flöt í beinni línu. Þar tæki ég upp 3 tréð og tæki sénsinn á að skera hornið á brautinni þannig að boltinn endaði rétt fyrir utan flötina. Nú er búið að saga af trénu fyrir framan flötina þannig að ég á eftir létt innáhögg. Þar tek ég upp pitching wedge og rúlla boltanum í átt að holunni... boltinn rúllar og rúllar og dettur að lokum ofan í holuna. Þetta kallast örn og draumarnir gerast ekki betri.

13. hola - par 3 - 126 m

Hérna er það 8 járn í upphafshöggið, boltinn lendir hægra megin á flötinni. Fimm metra birdie-pútt geigar en par er samt tryggt.

14. hola - par 5 - 437 m

Hér er óhætt að taka driver í teighöggið, það er nægt lendingarsvæði en þó er auðvitað best að vera á miðri brautinni. Teighöggið nær inn að 200 metra markinu, þar verður 3 tréð fyrir valinu og mun boltinn enda á miðri braut um 20 metra frá flötinni. Þar tek ég upp 9 járn og tek létt högg inn á grín. Púttið fyrir fuglinum krækir holuna en parið verður öruggt.


sunnudagur, október 08, 2006

KUSN


Ég var á kjördæmisþingi á Ísafirði um helgina, þingið gekk mjög vel fyrir sig og er greinilegt að menn ganga samhentir til kosninga í vor. Helstu tíðindi helgarinnar voru e.t.v. stofnun samtaka sem eru kölluð KUSN og Mímir f.u.s. í Bolungarvík er þar stofnaðili. Ég mun sitja í stjórn KUSN fyrsta starfsárið og það verður vonandi hin mesta skemmtun.


föstudagur, október 06, 2006

Íþróttahátíðin


Hápunktur skólastarfsins í Grunnskóla Bolungarvíkur þegar ég var á unglingsaldri var sjálf íþróttahátíðin. Mér bárust þau gleðilegu tíðindi fyrr í kvöld að Bolvíkingar hafi farið með sigur af hólmi að þessu sinni. Ég er að vonum ánægður með það enda kætir það mig alltaf þegur við vinnum nágranna okkar í íþróttum. Í ár var keppt í fjölmörgun íþróttagreinum og öðrum keppnisgreinum sem eiga lítið skylt við íþróttir. Ég sakna handboltans og spurningakeppninnar en það gladdi mig að sjá að nú til dags er keppt í "sjómanni" á íþróttahátíðinni.

Á sínum tíma var ég í keppnisliði Grunnskóla Bolungarvíkur í borðtennis, skák og svo var ég auðvitað sjálfkjörinn í liðið fyrir spurningakeppnina. Ég var sem sagt nörd - og er það enn.Ég hef oft verið gagnrýndur fyrir að vera fylgjandi byggingu snjóflóðavarnargarðs fyrir ofan byggðina í Bolungarvík. Ég skil vel það sjónarmið að með slíkum garði sé verið að breyta fallega fjallinu okkar - ég er meira að segja alveg sammála því. En mér finnst líf íbúa Bolungarvíkur vera verðmætara en fögur hlíð Traðarhyrnu.

Það hafa verið miklar deilur á Ísafirði um útlit nýbyggðs snjóflóðavarnargarðs og hafa menn verið stóryrtir og talið framkvæmdinni allt til foráttu. Ég ætla ekki að skipta mér af þeirri umræðu. Hins vegar ætla ég að minnast á frétt af nýlegri framkvæmd á skíðasvæðinu í Tungudal, við þessu segi ég ekki: "Fögur er hlíðin"Ellefta holan er löng par 3 hola og þar eru fuglar fátíðir.

11. hola - par 3 - 175 m

Það er oft mótvindur á þessari braut þannig að í góðum draumi nota ég 3 tré í upphafshöggið. Það er engin áreynsla í högginu og boltinn svífur næstum alla leið inn að gríni og staðnæmist rétt fyrir utan flötina. Gott vipp með 7 járni upp að holu tryggir parið.Það virðist vera í tísku að bjóða sig fram í hinum ýmsu prófkjörunum fyrir Alþingiskosningarnar næsta vor. Maður er varla maður með mönnum nema vera í framboði, ætti maður kannski bara að slá til?


fimmtudagur, október 05, 2006

18 dagar


Tíunda holan hefur alltaf verið mér erfið, einhverra hluta vegna á ég erfitt með að halda mig á brautinni og enda iðulega úti í skógi í fyrsta eða öðru höggi.

10. hola - par 5 - 442 m

Ekkert annað en driver dugir í upphafshöggið, að þessu sinni er höggið langt og algjör "þráðari" eins og sagt er. Boltinn staðnæmist nálægt brautarbunkernum og þá er 4 járnið dregið upp og boltinn sleginn öruggt að runnunum þannig að ég eigi um 90 metra eftir fyrir innáhöggið. Þar verður gripið til pitching wedge, höggið mun aðeins beygja af leið og lenda í tré hægra megin við grínið, þaðan dettur boltinn niður á jörðina og rennur inn á grín og staðnæmist um einn metra frá holu. Sem sagt algjört grísahögg. Meterspúttið hafnar örugglega í holunni og þarna kemur annar fugl dagsins - skál fyrir því!Ég las það á netinu að bridge æfingar séu að byrja, mig langar eiginlega meira að æfa póker en bridge - eru engar slíkar æfingar í boði á svæðinu?


miðvikudagur, október 04, 2006

19 dagar


Útsýnið af 9. teig er fallegt og á þessari braut á hótelið það til að flækjast fyrir boltum mínum.

9. hola - par 4 - 323 m

Þetta er einfalt í dag, driver á teig og boltinn lendir rétt aftan við 100 metrana. Létt 6 járn inn á grín, langt pútt fyrir fugli sem missir marks. Parpúttið klikkar ekki.Það er ætlast til þess að ég mæti á 5 fundi næsta sólarhringinn, mér finnst það alltof mikið. Ég er í meira en fullri vinnu dags daglega og svo bætast þessi ósköp við ofan á allt annað. Er það nema von að þegar ég er spurður hvað ég geri í frítímanum að ég svari... ég á engan frítíma.


þriðjudagur, október 03, 2006

20 dagar


Bjarni Pétur vill alltaf fá sopa úr birdie-pelanum (ólíkt Rögga) og er 8. holan því tileinkuð honum.

8. hola - par 3 - 128 m

Loksins komin par 3 hola. Það er eiginlega alltaf mótvindur á þessari braut þannig að ég tek 7 járn í upphafhöggið. Í þessum draumi næ ég háum og fallegum bolta sem lendir 3 metrum hægra megin við holuna. Góður birdie-séns og ég rölti svellkaldur að boltunum og set púttið örugglega ofan í holuna. Fallegur fugl og koníakssnafs á línuna.Það setur að manni óhug þegar maður les fréttir á borð við þessa þar sem segir frá skotárás í skóla í Bandaríkjunum. Það er víst svona að lifa í heimi ofbeldisdýrkunar þar sem eftirlíkingar vopna á borð við byssur teljast til leikfanga barna. Mín æska var algjörlega vopnlaus, ég hef aldrei átt leikfangabyssu og lék mér með aðra uppbyggilegri hluti. Mér dettur ekki heldur í hug að kaupa leikfangabyssur til að gefa börnum systkina minna. Með því er ég ekki endilega að segja að slík leikföng geri börn ofbeldishneigð, mér finnst bara algjör óþarfi að vera að auka hættuna á þau verði það.


mánudagur, október 02, 2006

21 dagur


Niðurtalningin heldur áfram og "Gilið" er næst á dagskrá.

7. hola - par 5 - 465 m

Það má gera hvað sem er á þessari holu nema að slá boltann ofan í sjálft "Gilið". Í upphafshögg nota ég driverinn þó 3 tréð geti líka gengið. Draumastaðan eftir upphafshöggið er að vera staðsettur vinstra megin í brautinni, fyrir framan tréin tvö sem sjást á teikningunni. Þá ættu að vera 230-240 metrar eftir að flötinni. Í annað höggið nota ég 3 tréð og það ætti að skila boltanum yfir "Gilið" og inn fyrir 100 metrana. Þriðja höggið tæki ég líklega með 9 járni og myndi það skila boltanum inn á 7. flötina. Þar sem ég þrípútta aldrei í draumum mínum verður þetta bara auðvelt par.Ég braut af mér í átakinu í hádeginu, mynd náðist af þessu meinta broti mínu (flatbökuát) og skilst mér að sú mynd sé komin í almenna dreifingu á internetinu svokallaða.


sunnudagur, október 01, 2006

22 dagar


Hún er skemmtileg á góðum dögum en getur verið andstyggileg aðra daga. Teigurinn er hátt uppi í brekku, brautin sveigir til hægri og það er stór tjörn fyrir framan flötina sem er ekki sú stærsta.

6. hola - par 4 - 320 m

Þarna er algjör skylda að taka driver í upphafshöggið, á góðum degi fær maður smá fade í höggið þannig að boltinn rúllar í áttina að tjörninni þegar hann lendir. 70-80 metrar eftir að holu og það þýðir pitching wedge fyrir mig í 2. höggið, boltinn lendir í hólnum hægra megin við flötina og rennur þaðan inn á flötina. Að hámarki 2 pútt og parið er tryggt.Hérna eru myndirnar af því þegar 1. flötin á Syðridalsvelli var tekin í gegn í gær.

1. flötin fyrir breytingar

Búið að fletta torfinu af flötinni og byrjað að setja efni til uppfylingar í sárið

Helgi Birgis styður sig við skófluna

Byrjað að tyrfa flötina að nýju

Verki lokið en þó á eftir að snyrta sárin sem mynduðust fyrir utan flötina


Í sjálfu sér sjást ekki miklar breytingar á þessum myndum en það sem við gerðum var: Tangi fremst á flötinni var tekinn, lægðin millil efri og neðri palls var fyllt upp með sandi og myndaður var vatnshalli á flötinni þannig að minni hætta er á að vatn safnist fyrir á flötinni þegar snjóa leysir á vorin.


Baldur Smári
  • » Tölvupóstur «

  • » að skoða «

Bloggarar


Tenglar


Líkamsrækt


HuxjónirATOM 0.3